Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég skal taka það fram strax í upphafi að ég ætla ekki að setja hér á langa ræðu. Ég á sæti í félmn. sem fær þetta frv. til umfjöllunar og hef því tækifæri til að fylgjast með og koma á framfæri athugasemdum þar. Það eru þó nokkur atriði sem mig langar samt að koma inn á hér við þessa 1. umr. ekki síst með tilliti til þess að það er tækifæri til að spyrja hæstv. forsrh. nokkurra spurninga. Það kemur mér að vísu svolítið á óvænt að þetta frv. fari fyrir félmn. Ég hefði haldið að það ætti að vera í fjh.- og viðskn. En það er kannski vegna þess að þetta eru kjarasamningar að svo er og er ég svo sem ekki að gera athugasemdir við það.
    Eins og hér hefur komið fram, þá eru þetta nokkuð merkilegir samningar sem hér er verið að fjalla um. Það má segja að þeir marki tímamót að því leyti að það eru aðilar vinnumarkaðarins sem taka völdin úr höndum ríkisstjórnar og ákveða að færa niður verðlag og gera hóflegri kjarasamninga en hæstv. ríkisstjórn hafi reiknað með þegar hún setti fram áætlanir sínar m.a. í fjárlögum í haust.
    Við sjálfstæðismenn teljum eðlilegt að greiða fyrir afgreiðslu þessa máls svo að það fái eðlilega meðferð hér á hv. Alþingi og höfum þess vegna ekki hugsað okkur að tefja neitt fyrir því. En það er eðlilegt að mönnum liggi ýmislegt á hjarta þegar svo mikilvægt mál og merkilegt er til umfjöllunar og ég get tekið undir flest það sem hv. 8. þm. Reykv. sagði hér um það hvernig ástandið er í þjóðfélaginu í dag og það sé í sjálfu sér ekki ástæða til að fagna slíkum samningum. Má segja að þetta séu að mörgu leyti neyðarsamningar en vonandi eiga þeir eftir að bera það úr býtum sem markmið þeirra er, að viðhalda þeim lífskjörum sem eru viðvarandi nú. En það er eitt stórt ,,en`` því allt byggist á því að ríkisstjórnin standi við sín fyrirheit og komi í veg fyrir að það sem að henni snýr fari úr böndunum.
    Það eru nokkrar spurningar sem mig langaði að koma með og kannski athugasemdir jafnframt. Það er þá fyrst varðandi það loforð hæstv. ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamningana að lækka verðlag um 0,3% nú í febrúar. Það væri mjög æskilegt og beinlínis nauðsynlegt að fá að heyra hjá hæstv. forsrh. hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að efna þetta loforð vegna þess að það hlýtur að vera stórt atriði. En ekki held ég að fólkið í landinu hafi orðið vart við enn þá að það hafi tekist og nú er ekki langt í land að febrúarmánuði fari að ljúka.
    Ég vil taka undir það sem kom fram í ræðu hv. 14. þm. Reykv. að frítekjumarkið er of lágt. Það er líka annað sem mig langar að spyrja um og skil ekki alveg en það er skýringin við 8. gr., hvað hún þýðir. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sú hækkun á frítekjumarki almannatrygginga, sem gefið var fyrirheit um við gerð kjarasamninga, felur í sér að frítekjumark verður mismunandi eftir eðli og uppruna tekna. Nauðsynlegt þykir að breyta 19. gr. laga um almannatryggingar á þann veg sem hér er

lagt til þannig að heimildin til slíkrar mismununar sé ótvíræð.``
    Ég vildi gjarnan fá skýringu á þessu hjá hæstv. forsrh. Það kemur fram sem rétt er að atvinnuleysi hefur verið mikið og er mikið. Þeir eru margir í dag sem mæla göturnar og ganga frá Heródesi til Pílatusar í leit að vinnu. Þeir hafa misst vinnu sína jafnvel eftir áratuga starf hjá sama fyrirtæki vegna þess að fyrirtækin eru að hagræða hjá sér eins og svo er nefnt og fækka starfsfólki. Það hefur verið þó nokkuð áberandi að það er fólk á miðjum aldri sem verður fyrir þessum niðurskurði á starfsmannafjölda í fyrirtækjum og það er einmitt fólkið sem á kannski erfiðast með að komast inn á vinnumarkaðinn að nýju. Ég vona svo sannarlega að það sé rétt sem kom fram hjá hæstv. forsrh. að atvinnuleysið fari minnkandi. Ég veit ekki hvað hann hefur fyrir sér í því, hvort það er aðeins óskhyggja, en ég vona svo sannarlega að hann hafi rétt fyrir sér í þeim efnum. Það er nefnilega svo að það að missa atvinnuna og vera ekki gjaldgengur á vinnumarkaðinum, að vera hafnað á hverjum vinnustaðnum eftir öðrum er til þess fallið að menn missi sjálfsvirðinguna. Það er ekki bara það að missa tekjurnar vegna vinnutapsins. Það er ekki síður sjálfsvirðingin sem þar kemur inn í og það getur orðið einn vítahringur og er kannski alvarlegra mál heldur en við hugsum um svona dags daglega.
    Það kemur fram í þessu plaggi að ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir hinu og þessu en við eigum væntanlega eftir að sjá hvernig hún ætlar að framkvæma það. Það er ekki nóg að tala um hlutina. Það þarf að framkvæma þá einnig. Það kemur hér fram að hún muni beita sér fyrir breytingum á sköttum og á gjaldskrám opinberra fyrirtækja sem svarar til 0,3% lækkunar á mælikvarða vísitölu framfærslukostnaðar. Ég vonast til þess að hæstv. forsrh. geti upplýst hvernig þetta eigi að gerast vegna þess að manni hefur fundist vera talsvert um fyrirhugaðar hækkanir á ýmsum gjöldum og sköttum. Ég hef grun um að hér sé á döfinni bifreiðagjald svokallað. Bifreiðaeigendur hafa ekki enn þá fengið gjaldseðlana sína sem áttu að koma 1. jan. og var frestað að senda þá
út til 1. mars og hef ég heyrt einhvern ávæning af því að það eigi að fresta því enn til 1. apríl. Vonandi fáum við þá ekki dráttarvaxtatilkynningu á meðan sú frestun stendur yfir. Það er mikið um það þessa dagana að fólk er að fá dráttarvaxtatilkynningar með hörðum hótunum um eignaupptöku ef bílar finnist ekki vegna þess að það sé búið að taka þá af skrá, ef gjöldin eru ekki greidd o.s.frv. En kannski ætlar hæstv. fjmrh. að lækka bifreiðagjöldin 1. apríl og það væri vel ef svo væri. Og þegar ég er að tala um að lækka, þá er ég ekki að tala um lækkun frá fyrirhugaðri hækkun heldur frá status quo. Það er mikill munur á því. Það er nefnilega oft dulbúin hækkun sem felst í því þegar hann ætlar að lækka það sem hann hefur fyrirhugað að hækka. Það er ekki alveg það sama.
    Þá eru það húsnæðismál fatlaðra. Þar er sagt að

ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að á grundvelli úttektar á framkvæmdaþörf í þágu fatlaðra sem nú er á lokastigi verði gerð áætlun til nokkurra ára um úrbætur í húsnæðismálum þeirra, bæði í sambýlum og innan félagslega húsnæðiskerfisins. Það er staðreynd að forustumenn samstarfsnefndar fatlaðra hafa verið mjög óánægðir með viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þeim umleitunum sem þeir hafa haft í frammi við fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Þeir hafa átt viðræður við hæstv. forsrh. og félmrn. og þótt uppskeran vera rýr frá þeim viðræðum. Þeir hafa eðlilega miklar áhyggjur. Hér er um að ræða húsnæði fatlaðra einstaklinga sem búa við mikla neyð að því leyti og að áliti forsvarsmanna þeirra er þarna um rúmlega 100 einstaklinga að ræða. Þeir hafa gert kröfur um að það verði tafarlaust reynt að leita úrbóta í þessum efnum og þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort það eigi að bíða lengi eftir þessari skýrslu eða hvort það megi búast við að nú verði gengist í að gera þessa framkvæmdaáætlun svo að menn viti hvar þeir standa á næstu árum hvað það varðar.
    Það er þáttur í útvarpinu, ég held næstum daglega, sem flestir þekkja og heitir ,,Þjóðarsálin``. Menn hafa kannski mismunandi skoðanir á þeim þætti en það er nú svo að þessi þjóðarsál endurómar oft ástandið í þjóðfélaginu þar sem vandamálin berja að dyrum. Og þar hefur komið greinilega fram að undanförnu eftir að breytingar voru gerðar á gjaldskrám hjá læknum og lyfjakostnaði að einmitt hækkanir í þessum efnum koma verst niður á mörgum sjúklingum sem hafa litlar tekjur. Ég minnist þess að í gær heyrði ég af tilviljun konu upplýsa hvernig hennar aðstæður væru. Hún þarf að greiða fyrir vitjun til sérfræðings sem skiptir þúsundum króna á ári vegna þess að hennar ástand er þannig að hún getur ekki farið til heimilislæknis, er í meðferð hjá sérfræðingi og nú hækkar þetta gjald úr 630 kr. í 900 kr. Þessi kona er með 40 þús. kr. mánaðartekjur og hún sagði að ef hún ætti ekki góðan að sem greiddi fyrir hana það sem á vantaði vissi hún ekki hvernig hún færi að komast af með sín veikindi. Þetta vildi ég nefna hér vegna þess að mér finnst það skjóta svolítið skökku við að á sama tíma og verið er að skera allt niður virðist það allt bitna á þeim sem síst skyldi, eins og t.d. sjúklingum.
    Mér er minnisstætt að þegar við vorum að afgreiða hér frv. um málefni aldraðra þá voru samþykkt lög á Alþingi um það að nú skuli aldraðir sem þurfa að fara á hjúkrunarheimili borga fyrir sig. Og það átti að þýða einhvers konar jöfnuð vegna þess að þegar þeir eru ekki á hjúkrunarheimili heldur á dvalarheimili þurfi þeir ekki að borga og þess vegna sé óeðlilegt að þeir borgi ekki fyrir sig þegar þeir eru komnir á hjúkrunarheimili. Nú hef ég heyrt, en ég vona svo sannarlega að það sé rangt, að nú eigi þessir sömu aðilar, þ.e. aldraðir ef þeir þurfa að fara á sjúkrahús, nú er ég ekki að tala um hjúkrunarheimili heldur sjúkrahús, og hafi tekjur umfram það sem almannatryggingakerfið gerir ráð fyrir, nú eigi þeir að borga hluta af þessum sjúkrahúskostnaði og þá á það líklega að vera til að jafna þennan kostnað af því að

þeir eru ekki á hjúkrunarheimili.
    Mér finnst full ástæða til að nefna þetta hér því að ég get ómögulega skilið og sætt mig við að þessi leið sé farin að afla heilbrigðiskerfinu tekna á sama tíma og fólk sem hefur fullar tekjur og jafnvel góðar tekjur fær að leggjast inn á sjúkrahús til rannsókna og er ekki látið greiða fyrir það. En þetta er kannski í sama anda og hugsað er nú að fólk sem reynir að bjarga sér, t.d. menn sem eiga bátkænu og vilja fara út á sjó og róa og fá sér fisk í soðið til að drýgja tekjurnar mega það ekki lengur öðruvísi en borga fyrir það og fá leyfi.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín öllu fleiri, hæstv. forseti. Ég sagði það hér í upphafi að ég ætti sæti í nefndinni sem fær málið til umfjöllunar og hef tækifæri til að fjalla um það þar. En kannski aðeins að lokum af því að hv. 3. þm. Vestf. kom inn á kjaramálin sem við var að búast áðan og hann talaði um það að fyrstu svikin í kjarasamningum hefðu verið í tíð Þorsteins Pálssonar, þáv. hæstv. forsrh., þegar hann hefði samið um hærra kaup við þá sem voru betur settir og hefði þannig svikið láglaunafólkið. Ég veit ekki hvort hv. 3. þm. Vestf. er hérna einhvers staðar. Hann er það ekki en ég sé að hv. 4. þm. Reykn. er hérna og hann er einnig fagmaður í kjarasamningum. Ég ætlaði rétt að spyrja hv. 3. þm. Vestf. og get þá alveg eins spurt hv. 4. þm. Reykn. hvort
mig misminni að það sé miklu eldra vandamál í kjarasamningum þegar fyrst er samið við þá lægst launuðu og síðan koma hinir og skríða eftir bakinu á þeim og fá hærri laun. Hefur þetta ekki alla tíð verið vandamál þegar verið er að semja fyrir verkafólkið? Það er eins og mig minni það. Og ég var að beina þessu til hv. 3. þm. Vestf. því að hann fór að tala um að fyrstu svikin hefðu verið þegar Þorsteinn Pálsson var forsrh. Ég held að þetta sé miklu, miklu eldra vandamál, hv. þm., og vildi þess vegna bara rifja það upp. Almennt hefur þetta alla tíð verið vandamál að þegar á að bæta kjör láglaunafólksins eru það venjulega hinir sem skríða eftir baki þeirra og fá miklu, miklu meira þegar upp er staðið.