Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Karl Steinar Guðnason:
    Frú forseti. Hvers vegna gera menn svona kjarasamning? Hvers vegna leita menn leiða öðruvísi en gert hefur verið á undanförnum árum? Það er náttúrlega vegna þess að menn sjá fyrir sér þá stöðu atvinnulífsins sem er staðreynd, menn sjá fyrir sér stöðu launþega, menn sjá fyrir sér stöðu efnahagslífsins hvar verðbólga hefur ætt áfram og eyðilagt lífskjörin í landinu. Menn sjá það fyrir sér að ef ekki er vikið af þeirri hefðbundnu leið sem farin hefur verið undanfarin ár blasi við hrun efnahagslífsins, hrun fyrirtækjanna, hrun heimilanna.
    Þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið eru tímamótasamningar að mínu mati, kjarasamningar sem munu skipta sköpum ef vel tekst til, en það er líka með alla kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum árum að menn hafa ekki séð það fyrir hvernig þeir enduðu. Menn hafa það fyrir sér í sögunni að yfirleitt alltaf hafi lok kjarasamninga verið á þann veg að menn hafa gert sér glæstar vonir í upphafi en þegar samningstíminn hefur verið að renna út hafa menn gert sér það ljóst að kjörin voru verri en þegar hafist var handa. Ástæðan fyrir þessu er verðbólgan, óstöðugleiki og annað sem truflað hefur samningana.
    Þeir kjarasamningar sem nú hafa verið gerðir hafa kostað mikla vinnu og líka það að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar þurftu að fá sína félaga til að breyta um leiðir. Við lok kjarasamninganna er það rétt eins og fram kom hér hjá hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur að þjóðin fékk mikið hamingjukast. Reyndar færði hún það upp á Alþingi og ég held að hamingjan hafi ekki verið síðri hér enda eru það mikil og góð tíðindi þegar vel tekst til. Einkenni þessara kjarasamninga er það að allir helstu aðilar sem skipta máli náðu saman, ekki aðeins Alþýðusambandið, ekki aðeins BSRB, heldur líka bændur. Aldrei fyrr hefur það gerst að aðilar vinnumarkaðarins hafa tekið upp viðræður við þá. Ég
var einn af þeim sem tóku þátt í þeim viðræðum og verð ég að játa að þær stundir voru afar fróðlegar og oft og tíðum skemmtilegar og mér er það alveg ljóst að menn gera of lítið af því að tala saman um þessi mál. Mér var það líka ljóst að bændur eru á margan hátt mun betur upplýstir um ástand landbúnaðarmála, um það hvernig þau standa en þeir stjórnmálamenn sem fyrir þá tala hér á Alþingi. Ég held að þeir sjái vandann betur, skynji hann betur, greini það hver staðan er. Það var ekki aðeins samið um landbúnaðarverð eða niðurgreiðslur heldur var samið um það að setja á stofn nefnd sem var falið að ræða um stefnumörkun í landbúnaði á þann hátt að landbúnaðarframleiðslan verði hagkvæmari, að landbúnaður verði ódýrari, að við getum horft fram í framtíðina á þann veg að neytendur geti fengið ódýrari vöru og bændur geti unað vel við sitt. (Gripið fram í.) Hv. þm. Egill Jónsson er hér með frammítökur. Hann skynjar greinilega ekki það sem ég var að segja eða veit ekki hvað ég var að segja því

að hann var að koma inn. Hitt er annað mál að ég get endurtekið það að ég er sannfærður um að bændur skynja betur vanda landbúnaðarins heldur en þeir stjórnmálamenn sem sitja hér og þykjast vera að tala fyrir hann. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt að hann greiddi atkvæði með matarskattinum.
    Hér hafa verið gerðar ýmsar athugasemdir við þá kjarasamninga sem liggja fyrir og þau fyrirheit sem ríkisstjórnin hefur gefið. Auðvitað geta menn gert athugasemdir en ég verð að játa það á mig að ég ber mikla virðingu fyrir því samkomulagi sem gert hefur verið hér bæði hvað varðar opinbera starfsmenn og líka sérstaklega við ASÍ.
    Það er fundið að því er varðar 1. og 2. gr. hvar talað er um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Ég vil geta þess að fyrir 3--4 árum samdi Alþýðusambandið um það að greitt yrði í lífeyrissjóð af öllum tekjum. Það hafa opinberir starfsmenn ekki gert enn. Nú er samið um að persónuuppbót og orlofsuppbót falli undir lífeyrissjóðsgreiðslur þannig að það má segja að þeir hafi að þessu leyti færst nær því að greiða af öllum tekjum. Mismunurinn er hins vegar sá milli ASÍ-sjóðanna og lífeyrissjóðs ríkisins að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er verðtryggður. Hitt er annað mál að tekjutryggingin gerir það að verkum að greiðslur til fólks úr BSRB eru mjög svipaðar og til ASÍ-félaga. Jöfnun á sér stað svo mikil. Það eru helstu topparnir hjá BSRB sem eru þar fyrir ofan.
    Ég veit ekki hvað ég á að fara ítarlega yfir þetta. Menn hafa engan áhuga á þessu máli greinilega, það er varla nokkur maður hér í salnum. Hér er hv. 3. þm. Vestf. og örfáir aðrir. Þessir kjarasamningar eru samningar sem gerðir eru til að verja kjörin, til þess að verja atvinnuna, til að verja atvinnulífið. Þetta er varnarsigur ef svo mætti segja sem náðist. Kjarasamningarnir fela í sér atriði sem snerta alla þjóðina. Þá á ég við lækkun verðbólgu og lækkun vaxta. Þessi kjarasamningur er á lágum nótum í því skyni að ná þessu markmiði.
    Mér er það alveg ljóst eins og hv. 3. þm. Vestf. að það er veruleg hætta á því að þeir sem betur eru settir reyni að klifra á baki láglaunafólksins. Það hefur því miður oftast gerst og menn hafa lítið við því getað gert. Þess vegna
er það skoðun mín að þennan kjarasamning eigi að lögfesta. Það eigi að lögfesta þennan samning. Þetta er óvenjuleg aðgerð sem lýtur að allri þjóðinni og ef það verður ekki gert má alveg búast við að einstaka sérhagsmunahópar ríði á vaðið nú þegar þeir hafa skjól af þessum samningi og reyni að fá meira, óháð því hvað gerst hefur hjá láglaunafólkinu, óháð því hvað er verið að gera fyrir allt efnahagsumhverfi í landinu. Þess vegna tel ég að þessa leið eigi að fara. Ég tel að verði það ekki gert lendi þessir samningar í miklum ógöngum.
    Það þarf líka fleira að gerast. Það þarf að vera virkt verðlagseftirlit, ekki bara hjá opinberum stofnunum heldur líka hjá aðilum vinnumarkaðarins. Það eru líka fyrirheit um það hjá viðsemjendum Alþýðusambandsins að svo verði gert. Þeir hafa tekið

heiðarlegan þátt í því og munu gera það. Það er mjög raunhæft líka og virðingarvert að þeir hafa tekið þátt í að auglýsa að þeim kauphækkununum sem nú eiga sér stað verður ekki fleygt út í verðlagið.
    Það var talað um launanefndina sem samið var um og þótti mér það miður að einn ræðumanna, hv. 14. þm. Reykv. sem á sér góða fortíð í verkalýðshreyfingunni, skuli sá tortryggni um þá hluti. Ég tel að sú launanefnd sem nú hefur verið samið um sé betri kostur en var 1986. Menn eru mjög brenndir af þeim samningum. Þar voru ekki allir endar hnýttir. BSRB var fyrir utan og ýmsir aðrir sem gátu eyðilagt þá samninga og ríkisstjórnin sem þá var kom aftan að okkur og aftan að láglaunafólkinu. Ég veit að oft var erfitt fyrir þá ríkisstjórn að ráða við hlutina en niðurstaðan varð sú að þeir kjarasamningar stóðust ekki. Ég á hins vegar von á því að þessir kjarasamningar komi til með að duga betur. Þeir eiga eftir að takast betur en þá verða allir að leggjast á eitt um að svo verði.
    Ég tel að t.d. samningurinn sem gerður var við bændur skipti miklu máli. Verð landbúnaðarvara verður stöðugt á þessu tímabili sem gerir það að verkum að sú skrúfa sem myndast hefur af verðhækkunum á landbúnaðarvörum á sér ekki stað en það er þekkt að ýmsar vörur hækka í takt við landbúnaðarvörur.
    Þau fyrirheit sem ríkisstjórnin hefur gefið eru samkomulagsatriði við aðila vinnumarkaðarins og ég á von á að þau muni standast. Það var vísað í það hér að ýmis loforð frá 1988 hefðu verið svikin. Ég tel að það sé rangt nema hvað varðar jöfnunargjald. Þar var orðið við kröfu atvinnurekenda um að fella niður jöfnunargjald og ætla ég ekki að gerast baráttumaður fyrir að það gangi fram en vissulega eiga menn að efna öll sín loforð. Ég ætla ekki að tíunda þessa hluti mikið meira. Ég legg áherslu á að þessir kjarasamningar stefna að því að halda óbreyttum kaupmætti. Kjörin versnuðu mjög á síðasta ári. Menn hafa gert sér grein fyrir að kjarabætur sæki þeir ekki við það ástand í efnahagsmálum sem hefur verið. Sá kjarasamningur sem liggur fyrir gefur góðar vonir um bjarta framtíð, betri tíð hvar efnahagslífið getur náð vopnum sínum, hvar launþegar geta búist við að eiga betri daga fram undan með lægri verðbólgu, lægri vöxtum og betra efnahagslegu umhverfi.
    Það vakti athygli mína hversu hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson var jákvæður varðandi kjarasamningana. Þar var talað af mikilli ábyrgðartilfinningu manns sem gerir sér grein fyrir að samningagerð af þessu tagi mun efla kjör fólksins í landinu þegar frá líður og þakkarvert hvernig á því var tekið af hans hálfu.
    Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að auðvitað er það skreytni að halda því fram að ríkisstjórnin hafi ekki haft með þessa hluti neitt að gera. Það er reyndar svo að ríkisstjórn semur ekki við aðila vinnumarkaðarins beint. En ef tilstillis hennar hefði ekki notið við þá hefðu þessir kjarasamningar ekki orðið að veruleika og líka það að það

efnahagslega umhverfi og það umhverfi almennt sem skapast hefur á undanförnum mánuðum gerir það að verkum að unnt var að gera þessa kjarasamninga. Við skulum vona að það takist að halda þeirri stefnu sem þeir marka og ég trúi að það gerist ef menn standa saman um þá hugsjón sem þar er að verki. Það þýðir ekki að einn og einn dragi sig út úr og segi: Ég vil ekki draga úr þessu eða hinu, spara hitt eða annað hjá ríkinu. Menn verða að leggjast á eitt um að ná samkomulagi um þá hluti með þá fullvissu að menn séu að gera rétt.