Fóstureyðingar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Sigríður Lillý Baldursdóttir:
    Virðulegi forseti. Fyrirspurn sú sem hér er til umræðu varðandi fóstureyðingar kallar á aðrar spurningar sem krefjast svara og viðbragða í samfélaginu. Á bak við sérhverja fóstureyðingu er sorgarsaga. Það er mín skoðun að það gangist engin kona undir slíka aðgerð öðruvísi en nauðbeygð.
    Ástæður þess að grípa þarf til fóstureyðingar geta verið margvíslegar. Sumar eru þess eðlis að því miður er ekki hægt að koma þar við neinum forvörnum. Aðrar hins vegar eru því miður ef til vill með þeim hætti að við gætum með samstilltu átaki og ábyrgð gert samfélagið þannig úr garði að hjá þeim mætti komast með því m.a. að gera samfélagið fært um að taka ætíð vel á móti öllum nýjum samfélagsþegnum en á því er nú misbrestur. Og með bættri kynlífsfræðslu mætti einnig koma í veg fyrir ótímabærar þunganir og þá um leið í veg fyrir fóstureyðingar.
    Kvennalistinn hefur bæði með þingsályktunartillögu, fyrirspurnum, frumvörpum og breytingartillögum við frv. til fjárlaga margoft lagt til að taka til hendi hér af myndarskap, bæði að því er varðar kynlífsfræðsluna og bætur í samfélagsgerðinni til handa nýfæddum börnum og mæðrum þeirra. En því miður höfum við oftast talað fyrir daufum eyrum annarra þingmanna.