Fóstureyðingar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég skal lofa því að reyna að spara eitthvað af þeim tíma sem ég eyddi áðan við að svara þessari fyrirspurn sem liggur fyrir og er í tveimur liðum.
    Fyrri liður fyrirspurnarinnar: ,,Hvað kostar ein fóstureyðing (aðgerð og legudagar) þjóðfélagið?`` Langflestar fóstureyðingar hér á landi eru gerðar á kvennadeild Landspítalans og var því leitað upplýsinga þar um kostnað við fóstureyðingu. Nákvæmar tölur liggja ekki fyrir en samkvæmt upplýsingum frá áætlanadeild ríkisspítalanna er áætlað að ein fóstureyðing kosti nú um 26 þús. kr. Innifalið í þessari upphæð eru viðtöl við lækna og félagsráðgjafa fyrir aðgerð, svo og svæfing og aðgerð og lega inni á deildinni ef það er nauðsynlegt.
    Seinni liður fyrirspurnarinnar hljóðar svo: ,,Hve margar fóstureyðingar voru gerðar árið 1989 á Íslandi?`` Á árinu 1989 voru gerðar 654 fóstureyðingar hér á landi samkvæmt upplýsingum landlæknisembættisins. Þetta er nokkuð lægri tala en á árinu 1988 en þá voru fóstureyðingar 673 og á fimm ára tímabili, 1981--1985, voru þær 670 að meðaltali hvert ár. Miðað við þessar tölur var heildarkostnaður heilbrigðiskerfisins vegna fóstureyðinga um 17 millj. kr. árið 1989.