Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Þeir ræðumenn Sjálfstfl. sem hafa talað við þessa umræðu hafa skýrt afstöðu okkar til kjarasamninganna og til þeirra ákvarðana sem þeim fylgdu. Þess vegna er óþarfi að fara nákvæmar út í þá umræðu á þessu stigi málsins. Ég ætla hins vegar að minnast hér með örfáum orðum á það sem snýr að landbúnaðinum og bændum landsins í samkomulaginu.
    Það er auðvitað áhyggjuefni hvernig menn hafa komist að niðurstöðu um verðlagningu á landbúnaðarvörum á þessu hausti. Rifja ég þá upp það sem gerðist við ákvörðun haustverðlags sem á að taka gildi 1. sept. ár hvert. Eftir að verðlagsgrundvöllur hafði verið ákveðinn að hluta til voru gerðar breytingar á honum eftir örfáa daga. Að sjálfsögðu voru ekki fyrir hendi nein lög til að gera þær breytingar því lög kveða á um hvenær eigi að ákveða verð á búvörum sem, eins og kunnugt er, er fjórum sinnum á ári. Nú var hins vegar búið að fjalla um þessi mál 1. des. og þá var kominn nýr grundvöllur, haustgrundvöllur, verðlagsgrundvöllur eins og hann er gjarnan kallaður.
    Það liggur fyrir að að hluta til var ekki búið að koma inn í þann grundvöll þeim skerðingum á sauðfjárafurðum sem ákveðnar voru fyrst um haustið. Samkomulag var gert um það að síðasti hluti þeirrar skerðingar ætti að ganga inn í verðið, eða réttara sagt, það átti að skrá það þann 1. mars nk. Með þeim breytingum á búvörulögunum sem hér er lagt til að gerðar verði verður öll sauðfjárframleiðsla fyrir þetta ár með þessari umræddu skerðingu. Eins og frv. gerir ráð fyrir á ekki að skrá verð á sauðfjárafurðum í rauninni fyrr en 1. sept. árið 1991. Það er náttúrlega meira en furðulegt að í þessu svokallaða samkomulagi skuli ekki koma fram hver sé ástæðan fyrir því að hér sé sérstaklega gengið á rétt sauðfjárbænda að þessu leyti. Þess vegna vil ég spyrjast fyrir hjá hæstv. forsrh. hver sé ástæðan fyrir því.
    Nú hefur það líka verið þannig að verð á sauðfjárafurðum hefur verið með tvennum hætti að haustinu til, þ.e. verð á nýju dilkakjöti hefur verið skráð hærra, eðlilega, en eldra kjötið. Eftir þessar breytingar fæ ég ekki séð annað en að allt dilkakjöt verði á sama verði, hvort heldur það er eins árs eða aðeins nokkurra daga gamalt. Þarna skapast að sjálfsögðu ákveðinn vandi og ég vil spyrja hæstv. forsrh. um það hvernig honum verði mætt.
    Ég hef ekki getað fengið um það upplýsingar hvernig frá þessum málum hefur verið gengið í þessu svokallaða samkomulagi og það er alveg útilokað að hugsa sér annað ef menn ætla a.m.k. að virða eðlileg sanngirnissjónarmið en að þetta mál verði upplýst með fullnægjandi hætti við meðferð málsins hér í hv. Ed.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar en leita eftir skýrum svörum hjá hæstv. forsrh. við þessum spurningum.