Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég get lýst því hér yfir og fer ekkert á milli mála að það er vilji Sjálfstfl. að styðja að því að þetta frv. nái fram að ganga og fljótt og vel þó sjálfsagt sé auðvitað að menn spyrji hér spurninga og leiti skýringar. Það er ekki neinn munur á skoðun okkar sjálfstæðismanna í þessari deild og í Nd. og þess vegna ætti að verða auðvelt að afgreiða þetta frv. án mikilla tafa.
    Þess er líka að geta að strax og það spurðist út að einhverjar vonir væru til að unnt yrði að ná samkomulagi á vinnumarkaði þannig að aðilar vinnumarkaðarins eins og það er nú kallað, þ.e. launþegar annars vegar og vinnuveitendur hins vegar, gætu náð samningum sem yrðu á lágu nótunum eins og það hefur verið nefnt, þ.e. litlar kauphækkanir sem gætu þýtt einhvern stöðugleika í þjóðfélaginu, þá lýsti formaður Sjálfstfl. þegar í stað yfir að Sjálfstfl. mundi ekki berjast gegn slíku heldur beinlínis stuðla að því eftir því sem í hans valdi væri. Það voru sem sagt þeir menn sem vinna í trúnaðarstörfum annars vegar fyrir launþega og hins vegar vinnuveitendur sem leystu þetta mál og komu því í kring. En ég vil biðja hv. þm. af því að sumir gleðjast hér og ég geri það gjarnan líka að hlýða nú á það sem ég ætla að segja.
    Það er engin gleði í mínum huga að vita af þeim kjörum sem það fólk á að búa við sem ýmist er á atvinnuleysisstyrkjum eða í láglaunastörfum. Ég held að það geti ekki verið gleði í huga neins Íslendings yfir því að svo skuli komið að slíka kjarasamninga þurfi að gera sem þýða gífurlegar kjaraskerðingar, sem þegar hafa að vísu gengið yfir að mestu leyti en eru þó fram undan líka, og vaxandi kreppu í þjóðfélaginu. Þannig er ástandið á Íslandi að kjör hafa ekki bara versnað mjög mikið sl. ár og eru enn að versna heldur hefur kjaramismununin, launamismununin líka stórlega vaxið. Óréttlætið í
þjóðfélaginu fer vaxandi með hverjum deginum sem líður. Yfir þessu getur enginn glaðst. Þetta var nauðvörn fólksins hygg ég eða kjarkur forustumanna launþegasamtakanna að þora að gera þessa samninga og það var nauðvörn fólksins að styðja þá í því að svo miklu leyti sem það hefur þá verið gert. Ég get ekki ráðið í tölurnar sem við höfum af fundum í verkalýðsfélögunum, þeir eru yfirleitt fámennir og ég get ekki ráðið af þeim í hug fólksins. En ég held að hugur fólksins til okkar alþm. sé ekkert glæsilegur um þessar mundir. ( KP: Það er rétt.) Og þess vegna er alveg ástæðulaust að vera að gleðjast mikið yfir því að svona kjarasamninga skuli þurfa að gera og atvinnuvegirnir meira og minna í rúst og kjörin fara ekki bara versnandi almennt heldur líka kjaramunurinn vaxandi. Þetta held ég að við eigum að hafa í huga og þó að við auðvitað bregðum hér á glens stundum og ekki hlæ ég síður en aðrir ef sagðir eru hnyttnir hlutir, þá er mér ekkert slíkt í huga núna á þessari stundu þó að ég lýsi að sjálfsögðu yfir stuðningi flokksins við þær aðgerðir sem hér eru til umræðu og aðeins lina þá erfiðleika sem láglaunafólkið verður við

að búa. Og ég held að við getum öll hugsað á þann sama veg og ég veit að við gerum það raunar öll.
    En hver er þá leiðin til þess að bæta kjörin? Hún er ekki sú að halda hér áframhaldandi kreppuástandi, síður en svo. Hún er ekki leið skattlagningarinnar, ofsköttunarinnar á öllum sviðum þar sem leitað er að nýjum tekjuliðum eða eignaliðum til að skattleggja þá, færa eignarráðin frá fólkinu og fyrirtækjunum yfir í ríkisvaldið, ríkishítina sem verið er að gera á hverjum einasta, einasta degi. ( Gripið fram í: Það er ekki gert núna.) Er það ekki gert núna? Skattlagningar. Eru ekki að dynja yfir skattlagningar sem ekki þekktust áður? Ég held að það viti allir menn að þeir greiða hærri skatta núna heldur en nokkru sinni fyrr, bæði háir og lágir. Þetta er mesta skattpíningarþjóðfélag sem hugsast getur. Og það er sem sagt verið að svipta fólkið eignarráðum að fjármunum þjóðfélagsins á hverjum einasta, einasta degi, bæði fólkið og fyrirtækin og færa yfir til ríkisins, í ríkishítina, hina mismunandi sjóði og stofnanir. Það er verið að því alla daga, það veit hv. þm. (Gripið fram í.) Mér er ekkert glens í huga á þessari stundu. Ef hv. þm. Karvel Pálmason vill glensast, þá held ég að hann ætti að gera það í öðru en umræðu um kjör láglaunafólks. Hann ætti að gera það í umræðu um margt annað og ætlar nú víst að gera það hér, vona ég, í sambandi við kvótamál t.d. og ýmislegt slíkt og ég kannski bregð á glens við hann þar. En ég vil fá að ljúka þessu án þess að það sé verið að gantast með það, þessa staðreynd sem okkur ber öllum að hafa fast í huga og ég veit að við erum með í huga að kjarasamningana var sjálfsagt óhjákvæmilegt að gera þannig að það væru kjaraskerðingarsamningar, það eru þeir og það er mikill kjarkur hjá leiðtogum verkalýðs og launþega að þora að gera þessa samninga og ég hrósa þeim fyrir það. Það fer ekki á milli mála, það þurfti kjarkmenn til þess og það þurfti stillingu og aðgæslu og gífurlegt starf til þess að ná þessum samningum saman. Ekkert af því var ríkisstjórn að þakka, síður en svo. Allan tímann var hún að hækka sínar álögur, hrifsa meira til sín á einu sviði og öðru. Alls staðar fór
verðlag hækkandi, alls staðar fór þjónusta hækkandi. Allt gerðist þetta á sömu stundu og fólkið háði sína nauðvarnarbaráttu. Hún heldur auðvitað áfram næstu mánuðina og missirin.
    Og þá ætla ég enn að víkja að því hvað ég tel hennar réttu stefnu, ég hef raunar skrifað um það og rætt a.m.k. allar götur frá 1978, ráðlagt ríkisstjórnum að slaka á klónni, að ríkið gæfi eftir og það gæfi það mikið eftir og ekki síst á neyslusköttum að allt verðlag stöðvaðist og verðbólga. En fólk gæti samt búið við óbreytt kjör um stundarsakir ef allt verðlag stöðvaðist af sjálfu sér sem það mundi hafa gert ef það væri farið að þeim ráðum að lækka álögurnar. Og í því tilfelli hefði ég ekkert verið hræddur við það og er meira að segja mikill stuðningsmaður þess að ríkissjóður væri rekinn með halla. Það hefur gerst í flestum lýðræðislöndum ef ekki öllum að einhver halli sé á ríkissjóði þegar rétt er upp gert en það á ekki að

nota þann halla til að auka á hítina, til að auka á yfirbygginguna. Það á að nota þann halla til að gera kjör fólksins þannig að það þurfi ekki að knýja fram kauphækkun og það er einfalt mál. Og hvað gerist þegar það þarf ekki að knýja fram kauphækkun? Verðbólgan stöðvast af sjálfu sér. Atvinnuvegirnir ganga. Fólkið lifir við betri kjör og meira öryggi. Og hvað gerist þá? Þá auðvitað snúast hjól atvinnulífsins og þá vex framleiðslan og þá batna lífskjörin og þá er hægt að bæta þau og þá má kannski fara að borga aftur þann halla sem hefur orðið á ríkissjóði kannski í eitt, tvö eða þrjú ár. En þó að ríkið fái eitthvað af því fé sem það þarf til framkvæmda að láni hjá borgurunum um skeið þá er ekki verið að velta böggum á komandi kynslóðir ef um er að ræða innlendan sparnað. Þvert á móti. Þessir peningar eru vel notaðir ef þeir færu til framkvæmda. Ef þjóðin, þ.e. ríkissjóður, skuldar svo og svo mikið, við skulum segja 100 milljarða eða eitthvað slíkt á einhverju árabili af því að hann hafi tekið lán hjá borgurunum í landinu, þá verður auðvitað einhver að vera kröfuhafinn. Það eru menn nú loksins og meira að segja fjmrh. farinn að skilja. Ég vona bara að forsrh. fari að skilja það líka að það út af fyrir sig er ekki verið að velta böggum á fólkið vegna þess að fólkið sjálft í landinu er kröfuhafarnir. Ef ríkið á að borga þetta til baka þá verður einhver að vera móttakandi og það er auðvitað fólkið sem hefur lánað þessa peninga, lífeyrissjóðir o.s.frv.
    Þetta úrræði hefur verið til. Það er erfiðara að gera þetta núna auðvitað. Þegar skattarnir eru orðnir svona gífurlega háir þá þarf náttúrlega að lækka þá það mikið og það er það lengi verið að vefja ofan af óheillasnældunni sem þeir eru að spinna á hér félagarnir í ríkisstjórninni á hverjum degi. Það er verið að ræða um skattamál núna á þessu augnabliki, held ég, bílaskatta eða eitthvað svoleiðis hér í hornunum. Ég hef það á tilfinningunni að það sé verið að ræða það núna. (Gripið fram í.) Nú, var það ekki núna rétt í augnablikinu. Það var rétt áðan verið að ræða um það. Bílarnir eru mjög vinsælir til skattlagningar og það hefur verið rætt um það í hornum núna að ,,hagræða`` svolítið í þeim geiranum, en við skulum sleppa því.
    En ég ætla ekkert að hafa þetta lengra. Ég vil aðeins að menn geri sér grein fyrir því að það er enginn fögnuður í röðum frjálslynds fólks í þessu landi yfir kjarasamningunum. Þetta er ekki réttlátt þjóðfélag sem við búum við. Þetta er ofstjórnarþjóðfélag og þetta er ofsköttunarþjóðfélag. Og það kemur fram á öllum sviðum, þar á meðal í kvótamálunum og fiskveiðimálunum. Það er alls staðar verið að reyna að auka völd ríkisins í staðinn fyrir að minnka þau. Það er alls staðar verið að reyna að ná meira valdi inn til ríkisstofnana og ríkissjóðs sjálfs náttúrlega og ríkisstjórnarinnar en allt verður þetta óstjórn.
    Þær eru nefnilega, eins og ég margsinnis hef sagt, tvíburasystur ofstjórn og óstjórn, meira að segja eineggja tvíburar. ( KP: Ha?) Þær eru tvíburasystur,

ofstjórn og óstjórn, meira að segja eineggja tvíburar. Ofstjórn leiðir alltaf af sér óstjórn. Og hv. þm. Karvel Pálmason, stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar, veit það vel. ( KP: Hver segir það?) Hann er það annað veifið alltaf þegar tekið er aftan í hann svolítið. ( KP: Eftir málefnum.) Ég hef nú aldrei vitað til þess að hv. þm. hafi verið sérstaklega staðfastur þegar til atkvæða hefur komið. ( KP: Þetta er auðvitað rangt.) En hvað sem því líður, þá leiðir alltaf óstjórn af ofstjórn ef þá ofstjórnin leiðir ekki til hreins einræðis eins og í Hitlers-Þýskalandi og í kommúnistaríkjunum. Það er þannig með ofstjórnina að annaðhvort verður að berja hana niður eða þá að hún leiðir til þess sem við höfum séð í einræðisríkjum. Og fólkið austur í Evrópu er núna að berja hana niður, ofstjórnina. Við erum að auka á hana. Ég ætla ekki að fara að erfa það við menn þó þeir hafi verið kommúnistar einhvern tíma. Mér finnst þeir liggja nógu lágt án þess að ég ætli að fara að sparka í einhverja af þeim mönnum. Það er ekki mitt geð að sparka í liggjandi fólk. Ég vil bjóða þá menn velkomna sem vilja snúa við blaðinu, hætta ofstjórnarbrjálæði og tilbeiðslu á því og starfa með okkur sem viljum frjálslyndi og að draga úr ríkisvaldi, auka vald fólksins, fjárhagslegt vald fólksins og efla atvinnuvegi. Ég vil bjóða þá velkomna að taka þátt í þeirri baráttu að breyta
Íslandi úr ofstjórnarríki í frjálslynt ríki og ofsköttunarríki í ... (Gripið fram í.) Það er allt í lagi að gripið sé fram í, ég hef mjög gaman af því en ég held samt að við ættum í þetta skiptið að staldra við í nokkrar mínútur að hugleiða það þegar við erum að reyna að lina í örlitlu þessa erfiðleika sem á fólki dynja.
    Við vitum öll að það er atvinnuleysi í landinu. Ég sagði það í mínu gamla kjördæmi, Norðurl. v., oft og tíðum, og það getur hv. þm. Stefán Guðmundsson dæmt um, að það væri ekki láglaunafólkið úti á landi sem byggi við verst kjör, það væri láglaunafólkið í Reykjavík. Og það ber ýmislegt til. Það er að sumu leyti hægt að lifa betur úti á landi. Það er meiri samhjálp þar. Konur t.d. skiptast á um að hafa börnin meðan aðrar eru í vinnu o.s.frv. Það er allt þægilegra um vik þar og ekki alveg jafn kostnaðarsamt. Menn geta þá kannski fengið fiskinn sem hv. þm. Stefán Guðmundsson gat ekki nýtt fyrir lítinn pening o.s.frv. Það er ýmislegt sem hjálpar fólki þar sem ekki er í Reykjavík. Í Reykjavík er sár neyð hjá fólki, sem betur fer ekki kannski mörgum tugum prósenta af íbúunum, en það er samt sár neyð hjá láglaunafólkinu.
    Við skulum samþykkja þetta frv. og vona svo það besta. Það er að birta, það er að koma vor og menn verða þá bjartsýnni venjulega og við skulum vona að atvinnuvegirnir styrkist og að fólkið fái betri og öruggari atvinnu en það hefur í dag og laun geti farið hækkandi en þó fyrst og síðast að ríkið slaki á klónni í staðinn fyrir að herða á henni. Það þarf ríkið að gera, en það gerir ekki þessi ríkisstjórn. Hún gerir það aldrei, þetta eru hennar ær og kýr að auka á skattana, auka vald sitt, auka umsvifin hjá öllum öðrum en fólkinu og fyrirtækjunum.