Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Karvel Pálmason:
    Herra forseti. Það væri auðvitað ástæða til þess að setja á nokkuð langt mál út af því sem hér hefur verið talað. Ég skal að vísu ekki gera það að sinni en vil minnast á nokkur atriði og fyrst út af síðasta ræðumanni, hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni.
    Það er alveg með eindæmum hvað sumir þm. Sjálfstfl. annaðhvort eru illa að sér eða vilja ekki vita. Ég hélt að hv. þm. vissi það alveg frá upphafi þessarar hæstv. ríkisstjórnar að ég var ekki yfirlýstur stuðningsmaður hennar. ( EKJ: Ég bið bara afsökunar.) Já, það er rétt og þar kom að því. Og það er auðvitað að menn eru að meiri ef þeir biðja afsökunar á sínum rangmælum. ( EKJ: Sjáum bara í atkvæðagreiðslunni.) Atkvæðagreiðslur eftir málefnum, hv. þm. Eyjólfur Konráð. Það er annað heldur en hægt er kannski að segja um suma aðra í öðrum flokkum. Þar fylgir flokkslínan. ( SalÞ: Það er rétt.) Er það rétt, já. Það er rétt, segir hv. þm. Salome Þorkelsdóttir. Þar fylgir flokkslínan í öðrum flokkum. ( Fjmrh.: Enda ríkisstjórnin bara með góðum málum.) Það kann vel að vera, hæstv. fjmrh., ég er ekki sammála því. Það hafa nú skotist inn ýmis mál sem ekki eru að öllu leyti góð, ekki í mínum huga. Nóg um það.
    En varðandi kjarasamningana er auðvitað fagnaðarefni þegar tekst að ná samkomulagi á vinnumarkaðinum. Það er auðvitað öllum fagnaðarefni þó svo að það sé á þann veg sem gerðist núna og raunar gerðist líka fyrir tæpu ári síðan með tiltölulega litlum kauphækkunum. Forsendur kjarasamninganna frá 1. maí 1989 voru þær að það voru tiltölulega litlar kauphækkanir miðað við það sem fólk gerði sér vonir um, en byggt á loforðum stjórnvalda um framkvæmd ýmissa mála. Og ég verð að segja það, hverjum sem líkar það vel eða illa, að þær forsendur héldu ekki nógu vel. Og það er ekki bara sú ríkisstjórn sem gaf loforð á þeim tíma. Það voru margar áður sem höfðu gefið loforð og kannski svikið verr. (Gripið fram í.) Ég segi kannski. En það er auðvitað engin réttlæting að annar svíki af því að hinn gerði það.
    Það er þetta sem ég held að hái stjórnmálalífi í landinu eða trúnaði á stjórnmálamenn að það er ekki hægt að treysta þeim loforðum sem gefin eru. Það háir ekki bara stjórnmálamönnum sem slíkum, það háir Alþingi líka. Almenningur í landinu er hættur að trúa því að hægt sé að treysta loforðum stjórnvalda. ( Gripið fram í: Þetta er rétt.) Og þá erum við komin á allt of lágt plan að mínu viti. Kannski á ég ekki að tala svona á elliárum, en auðvitað fær maður reynsluna í gegnum árin. ( SalÞ: Á þroskaárunum.) Á þroskaárunum, já. Ég þakka hv. þm. Salome Þorkelsdóttur fyrir það að ég skuli vera enn á þroskaárum. En ég er eigi að síður þeirrar skoðunar að vantrú á stjórnmálamenn hafi vaxið, hún eykst, vantrú á Alþingi, vegna þess að fólk er hætt að trúa því sem menn segja hér. Það hefur sýnt sig í gegnum margar ríkisstjórnir, ekki bara þessa hæstv. ríkisstjórn heldur hina á undan, ég tala nú ekki um þar á undan og enn á undan ekki síður. Og það er þetta sem ég

held að menn ættu almennt að fara að hugleiða. Það getur ekki gengið til enda að almenningur í landinu geti ekki treyst þeim mönnum sem hann felur forsjá sína.
    Ég rifjaði það upp hér í október eða nóvember á sl. hausti hvaða loforð voru gefin við síðustu kjarasamninga sem voru undirritaðir aðfaranótt 1. maí. Ég held að ég muni það rétt að af tólf yfirlýsingum, fyrirheitum eða loforðum, hvað sem menn vilja kalla það, var ekki búið að efna nema fjögur. Og þá er ég mjög réttsýnn, held ég. Mér er alveg sama hvað hæstv. fjmrh. hristir hausinn mikið, ég er mjög réttsýnn í þessu mati. Þetta var líka mat skrifstofu Alþýðusambands Íslands. ( Fjmrh.: Það var frá kontórnum.) Frá kontórnum! Er það ekki sama skrifstofan og gerði samninga núna, er það ekki sami kontórinn sem gerði samninga núna? Hver er breytingin þar? Hvaða breyting hefur orðið á kontórnum hjá Alþýðusambandi Íslands frá því í maí í fyrra til samninganna sem voru gerðir núna? ( Fjmrh.: Það voru greidd atkvæði í félögunum um samningana áður en ...) Það voru greidd atkvæði í félögunum líka núna, hæstv. fjmrh. Lýðræðið er nú einu sinni þannig sem betur fer að félagar fá sjálfir að greiða atkvæði um samningana. Sem betur fer er það enn og ég vona að það verði sem lengst. Og það er nákvæmlega sama aðferðin núna eins og var í fyrra. Það er óbreytt þannig að það þýðir ekki að vera að flækja menn í því að kontórinn sé einhver annar heldur en var í fyrra. Hann er nákvæmlega sá sami. Og það eru sömu mennirnir, sömu einstaklingarnir hvort sem hæstv. fjmrh. líkar þessi einstaklingur sem núna er á kontórnum betur en sá sem kann að hafa verið í forsvari þar í fyrra. Það breytir engu. Og það er auðvitað þetta sem kollvarpaði samningunum í fyrra og ekki bara í fyrra, kannski miklu frekar 1987, hæstv. ráðherra, þegar allt var svikið sem lofað var og þá fyrst og fremst á þeim sem verst voru settir og lægst launaðir. Þegar þáv. hæstv. forsrh., sem var formaður Sjálfstfl., kom aftan að því láglaunafólki sem var búið að semja og samdi við aðra sem voru betur settir um enn meira. (Gripið fram í.) Ég dreg það nú í efa, hæstv. ráðherra. Ég dreg það nú mjög í efa. Ég hygg að núv. hæstv. fjmrh. hafi samið betur við þá sem voru betur settir á síðasta ári heldur en hina sem voru verr settir. Ég nefni BHMR t.d. og ég hygg
að hæstv. fjmrh. muni ekki neita því. Þar var betur farið með þá sem voru betur settir en hina sem voru verr settir. Það kann vel að vera að hæstv. fjmrh. hafi ekki ráðið ferðinni í báðum tilvikum en hann gat haft áhrif hefði hann viljað.
    Ég ítreka að það er vissulega mjög gott ef menn geta náð samkomulagi á vinnumarkaðinum. En samkomulag verður því aðeins í reynd að menn standi við loforðin. Ég vona að svo verði þó mér sýnist ýmsar blikur á lofti um að það verði ekki og þá á ég ekki bara við hæstv. ríkisstjórn. Ég á við ýmislegt annað sem lofað var en mér sýnist að muni ekki standa. Og ég brýni hæstv. fjmrh. á því að standist

ekki öll þau loforð sem gefin voru eru það hrein svik við hreyfinguna út af þessum samningum. ( EgJ: Þetta eru stór orð.) Það er nákvæmlega sama, hv. þm. Egill Jónsson, það eru stór orð en þau eru sönn. Kannski sumir þori ekki að segja sönnu orðin, bara skýli sér bak við.
    Ég fullyrði að verði ekki staðið við þau fyrirheit sem gefin voru gagnvart hreyfingunni í þessum samningum, þá hygg ég að stjórnmálamönnum, ekki bara forustunni heldur stjórnmálamönnum almennt, verði ekki trúað fyrir neinu í framtíðinni. Svo illa er búið að leika fólk, almenning í þessu landi af hálfu stjórnmálamanna og þá fyrst og fremst forustumanna í stjórnmálum sem ráða ferðinni, stjórnvalda á hverjum tíma, að almenningur hefur enga trú orðið á þeim. Og ég spyr menn að því, er það mjög trúverðugt, hæstv. fjmrh., --- líttu til mín, ekki á blaðið, er það mjög trúverðugt að almenningur í landinu, þeir verst settu, við skulum segja með 50 þús. á mánuði, við skulum gefa þeim það, að vísu eru nú sumir þar fyrir neðan, er það trúverðugt að þeir láti sér það líka til lengdar að una hlutskipti sínu, ef opinberi geirinn, fjmrh., ríkið og aðrir aðilar sem ráða ferðinni í kaupmannastétt ganga á undan og hækka miklu meira en gert er ráð fyrir að kaup þessa fólks fái að hækka? Mér þætti gaman að sjá framan í þann þingmann stjórnarliðsins núna sem ætlar að ganga til kosninga eftir rúmt ár með allt niður um sig í þeim efnum. Það yrði ekki frítt föruneyti til framdráttar. Og það á ekki við bara um núv. hæstv. ríkisstjórn. Það á auðvitað við um stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn almennt. ( HBl: Þú mátt nú ekki kenna okkur um.) Sko, ég held að ég verði að rifja upp fyrir hv. þm. Halldór Blöndal það sem ég sagði áður.
    Fyrstu svikin sem ég tiltók í þessum efnum voru svikin gagnvart láglaunafólki sem Þorsteinn Pálsson framdi fyrir kosningarnar 1987 þegar hann kom aftan að láglaunafólki og samdi við þá sem betur voru settir um hærra en hinir fengu. Það voru auðvitað fyrstu svikin. En það réttlætir auðvitað ekkert það sem hinir hafa gert á eftir, það réttlætir ekkert. Menn verða af sjálfu sér að standa við gefin fyrirheit eða loforð. ( EgJ: Þeir ættu að reyna það.) Það kann vel að vera. Þeir gerðu það ekki sem stjórnuðu fyrir 1987 og þá var hv. þm. Egill Jónsson stuðningsmaður þeirrar ríkisstjórnar og þeirra sem réðu þá. ( EgJ: Það þarf ekki að skamma þá fyrir það.) Nei, hv. þm., ekki þá, bara hv. þm. sjálfan sem studdi þá ríkisstjórn. Það þýðir ekkert að vísa á þá. Menn verða að taka sjálfir á sig sem styðja það.
    Ég óttast það og ég vil láta það koma hér fram, ég óttast það mjög en ég vona að svo verði ekki, að þetta riðlist meira og minna. Ég óttast að þeir sem miklu betur standa klifri upp eftir bakinu á hinum þrátt fyrir að stjórnvöld hafi gefið fyrirheit um annað. Og ég spyr: Hvað á að gera við BHMR-menn sem eiga að fá miklu meiri launahækkun, næstum helmingi meiri en Alþýðusambandið fékk á þessu ári? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera þar? ( Fjmrh.: Það stendur ekki í samningnum.) Stendur ekki? ( Fjmrh.:

Nei.) Þeir túlka þá á þann veg. Og hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera? (Gripið fram í.) Það er ekkert annað mál. Ég krefst þess að fá að vita það. Hvað ætlar hæstv. fjmrh. að gera þar? Hann er gagnaðilinn í málinu. Á að setja lög á þá að þeir fái sama og aðrir? Til þess er ég reiðubúinn. En hvað segir hæstv. fjmrh.? Hvað vill hann gera? Þetta er það sem hann samdi um fyrir tæpu ári síðan, meira heldur en aðrir fengu. Og ef menn ætla að hleypa þessu fram með þessum hætti eins og hæstv. ráðherra gerði, þá eru menn að brjóta þetta allt saman niður til grunna. Og hafi tiltrú almennings verið lítil, sem hún er auðvitað á forustu í stjórnmálum, þá er hún enn þá minni ef þetta klúðrast allt saman þrátt fyrir fögur fyrirheit og gefin loforð. ( HBl: Hefur Framsfl. nokkuð komið við þessa sögu?) Já, ég á kannski eftir að tala við hæstv. forsrh. Það er nú bara ekki komið að honum enn. En auðvitað væri nægur tími til þess að tala um það því að núv. hæstv. forsrh. hefur verið viðloðandi ríkisstjórnir ja, yfir 20 ár ef ég man rétt. ( Forsrh: Nei.) Viðloðandi. Nei. ( Forsrh.: Ég hef verið í ríkisstjórn í 10 ár.) Viðloðandi, sagði ég. Ég sagði ekki í ríkisstjórn, það væri of mikið, í 20 ár. Það er nú einum of mikið en viðloðandi og ber þó aldrei ábyrgð á einu eða neinu. Það er alltaf allt öðrum að kenna. Það er allt öðrum en hæstv. núv. forsrh. að kenna sem aflaga fer. Það skiptir engu máli þótt hann sé í ríkisstjórn sjálfur, þó að hann sé forsrh. sjálfur, það breytir engu. ( EgJ: Það má bera af sér sökina.) Ja, ég sagði það nú að vísu ekki. ( Forseti: Ég verð að biðja hv. þingdeildarmenn að breyta ekki ræðuhöldum í samtalsþætti.) Það er ekkert út á það að setja, virðulegi forseti, að menn grípi inn í. Það
er bara hin eðlilega lýðræðislega regla að menn fái að hafa tjáningarfrelsi hvenær sem þeir vilja. ( HBl: Forseti á ekkert að vera að grípa fram í.) Ja, ég vildi nú ekki bæta því við. ( Gripið fram í: Egill var að tala við sjálfan sig.) Nei, það er að vísu ekki rétt.
    En varðandi forsrh., fyrst menn viku að því, þá er það afskaplega sérkennilegt. Nú dreg ég ekki í efa ágæti einstaklingsins sem þessu embætti gegnir, en ég er að tala um hvernig þessi viðkomandi einstaklingur hefur brugðist við í gegnum árin annaðhvort sem forsrh. eða einhver annar ráðherra varðandi efnahagsmál þjóðarinnar, lífakkerið í landinu. Það er ekki svo að heyra eða sjá að hann hafi nokkurn tíma komið nálægt því eða þurft að bera ábyrgð á því. Það eru einhverjir allt aðrir sem hafa gert það. Og mikið vildi ég að ég hefði getað í gegnum 20 ár í pólitík farið svona í gegnum hlutina, vísað alltaf ábyrgðinni á aðra. ( Gripið fram í: Ég held að það sé nú sérgrein þín, ábyrgðarlaus.) Hvað segir hv. þm.? ( JGS: Hann sér ekki betur en þetta sé þín sérgrein, að bera aldrei ábyrgð á neinu.) Nei, þarna kemur auðvitað ungi framsóknarandinn fram. Það er ekki nóg að þessir gömlu séu svona, heldur er ungdómurinn uppalinn í þessu líka. Þessir nýjustu hafa nákvæmlega sömu skoðun og foringinn, eru uppaldir í því að vera eins og foringinn hefur verið í yfir 20 ár, bera aldrei ábyrgð á neinu. ( EgJ: Það má þakka fyrir að þeir séu

ekki verri.) Ja, ég verð nú að segja það að mér ofbýður svona málflutningur. Að vísu má bæta því við að maður verður yfirleitt að fyrirgefa ungdómi sem villist á hálar brautir eftir foringjum. En að menn væru svona hlekktir alveg í flokkskerfið með eina og ákveðna skoðun gegnum þykkt og þunnt, bara flokkurinn, ekkert annað.
    Ég heyrði að ritari var að segja áðan að ég væri þessi eini sem væri með þessa sérstæðu skoðun. Það er rétt, ég hef skoðun á málum, ekki eftir pólitískum flokkum. Því miður hefur það aldrei þekkst í Framsfl. að menn hefðu slíkar skoðanir þar. Þar er það bara flokkskeðjan sem á að ráða. Hlekkirnir eiga að ráða og það er það sem þessi ungdómur hér til vinstri er að vísa til og hefur lært greinilega. Þá er ekki við góðu að búast í framtíðinni gagnvart Framsfl. ef svo er um framhaldið sem mér heyrist vera. En menn geta auðvitað bætt sig, menn geta séð að sér þó að ég ætlist ekki til þess að hæstv. forsrh. geri það úr því sem komið er. En það geta yngri menn gert.
    Ég ítreka enn að ég hygg að almennt launafólk hefði ekki gert ráð fyrir því að gera samninga á þeim nótum sem voru gerðir, og þá er ég að tala um launakjör, vegna þess hversu launahækkanirnar eru litlar. Það hefur eigi að síður tekið þá afstöðu víðast hvar að fallast enn einu sinni á þessa tilraun til að bæta þjóðfélagið, ekki síst fyrir sig. Og það veldur því miklu hvernig verður tekið á þessum málum í framhaldinu. Það skiptir sköpum fyrir þetta fólk sem hefur borið þyngstu byrðarnar og ber enn, það skiptir sköpum fyrir það hvað stjórnvöld gera í áframhaldi þessa máls. Verði þetta ekkert nema loforð eru menn endanlega að setja grafskriftina yfir sig. Ég vona að svo verði ekki og vænti þess raunar og þykist vita að menn vilja standa við gefin loforð og þau verði framkvæmd. En á því hefur orðið mikill misbrestur sem ég vona að verði ekki að því er þetta varðar.
    Ég vil aðeins koma inn á lífeyrissjóðsmálin. Ég tek mjög undir það sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði hér áðan. Það gengur auðvitað ekki til lengdar að opinberir starfsmenn fleyti rjómann ofan af í lífeyrismálum, það gengur bara ekki og því verður að breyta. Ef ekki er hægt að treysta stjórn sem telur sig vera félagshyggjuvinstristjórn til þess að breyta því, þá verður það ekki gert. Ég er þeirrar skoðunar að verði það ekki gert áður en langur tími líður, þá gerist það ekki. Það gengur ekki að við, þá er ég að tala um almenning, okkur hér alla og almenning í landinu, að við borgum alltaf fyrir þá miklu meira en okkar fólk fær úr lífeyrissjóðum. Það væri slíkt óréttlæti að engu tali tekur og búið að líðast allt of lengi. Því verður að breyta og ég hef raunar orð hæstv. fjmrh. fyrir því úr Sþ. fyrr í haust að slíkt frv. komi fram, að því verði breytt. ( Fjmrh.: Á næsta ári.) Já, og ég fagna því.
    Kannski er þetta orðið allt of langt. Hér var gripið fram í áðan, að mér heyrðist af hv. skrifara Agli Jónssyni, varðandi niðurskurðinn, að Alþfl. væri búinn að samþykkja allt. Ég veit nú að vísu ekki hvað allt er í þeim efnum því að það tekur breytingum nánast

daglega, þetta ,,allt``. En að því er mig varðar, ef menn telja mig tilheyra Alþfl. enn, ... ( Gripið fram í: Hvað telur þm. sjálfur?) Það er ekki hans að meta --- þá hef ég lýst því yfir að ég mun aldrei taka þátt í því að skera niður vegafé umfram það sem búið er að gera. Það er klárt. ( EgJ: Það á að fara að bora fyrir vestan.) Bora? ( EgJ: Í gegnum fjöll.) Ég er ekki að tala um að bora, ég er bara að tala um framlög til vegamála, ef hv. þm. skilur það ekki öðruvísi en að tala í þeim dúr. Það eru framlög til vegamála sem voru skorin niður um meir en 600 millj. á fjárlögum, ég man ekki nákvæmlega töluna. Og ég tek ekki þátt í því að skera það meir. Ég vil að það sé á hreinu.
    Það eru auðvitað ýmsir aðrir liðir að því er varðar niðurskurðinn sem menn hafa athugasemdir við. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að menn geti ekki
alltaf sagt nei, nei, nei við öllu, en ég vil bæta því við að það sem á að taka af niðurskurði að því er varðar vegamál, það á að taka af framkvæmdafé Þjóðleikhússins. Það má fresta því um eitt ár. Það skeður ekkert það slæmt varðandi listina í landinu þó fresta verði framkvæmdum við Þjóðleikhúsið um eitt ár. Það skeður miklu verra ef menn ætla að fara að skera niður vegafé á þeim svæðum sem fyrst og fremst þurfa á því að halda að samgöngur batni. Það er líka menning að byggja upp landið. Og ég er til þess reiðubúinn, hæstv. fjmrh., að taka til þann niðurskurð af Þjóðleikhúsinu sem nemur því sem á að skera niður vegafé þannig að við getum mæst að jöfnu. ( EgJ: Það er nú viðkvæmt mál.) Nú er ég að tala við hæstv. fjmrh. en ekki hv. skrifara. En ég heyri að hæstv. fjmrh. telur það ekki viðkvæmt, það er greinilegt. En þetta er mín skoðun og ég vildi láta hana koma hér fram. ( HBl: Það er svo langt síðan hann fór að vestan.) Hver? ( HBl: Fjmrh.) Versna? ( HBl: Nei, langt síðan hann fór að vestan.) Að vestan, já, já.
    Að síðustu varðandi atvinnumálin og stefnu hæstv. ríkisstjórnar í atvinnumálum. Ég hlustaði á fréttir Ríkisútvarpsins í hádeginu í gær, fréttir af ræðu núv. hæstv. hagstofuráðherra, trúlega væntanlegs umhverfisráðherra, svo ég fari nú að nefna það rétt, vestur á Ísafirði þar sem hann talaði í umboði ríkisstjórnarinnar að því er varðaði atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar í náinni framtíð. Og sé sá fréttaflutningur réttur, nú tek ég það fram að sé rétt frá sagt, (Gripið fram í.) já, já, það er rétt hjá hæstv. fjmrh., það er fyrrv. flokksbróðir hans, fréttamaðurinn sem sagði frá og það skýrir kannski eitthvað, ég veit það ekki. En séu þær fréttir réttar sem þar var frá sagt, þá vildi ég ekki búa undir slíkum umhverfisráðherra á Vestfjörðum. ( Gripið fram í: Og endilangt.) Ég orða það svo, þú skilur það hvernig sem þú vilt, hv. þm. Ég vildi ekki að Vestfirðingar byggju undir því sem þar var frá sagt í því ástandi sem núna ríkir t.d. á Vestfjörðum að því er varðar atvinnumál. Og ég efast mjög um það, --- nú gengur hæstv. hagstofuráðherra í salinn og það er líklega rétt að endurtaka allt sem ég sagði áðan. Ég var að vitna í frásögn af fundi frá Ísafirði sem var sagt frá í

Ríkisútvarpinu í hádeginu í gær af fréttamanni. Og ég ítreka: Ef rétt er frá sagt, ég tek það fram, ef rétt er haft eftir fulltrúa ríkisstjórnarinnar á fundinum með boðskap hennar, þá sagði ég: Ég sem Vestfirðingur vildi ekki búa undir slíku lengi, undir slíkum stjórnvöldum. ( Fjmrh.: Það var Jón Baldvin ...) Ja, ég get náttúrlega ekkert svarað fyrir Jón Baldvin, þeir Á rauðu ljósi hljóta að geta svarað því sjálfir hvar þeir eru á hverjum tíma, það er ekki mitt mál. En ef þessar frásagnir eru réttar, sem ég veit ekkert um og vil ekki fullyrða neitt um, ég hef heyrt bæði neikvætt og jákvætt um það. En séu þær réttar, þá mundi ég ekki vilja una því sem landsbyggðarmaður vestur á fjörðum að búa undir forskrift af því tagi sem þessi fulltrúi ríkisstjórnarinnar viðhafði, að fréttamannsins sögn, ég bæti því við, á þesum fundi. Og sé það boðskapurinn ofan á allt annað, hæstv. fjmrh., sé það boðskapurinn í áframhaldinu frá hæstv. ríkisstjórn, þá held ég að hæstv. ráðherrar megi fara að biðja fyrir sér. (Gripið fram í.) Ja, það kann vel að vera en þá er tími til kominn að fara að taka í taumana ef þetta er ekki með þínum vilja gert, hæstv. ráðherra. ( EgJ: Hver auglýsti fundinn?) Ríkisstjórnin auglýsti fundinn. Hann var haldinn í nafni ríkisstjórnarinnar. ( Gripið fram í: Hver borgaði?) Það er kannski ekki búið að borga hann enn, ég veit það ekki, en trúlega kemur að því að hann sendir reikninginn, borgar hann. ( EgJ: Þetta var rödd ríkisstjórnarinnar þarna.) Það var það sem ég var að segja, það var fulltrúi ríkisstjórnarinnar sem þarna talaði og trúlega í hennar umboði. En eins og frá var sagt, þá mundi ég ekki vilja una undir því ef það verður framhaldið að því er varðar atvinnuuppbyggingu á þeim landssvæðum sem þurfa fyrst og fremst á því að halda að stutt sé við bakið á þeim til eflingar frekar en hitt.