Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Guðrún Agnarsdóttir (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa verið sögð að því leyti til að það er óvanalegt að hér séu haldnir kvöldfundir tvö kvöld í röð nema sérstaklega standi á fyrir þinghlé eða þinglok. Jafnvel þó við ætlum nú að hverfa af þingi í eina viku sé ég ekki neina ríka ástæðu til að halda áfram kvöldfundum sem eru mikið álag fyrir starfsfólkið, svo við minnumst þess, ekki bara fyrir þingmenn, því það eru fleiri sem vinna í þessu húsi en við. Ég veit ekki til þess að þau mál hafi verið rædd sérstaklega og reynt að semja um þau við þingflokkaformenn eða fulltrúa þingflokkanna til að ná samkomulagi um afgreiðslu mála. Það hefur enginn neitað eða beðist undan því að sækja fund á morgun og það er eðlilegt að þinghald verði á morgun. Ég biðst ekki undan því, en ég bið hæstv. forseta að endurskoða hug sinn í sambandi við kvöldfund í kvöld, hvort ekki verði hægt að ljúka þessum málum á eðlilegum vinnutíma. Það er bæði fyrirhafnarsamt og líka talsvert kostnaðarsamt fyrir þingið að halda starfsfólkinu hér frá kl. 10 á morgnana og kannski fram eftir öllu kvöldi.