Norræna ráðherranefndin 1989-1990
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Hæstv. forseti. Eins og þegar er komið fram er að finna á þskj. 610 skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um starfsemi norrænu ráðherranefndarinnar á sl. ári, nánar tiltekið frá síðasta þingi Norðurlandaráðs sem var það 37. í röðinni og haldið í Stokkhólmi í febrúarlok 1989 og fram til 38. þings Norðurlandaráðs sem verður haldið í Reykjavík í næstu viku.
    Á þessu starfsári hefur orðið sú breyting að við myndun nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Steingríms Hermannssonar hinn 10. sept. sl. tók ég við starfi samstarfsráðherra Norðurlanda af hæstv. iðnrh. Jóni Sigurðssyni. Hann hafði þá gegnt starfi samstarfsráðherra frá myndun fyrra ráðuneytis Steingríms Hermannssonar á þessu kjörtímabili hinn 28. sept. 1988. Því fellur það í minn hlut að leggja þessa skýrslu fram á Alþingi til umræðu nú.
    Íslendingar hafa farið með formennsku í öllum meginnefndum Norðurlandaráðs á liðnu starfsári í samræmi við þá hefð að það land sem heldur næsta Norðurlandaráðsþing tekur við formennsku. Þannig hefur samstarfsráðherra Norðurlanda í íslensku ríkisstjórninni verið formaður norrænu ráðherranefndarinnar á starfsárinu. Í formennskutíð hæstv. iðnrh. voru haldnir fjórir fundir norrænu samstarfsráðherranna en aðrir fjórir fundir undir formennsku núv. samstarfsráðherra. Til aðstoðar samstarfsráðherra er skrifstofa Norðurlandamála í utanrrn. Þar eru tveir starfsmenn, Jón Júlíusson skrifstofustjóri sem er staðgengill samstarfsráðherra og Áslaug Skúladóttir deildarstjóri. Hefur Jón verið formaður norrænu staðgenglanefndarinnar seinni hluta starfsársins en Haukur Ólafsson, sendiráðunautur í utanrrn., gegndi störfum fyrir Jón í veikindaforföllum hans fyrri hluta starfsársins.
    Skýrsla samstarfsráðherra byggir að nokkru leyti á skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar til Norðurlandaráðs um Norðurlandasamstarfið, svokallaðri C1 skýrslu þar sem fjallað er á ítarlegan hátt um hin ýmsu samstarfsverkefni á starfsárinu og fjárhags- og rekstrargrundvöll þeirra. Er sú skýrsla upp á 315 blaðsíður. Til marks um umfang hinnar norrænu samvinnu er niðurstaða fjárhagsáætlunar fyrir árið 1990 fyrir Norðurlandaráð og norrænu ráðherranefndina alls 678 millj. danskra króna.
    Þá er í fyrsta sinn leitað til hinna ýmsu ráðuneyta innan Stjórnarráðsins eftir upplýsingum um þátt þeirra í norrænu samstarfi. Flest ráðuneytin sendu yfirlit yfir hin ýmsu norrænu samstarfsverkefni sem þau hafa unnið að og eru þeim hér með færðar þakkir fyrir. Í skýrslu samstarfsráðherra er síðan reynt að draga saman meginþættina í starfsemi ráðherranefndarinnar og gefa yfirlit yfir starfsemina séð frá sjónarhóli Íslendinga. Ég mun fara hér yfir helstu verkefnin séð frá okkar sjónarhóli og mig langar fyrst að fjalla um verkefnið Norðurlönd og Evrópa.
    Sérstök áhersla hefur verið lögð á að halda áfram verkefninu Norðurlönd og Evrópa 1989--1992, sem

hófst árið 1988. Í góðri samvinnu við Norðurlandaráð er leitast við að kanna áhrif hins fyrirhugaða innri markaðar Evrópubandalagsins á norræna samvinnu í framtíðinni. Þannig var haldið sérstakt aukaþing Norðurlandaráðs í Maríuhöfn á Álandseyjum 13. og 14. nóv. á sl. ári þar sem starfsáætlun ráðherranefndarinnar, Norðurlöndin í Evrópu 1989--1992, var höfuðmál þingsins. Starfsáætlunin hefur síðan verið endurskoðuð og afhent Norðurlandaráði á nýjan leik til umræðu á 38. þingi þess í Reykjavík.
    Starfsáætlunin tekur í heild til 82 sviða sem snerta afstöðu Norðurlandanna gagnvart þeim miklu breytingum sem eru í vændum innan Evrópu. Starfsáætlunin á fyrst og fremst við um hinn innri markað Evrópubandalagsins 1992 og væntanlegar samningaviðræður EFTA-landanna og Evrópubandalagsins um samevrópskt efnahagssvæði 18 ríkja Vestur-Evrópu, svo og hina öru þróun sem nú á sér stað í Austur-Evrópu.
    Á aukaþinginu í Maríuhöfn bar málefni Austur-Evrópu mjög á góma sem eðlilegt er, enda þar fjallað um hugmyndir um hugsanlegt samstarf milli Norðurlandaráðs og Sovétríkjanna, einkum þó Eystrasaltslandanna. Hafa mál þróast þannig að fyrirhugað er að þingmannanefnd á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs fari til Moskvu innan skamms og eigi viðræður við Æðstaráð Sovétríkjanna. Áður hefur embættismannanefnd á vegum Norðurlandaráðs farið til Moskvu til viðræðna um með hvaða hætti hugsanlegu samstarfi Sovétríkjanna og Norðurlandaráðs, einkum á sviði menningar- og umhverfismála, skuli hagað.
    Það er ljóst að Norðurlöndin verða að huga vel að málefnum Evrópu. Hlutirnir gerast nú með ógnarhraða og því mikilsvert að Norðurlöndin haldi vöku sinni. Norræna ráðherranefndin mun því fylgjast vel með þróun mála í Evrópu og huga að framtíðarstöðu norræns samstarfs í því samhengi. Norðurlöndin eru sammála um að varðveita það sem áunnist hefur í norrænu samstarfi þótt þau komi til með að tengjast hinu sameiginlega evrópska efnahagssvæði með einum eða öðrum hætti. Þannig hefur m.a. áfram verið unnið að efnahagsáætluninni ,,Öflugri Norðurlönd`` en framkvæmd hennar er þegar hafin á flestum sviðum.
    Ráðherranefndin gerir m.a. ráð fyrir að í síðasta lagi 1. júlí 1990 verði búið að ryðja burt síðustu hindrununum vegna frjálsra fjármagnsflutninga milli
landanna. Íslendingar hafa gert fyrirvara um þetta atriði og á þessi tímasetning því ekki við um Ísland.
    Þá hefði ég viljað fjalla í nokkru máli um umhverfismál. Norrænt samstarf á sviði umhverfismála verður stöðugt víðtækara. Árið 1989 var gerð tillaga um endurskoðun á framkvæmdaáætluninni um varnir gegn mengun sjávar. Tillögur ráðherranefndarinnar um ráðstafanir til mengunarvarna sjávar og mörkun stefnu í þeim efnum voru lagðar fram og verða áfram til umræðu á þingi Norðurlandaráðs. Sérstök ráðstefna um mengun sjávar var haldin á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í október sl. Hana

sóttu fulltrúar 15 þjóðþinga. Þá hefur verið unnið að gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar um varnir gegn loftmengun. Felur hún m.a. í sér markmið, leiðir og ráðstafanir til að sporna við loftmengun, einkum hvað varðar aðgerðir til að draga úr útblæstri gastegunda í andrúmsloftið. Í stefnuyfirlýsingu Norðurlandanna í umhverfismálum sem var samþykkt í janúar 1989 er í viðauka gerð grein fyrir þeim áformum að á tímabilinu 1989--1994 skulu allar bifreiðar vera með mengunarvarnabúnaði samkvæmt bandarískum stöðlum. Á Íslandi er gert ráð fyrir samkvæmt mengunarvarnareglugerðinni að frá og með 1992 verði allar nýjar bifreiðar með mengunarvarnabúnaði samkvæmt bandarískum stöðlum.
    Þá hefur einnig verið gerð framkvæmdaáætlun um úrgang. Gerir hún ráð fyrir að bæta verulega sorphirðu, meðferð og eyðingu hættulegra úrgangsefna. Skal stefnt að því að nota bestu mögulega tækni í því sambandi. Er áætlunin gerð í samræmi við niðurstöður Brundtland-nefndarinnar.
    Á aukaþingi Norðurlandaráðs í Maríuhöfn í nóvember 1989 var enn fremur fjallað um stofnun norræns fjárfestingarfélags sem taki þátt í fjármögnun aðgerða til umhverfisbóta í Austur-Evrópu. Umhverfisráðherrar Norðurlandanna lýstu stuðningi við þau áform og verður endanlega gengið frá tillögum þar að lútandi á 38. þingi ráðsins í Reykjavík. Umhverfisráðherrarnir samþykktu enn fremur mótmæli við byggingu endurvinnslustöðvar fyrir kjarnorkuúrgang í Dounreay í Skotlandi og var þeim mótmælum komið á framfæri við bresku ríkisstjórnina. Umhverfisráðherrarnir munu einnig leggja þetta mál fyrir Parísarnefndina sem fjallar um mengun í sjó frá landstöðvum og leggja það fyrir fyrirhugaða ráðstefnu um mengunarvarnir í Norðursjó sem verður haldin í Hollandi í marsmánuði.
    Norðurlandaráð og ráðherranefndin hafa samþykkt að norrænt umhverfis- og líffræðiár verði haldið 1990 til 1991. Er miðað við að umhverfisárið hefjist 5. júní n.k. en það er umhverfisdagur Sameinuðu þjóðanna. Ákveðið hefur verið að norrænu félögin annist framkvæmdina í samráði við ráðherranefndina og var starfsáætlun samþykkt á fundi umhverfisráðherranna í Maríuhöfn. Yfirstjórn þessa verkefnis verður í höndum sérstakrar norrænnar nefndar og verður forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, formaður hennar.
    Þá hafa ráðherrar neytendamála tekið ákvörðun um að koma á norrænni umhverfismerkingu á neysluvörur sem sýni að þær séu í samræmi við norræna umhverfismálastefnu.
    Næst hefði ég viljað fjalla um menningarsamstarf Norðurlanda. Samstarf Norðurlanda á sviði menningar- og menntamála er sem áður hornsteinn norrænnar samvinnu. Í janúar 1989 voru m.a. staðfestar reglur um Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn og hefur hann nú tekið til starfa. Hann verður sjálfseignarstofnun með aðild ráðherranefndarinnar fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðherra og norrænna sjónvarps- og kvikmyndastofnana. Af Íslands hálfu munu Ríkisútvarpið, Stöð 2 og Kvikmyndasjóður

Íslands eiga aðild að Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Fyrstu fimm árin mun sjóðurinn fá til ráðstöfunar 45 millj. danskra króna árlega en honum er ætlað það hlutverk að styrkja norræna sjónvarps- og kvikmyndagerð.
    Mjög fjölþætt starf hefur átt sér stað á sviði skólamála á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. NORDPLUS-verkefnið heldur áfram af fullum krafti en tilgangur þess er að greiða fyrir samskiptum og samstarfi allra æðri menntastofnana á Norðurlöndum. Styrkir til nemenda- og kennaraskipta milli menntastofnana voru alls 700 á árinu og voru veittar samtals 11 millj. danskra krónaí þessu skyni.
    Nú hefur verið ákveðið að 1 / 10 hluti fjárframlags til NORDPLUS-verkefnisins fyrir árið 1990 sem nemur alls 17 1 / 2 millj. danskra króna renni til samskipta nemenda og kennara á framhaldsskólastigi en það hefur verið kallað NORDPLUS JUNIOR verkefnið. Á sviði rannsókna og æðri menntunar starfar norræna vísindaráðið og hefur það lagt fram tillögur um stefnumörkun fyrir starfsemi sína og þar með áhersluatriði þess í norrænu vísindasamstarfi 1990--1992. Verða þessar tillögur til umræðu og til væntanlegrar staðfestingar á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í næstu viku.
    Of langt mál yrði að telja upp hin fjölmörgu önnur verkefni á sviði menningar- og menntamála sem ráðherranefndin hefur afskipti af og tengjast norrænu samstarfi. Hins vegar verður ekki undan því vikist að nefna hugmyndir um niðurskurð á fjárframlögum til ýmissa norrænna stofnana. Með hliðsjón af þeim hugmyndum um breytingu á fjárlagagerð Norðurlandaráðs og
ráðherranefndarinnar sem miða að því að gera fjárlagakerfið skilvirkara og veita betri heildaryfirsýn yfir ráðstöfun fjármuna hefur verið ákveðið að hverfa frá þeirri grundvallarviðmiðun að fjárlögin hækki sjálfkrafa milli ára um 3% að raungildi. Framvegis verður einungis tekið mið af vel rökstuddum tillögum um kostnaðarhækkanir og hinum ýmsu fagsviðum gert að raða verkefnum í forgangsröð og endurskoða þau með reglulegu millibili.
    Á vegum menningarmálanefndar, embættisnefndar ráðherranefndarinnar fyrir hönd menningar- og menntamálaráðherra, var starfshópi falið að gera tillögur um sparnað og tilsvarandi endurskoðun á ýmsum verkefnum, þar með talinn rekstur ýmissa norrænna stofnana. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til embættismannanefndarinnar þar sem m.a. kom fram sú hugmynd að leggja niður ýmsar norrænar stofnanir. Þetta hefur vakið áhyggjur margra og sætt mikilli gagnrýni en ég vil geta þess að hér er um að ræða tillögur starfshóps sem var settur á laggirnar af embættismannanefndinni sem fjallar um menningar- og menntamál og það ber að líta á þessar tillögur sem slíkar. Þær hafa alls ekki verið samþykktar endanlega né heldur frá því gengið að þær muni ná fram að ganga.
    Í tillögum starfshópsins er lagt til m.a. að leggja niður fjórar norrænar stofnanir sem eru Norræna

stofnunin fyrir Asíurannsóknir í Kaupmannahöfn, Norræna skipulagsstofnunin Nordplan, Norræna sjóréttarstofnunin í Osló og Norræna stofnunin fyrir þjóðleg fræði í Helsinki. Enn fremur lagði starfshópurinn til að skera niður fjárhagsáætlun nokkurra norrænna verkefna. Í skýrslu sem starfshópurinn skilaði til embættismannanefndarinnar er þetta kallað ostaskurðaraðferðin, þ.e. að tálga utan af fjárlögum með ostaskera. Um eftirfarandi verkefni er að ræða: norræna ráðið fyrir sjávarlíffræði, norræna ráðið fyrir vistfræði, norræna ráðið fyrir haffræði, norræna samstarfsnefndin fyrir læknisvísindi á heimskautssvæðum, norræna samstarfsnefndin fyrir alþjóðastjórnmálafræði, þar með taldar friðar- og átakaathuganir og rannsóknir, norræna samstarfsnefndin fyrir rannsóknir sem tengjast krabbameinsathugunum, norræna samstarfið vegna rannsókna á málefnum Suður-Ameríku og norræna nefndin sem fer með rannsóknir á málefnum Austur-Evrópulanda.
    Ég vil taka það fram að það hefur ekki verið tekin nein endanleg ákvörðun um hvernig staði skuli að breyttum forsendum í sambandi við fjárlagagerðina, en þau koma til með að byggja á því, eins og áður gat, að fjárlögin munu eftirleiðis ekki gera ráð fyrir sjálfvirkri hækkun milli ára sem hefur verið 3% að raungildi undanfarin þrjú ár heldur verður byggt á forgangsröðun verkefna og á því að nauðsyn hinna ýmsu verkefna verði endurskoðuð árlega. Það fellur því í verkahring ráðherranefndarinnar, þ.e. menningar- og menntamálaráðherranna, að taka endanlega ákvörðun um hvernig þeir vilja verja þeim fjármunum sem þeim verða ætlaðir á norrænu fjárlögunum og gera forgangsröðun um þau verkefni sem þeir vilja að nái fram að ganga. Við bíðum eftir því að fá niðurstöður menningar- og menntamálaráðherranna og embættismannanefndar þeirra um hvernig þeir hyggjast bregðast við hinum breyttu viðhorfum í fjárlagagerðinni. Það er alls ekki þar með sagt að þessar stofnanir sem hér um ræðir verði lagðar niður né að endilega verði tálgað utan af fjárlögum þeirra verkefna sem ég nefndi. Þetta voru aðeins tillögur starfshóps sem var ætlað að fara yfir og athuga þessi mál en það má allt eins vera að við nánari athugun komist menn að allt annarri niðurstöðu og það verði önnur verkefni sem huganlega verði skorin niður og/eða aukin. Þetta vildi ég segja af því að það hefur verið töluverð umræða um einmitt þetta mál og m.a. voru hér tvær eða þrjár fyrirspurnir út af þessu í Sþ. á fundinum í morgun.
    Þá langar mig til að fjalla um önnur samstarfsverkefni en það yrði of langt mál að gera þeim öllum skil hér í framsögu með skýrslunni. Ég læt mér nægja að vísa til skýrslunnar þar sem þau eru flestöll talin upp. Mig langar þó til að taka sérstaklega fyrir tvö verkefni. Það eru Norræni fjárfestingarbankinn og Norræni verkefnaútflutningssjóðurinn.
    Norræni fjárfestingarbankinn hefur starfað í 13 ár og hefur tvímælalaust sannað gildi sitt sem einn

árangursríkasti vettvangur norræns samstarfs. Íslendingar hafa notið góðs af útlánum bankans en á árinu 1989 veitti bankinn íslenskum aðilum samtals lán að upphæð 68,7 millj. SDR sem er jafnvirði 5,5 milljarða íslenskra króna. Heildarlán bankans til íslenskra aðila nema í árslok 1989 um 18 milljörðum íslenskra króna.
    Norræni verkefnaútflutningssjóðurinn var stofnaður 1982. Hann hefur það verkefni með höndum að styrkja norræn fyrirtæki og stofnanir til að gera forathuganir og arðsemisathuganir vegna verkefna sem gætu leitt til verk- og sölusamninga utan Norðurlandanna. Er fyrst og fremst haft í huga að ná viðskiptasamningum við löndin utan hins vestræna heims, þ.e. þróunarlönd og Austur-Evrópu. Eftirspurn eftir aðstoð frá sjóðnum hefur farið ört vaxandi og má búast við að íslensk fyrirtæki eigi eftir að njóta góðs af starfsemi sjóðsins. Eitt íslenskt fyrirtæki, Virkir-Orkint hefur fengið fyrirgreiðslu hjá Norræna fjárfestingarbankanum sem er móðurstofnun Norræna
verkefnaútflutningssjóðsins vegna jarðhitaframkvæmda í Ungverjalandi í samvinnu við þarlenda aðila. Áframhald slíkra verkefna fellur því vel að starfsvettvangi sjóðsins. Nýlega hefur Þorsteinn Ólafsson, efnahagsráðgjafi forsrh., verið ráðinn forstjóri Norræna verkefnaútflutningssjóðsins. Er hann fyrsti Íslendingurinn sem er ráðinn til forstjórastarfs á vegum ráðherranefndarinnar utan Íslands.
    Að lokum langar mig til að fjalla um þær tillögur sem ráðherranefndin mun leggja fram á 38. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í næstu viku. Það er allt of langt mál að gera grein fyrir öllum þeim tillögum í smáatriðum og leyfi ég mér að vísa til skýrslunnar um nánari umfjöllun um tillögurnar, en alls er um að ræða 12 tillögur frá ráðherranefndinni sem eru eftirfarandi:
     1. Samningur um gagnkvæma viðurkenningu æðri menntunar.
     2. Norrænt fjármögnunarfélag á sviði umhverfismála.
     3. Víkkun á lánaramma verkefnalána Norræna fjárfestingarbankans.
     4. Stefnumörkun Norræna vísindaráðsins.
     5. Framkvæmdaáætlun um norrænt tungumálasamstarf 1991--1995.
     6. Breyting á reglugerð menningarmálasjóðsins.
     7. Samstarfsáætlun um vinnuumhverfi.
     8. Framkvæmdaáætlun um sorphirðu og eyðingu úrgangsefna.
     9. Framkvæmdaáætlun um varnir gegn mengun sjávar.
    10. Framkvæmdaáætlun um varnir gegn loftmengun.
    11. Samstarfsáætlun um byggðamál.
    12. Framkvæmdaáætlun um landbúnaðarmál og skógnytjar.
    Að auki hefur ráðherranefndin á fundi sínum í Kaupmannahöfn hinn 31. jan. sl. fjallað um tillögur jafnréttisráðherra Norðurlanda um að halda nýja kvennaráðstefnu, svokallaða Nordisk Forum á árinu

1994 eða 1995. Þessi tillaga hlaut jákvæðar undirtektir ráðherranefndarinnar en ekki vannst tími til að gera hana að formlegri ráðherranefndartillögu fyrir þing Norðurlandaráðs í næstu viku. Hennar mun þó getið í framsöguræðu formanns ráðherranefndarinnar á þinginu.
    Þá hafa Svíar komið með tillögu til ráðherranefndarinnar um að halda samnorræna ungmennaráðstefnu með svipuðu sniði og kvennaráðstefnuna. Hefur sú hugmynd hlotið góðar undirtektir hjá samstarfsráðherrunum. Sömu sögu er að segja um tillögu frá Svíum um að koma upp norrænni menningarstofnun, norrænu húsi í Riga, höfuðborg Lettlands.
    Virðulegi forseti. Ég hef farið í nokkrum orðum yfir inntak þeirrar skýrslu sem ég legg fram á Alþingi um störf norrænu ráðherranefndarinnar. Eins og gefur að skilja er hér um mjög viðamikið mál að ræða, enda eru verkefnin mörg og ekki hægt að gera þeim nákvæmlega skil í stuttu máli. Að lokum vil ég segja eftirfarandi:
    Oft bryddar á því í almennri umræðu um Norðurlandasamstarfið að það sé gagnslítið, það sé fyrst og fremst mikið málæði og miklar ritsmíðar en lítið gagn höfum við af þessu öllu saman. Ég er samt ansi hræddur um að ef í einu vetfangi yrði kippt í burtu öllum þeim ávinningi sem við höfum haft af Norðurlandasamstarfinu og við vöknuðum upp við það á morgun að við nytum í engu þeirra réttinda sem Norðurlandasamstarfið hefur fært okkur, þá mundu margir vakna upp við vondan draum og verða hissa. Sannleikurinn er sá að við tökum mikið af þessum réttindum sem sjálfsögðum hlut, það sem við eigum hreint alveg sjálfgefið í okkar daglega lífi, m.a. það að við getum farið til hinna Norðurlandanna án þess að sýna vegabréf, við getum leitað að vinnu hvar sem er á Norðurlöndunum, notið þar félagslegrar þjónustu, Íslendingar geti sótt um verkefnalán til Norræna fjárfestingarbankans og margt, margt fleira mætti telja upp. Ég held að það þurfi enginn að skammast sín fyrir að mæla fyrir norrænu samstarfi hvað svo sem menn hafa að segja um þau mál og þá gagnrýni sem oft heyrist um að norrænt samstarf sé fyrst og fremst málþing og pappír. Það er rangt að mínum dómi. Norrænt samstarf hefur skilað Íslendingum miklum og góðum hagsmunum sem við njótum í dag.