Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Bæði hv. 4. þm. Reykn. og hæstv. forsrh. viku nokkuð að ræðu hv. 14. þm. Reykv. hér áðan og varð af hálfu hv. 4. þm. Reykn. vegna þess að þeim þingmanni, sem raunar er varaformaður Verkamannasambands Íslands og stóð að þeirri samningsgerð sem nú hefur verið gengið frá og samþykkt víðast hvar, þótti sem hv. 14. þm. Reykv. fyndist óvissa um það hvort sú hugmynd sem væri á bak við launanefndina gengi upp. Með sama hætti held ég að það sé misskilningur hjá hæstv. forsrh. að við sjálfstæðismenn höfum nokkuð á móti því að samráð eða samstarf sé haft við verkalýðshreyfinguna. Það er þvert á móti. En ég vek athygli á hinu að varaformaður Verkamannasambandsins er ekki trúaðri á það að þessir samningar gangi upp en svo að hann lét hér í ljósi þá skoðun sína að nauðsynlegt væri að lögfesta samningana.
    Nú voru þetta auðvitað fróðlegar upplýsingar og væri gott að fá um það vitneskju frá hæstv. forsrh. hvort þær umræður séu uppi og hvort það hafi komið til tals milli hans og forustumanna launþegasamtakanna, Verkamannasambands eða Alþýðusambands, að sú samningsgerð sem nú hefur verið gengið frá með frjálsum hætti og án atbeina ríkisstjórnarinnar verði lögfest. Ég tel að það yrði mjög miður og finnst sú hugmynd satt að segja mjög ógeðfelld, jafnógeðfelld og þau ummæli þingmanns Alþfl. að þessi ríkisstjórn hafi átt einhvern þátt í því að samningarnir tókust hjá aðilum vinnumarkaðarins. Það er svona hálfbroslegt þegar menn eru að lesa það eftir einstökum ráðherrum að þeir hafi átt einhvern sérstakan þátt í því að launafólk í landinu sá fram á þá stöðu að ekki gengi við þær aðstæður sem nú eru, meðan þessi ríkisstjórn situr, að ganga að kjarasamningum sem hefðu í för með sér einhverja launahækkun á þessu ári, einhverjar kjarabætur á þessu ári. Það mesta sem hægt væri að vona væri að kaupmátturinn gæti nokkurn veginn
haldist og að atvinnuástand versnaði ekki frá því sem nú er. Það er auðvitað alveg laukrétt sem varaformaður Verkamannasambandsins sagði. Hann hefur langa reynslu af kjarasamningum, nauðaþekkir atvinnumálin, a.m.k. á Suðurnesjum, og fáum mönnum er það jafn vel kunnugt og honum að jafnan fer svo þegar atvinnuöryggi fólks er í hættu að fólkið sættir sig við minna en ella af því að það gerir sér grein fyrir því að hagur launafólks og fyrirtækja fer saman, svo einfalt er það mál. Og af þeim sökum er það líka rétt sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan að varla mun koma til jafnmikils atvinnuleysis á þessu ári eins og óttast var fyrir áramótin einmitt vegna þess að nú hafa launþegar og vinnuveitendur tekið höndum saman um þessa samninga.
    Ef við lítum á aðdraganda samninganna, þá hygg ég að það sé alveg ljóst að sú kjaraskerðing sem orðið hefur frá því að þessi ríkisstjórn settist að völdum er tveggja stafa tala. Ég skal ekki segja hvort hún er 10, 11, 12, 13, 14, 15, 16% en kjaraskerðingin

er einhvers staðar á þessu bili. Um síðustu áramót stóð þjóðin frammi fyrir því að ríkisstjórnin var staðráðin í að þyngja enn skattheimtuna. Ég hygg að það sé einhver grófasta lagasetning sem samþykkt hefur verið frá Alþingi að þyngja beinu skattana um 2% um síðustu áramót. Ég man ekki eftir neinni annarri lagasetningu sem er jafnósvífin. Það má auðvitað segja að þessi lagasetning hafi verið eins og að slá launþega þessa lands utan undir með blautum sjóvettlingi. Og auðvitað er það ljóst að menn hefðu risið upp ef ekki hefði staðið svo á að undirstöður atvinnulífsins voru að bresta og allur almenningur gerði sér grein fyrir að nú yrði að doka við, bíða þess að jákvæðari og heilbrigðari stefna yrði tekin upp í atvinnu- og ríkisfjármálum. Það er alveg laukrétt að þeir kjarasamningar sem hér voru gerðir eiga að vera raunhæfir, þeir eiga að geta verið það. Ég minni sem fordæmi á þá kjarasamninga sem gerðir voru á árinu 1969 undir forsæti Bjarna Benediktssonar þegar náð var þjóðarsátt við þá Hannibal Valdimarsson, Björn Jónsson, Eðvarð Sigurðsson og aðila vinnumarkaðarns með atvinnumálanefndum víðs vegar um landið. Og ég minni raunar líka á að þegar Sjálfstfl. myndaði ríkisstjórn með Framsfl. 1974 og 1983 voru lögfestar ákveðnar kaupgjaldshækkanir á tilteknu tímabili, eitt eða eitt og hálft ár, til þess að halda verðlagi niðri þó svo það kostaði launaskerðingu í bili, en hugsunin á bak við lögin 1974 og 1983 var öldungis sú sama og þeir kjarasamningar sem nú var gengið að með frjálsum vilja. Við erum með öðrum orðum með þessum kjarasamningum að tala um gömlu íhaldsúrræðin sem jafnan hafa reynst best þegar að því hefur komið að nauðsynlegt er að spyrna við fótum og reisa atvinnulífið úr rústum.
    Ég get vel tekið undir ánægju forsrh. yfir því að atvinnuleysi í janúarmánuði varð minna en margir óttuðust. Og ég get vel skilið að hann vilji trúa því að það muni þýða að ekki komi til jafngeigvænlegs atvinnuleysis og menn þóttust sjá fyrir. Á hinn bóginn hygg ég að enn sé of snemmt að spá um það hvernig fer með sumarvinnu skólabarna og ég óttast satt að segja að við getum staðið frammi fyrir meira atvinnuleysi hjá því unga fólki en verið hefur nema álfyrirtækið Alumax sé tilbúið að gefa viljayfirlýsingar sem muni gera okkur kleift að hraða virkjunarframkvæmdum.
    Ráðherrum er gjarnt að þakka sér eitt og annað. Þannig var það t.d. broslegt
á fundi sem ég átti með unglingum í Verkmenntaskólanum á Akureyri í gær þegar kunnur leikstjóri sem var fulltrúi Alþfl. fór að draga það sérstaklega fram að hæstv. iðnrh. hefði haft þau áhrif á stjórnendur hins mikla auðhrings að e.t.v. væri betra að skoða Eyjafjörð fyrst áður en ákvörðun yrði tekin um endanlegt staðarval. Nú veit ég að iðnrh. er vaskur maður og gjarn að skipta sér af, en ég er á hinn bóginn ekki viss um að hann hafi haft mikið að segja í því efni.
    Ég verð að segja í sambandi við atvinnumálin og í sambandi við þá atvinnumálanefnd sem skipuð var,

hygg ég á sl. hausti, að ég held það sé rangt hjá hæstv. hagstofuráðherra að stjórnmálaflokkarnir eigi aðild að þessari atvinnumálanefnd. Ég held hún sé einvörðungu skipuð fulltrúum ríkisstjórnarinnar og svo vinnumarkaðarins. Mér er ekki kunnugt um að Sjálfstfl. eigi fulltrúa í þeirri nefnd. Ég er út af fyrir sig mjög ánægður yfir því að þessi atvinnumálanefnd skuli hafa hist tíu sinnum. Og ég var mjög ánægður yfir því líka að hæstv. iðnrh. hefur af og til gefið yfirlýsingar um að búið sé að skila áliti og gera margvíslegar samþykktir í sambandi við skipasmíðaiðnaðinn. En þó er það nú svo að á fundinum í Verkmenntaskólanum á Akureyri í gær spurðu unglingarnir mjög um atvinnumálin og þar var ég m.a. spurður hvernig á því stæði að ekki hefðu fengist lánveitingar til þess að Meleyri gæti samið við Slippstöðina um að ljúka því raðsmíðaskipi sem hefur verið í byggingu. Og ég varð að segja börnunum eins og satt var að fyrir jólin hefðu ráðherrarnir verið mjög líklegir. Ég varð að segja þeim að í byrjun þessa árs hefði blaðafulltrúi fjmrh. sagt í viðtali við Dag að þann hinn sama dag, ja, það var kannski 1. febr. eftir á að hyggja sem það viðtal var, það er ekki aðalatriðið, að þann hinn sama dag mundi ríkisstjórnin hittast til að taka ákvörðun um það hvort Ríkisábyrgðasjóður mundi taka ábyrgð á láni til að ljúka þessari smíði.
    Einni viku síðar var haft eftir hæstv. forsrh. að óskiljanlegt væri að Fiskveiðasjóður skyldi hafa fellt það að veita lán til að ljúka smíði skipsins. Í Fiskveiðasjóði féllu atkvæði svo að sex voru á móti en einn með og þá sagði hæstv. forsrh. að það gengi auðvitað ekki að Kristján Ragnarsson réði einn yfir þessum sjóði. Allir skildu hæstv. forsrh. svo að hann ætlaði að grípa í taumana. Þetta olli því að ég tók málið upp hér utan dagskrár. Þá vantaði auðvitað fjmrh. sem blaðafulltrúinn talaði fyrir. Forsrh. var ekki viðstaddur en það var iðnrh. Og þá kom iðnrh. upp með þær upplýsingar að það væri sök Byggðastofnunar að ekki skyldi hafa fengist nægilegt lánsfé til þessarar smíði. Byggðastofnun afgreiddi málið með þeim hætti að veittar yrðu 140 millj. kr. til smíðinnar sem yrði jafnhliða á 1. og 2. veðrétti. Ég hefði að vísu lagt til að Byggðastofnun færi á 2. veðrétt. Það er ekki kjarni þessa máls. Hitt er kjarni málsins að hæstv. iðnrh. sagði að búið hefði verið að ganga frá því að bilið yrði brúað, þessar 140 millj. sem upp á vantaði ef Byggðasjóður færi á 2. veðrétt.
    Nú er það auðvitað mikið íhugunarefni ef svo var og ef ríkisstjórnin vildi á annað borð leysa þetta sérstaka málefni hvers vegna einstakir ráðherrar gengu þá ekki í það að tala við sína menn í stjórn Byggðastofnunar, ef þeir vildu að málið næði fram að ganga og ef þeir voru búnir að útvega fé til smíðinnar annars staðar. En þess varð ekki vart. Nú geri ég mér að vísu vonir um að þeir aðilar sem þarna eiga í hlut, Meleyri og Slippstöðin, muni geta fengið lausn á þessu máli án þess að stjórnvöld komi nálægt og það yrði auðvitað besta lausnin. En ekki er við góðu að búast og ekki er hægt að vænta þess að atvinnuleysi

minnki í landinu þegar framkvæmd af þessu tagi dregst svo vikum og mánuðum skiptir án þess að einstakir ráðherrar fáist til þess að tala hreint út um hlutina. Það er verulegt atvinnuleysi á Akureyri. Eftir síðustu tölum sem ég hef séð er atvinnuleysi hvergi meira á landinu og hluti þessara manna höfðu áður unnið í Slippstöðinni á Akureyri.
    Ég vil taka annað dæmi. Stjórn Byggðastofnunar hefur tvívegis samþykkt einróma á fundi sínum að erfiðleikarnir á Þórshöfn séu svo miklir að engin von sé til þess að Byggðastofnun geti ein mætt þeim með þeim hætti að Stakfellið verði kyrrt í byggðarlaginu og hægt verði að koma þeim fótum undir atvinnulífið þar sem dugi til þess að fólk fái aftur trú á staðnum og trú á því að atvinnulífið komist í fyrri skorður. Þó svo að hæstv. forsrh. sé þetta kunnugt höfum við, sem eigum sæti í stjórn Byggðastofnunar, ekki fengið neina vísbendingu frá honum um að hann muni beita sér fyrir því, t.d. nú við þau fjáraukalög sem fram eiga að koma, að Byggðastofnun fái sérstaka fjárveitingu til að mæta þessu máli, enda er sannleikurinn sá að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina og Hlutabréfasjóður hafa þau verkefni fyrst og fremst að hlaupa undir bagga þegar illa gengur hjá þeim fyrirtækjum sem eru möndull atvinnulífs á viðkomandi stað. Og hvað getur verið meiri möndull atvinnulífs á stað eins og Þórshöfn en þegar horft er framan í það að kaupfélagið verði kannski gjaldþrota, að togarinn verði seldur burt af staðnum og frystihúsið á staðnum sitji uppi með lítið hráefni? Þó svo að á þessum stað séu sterkir einstaklingar, þá er óvíst að það dugi til að mannlíf þar haldist í réttum
skorðum.
    Löng og þreytandi umræða af þessu tagi í litlum byggðarlögum veldur því að fólk fer að hugsa til brottferðar. Fyrir þessu höfum við langa reynslu og þess vegna er hálfbroslegt þegar ráðherrar koma hér í stól og eru að hrósa sér af því að hafa skipað einhverjar sérstakar atvinnumálanefndir. Spurning hvort hugur fylgir þar máli.
    Ég var um daginn, ásamt öðrum þingmönnum Norðurl. e., staddur á Kópaskeri á mjög fróðlegum fundi sem þar var haldinn. Á þeim fundi tóku tveir ráðherrar til máls en ég held samt sem áður að íbúar staðarins hafi verið litlu nær. Og ég get bætt því við að ég hef hér fyrir framan mig samþykkt sem útgerðarmenn á Húsavík sendu bæjarstjórn Húsavíkur hinn 28. jan. sl. og ég fullyrði að hæstv. forsrh. hefur í sínum höndum. Þessi ályktun er þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fundur bátaútgerðarmanna á Húsavík haldinn 22. jan. 1990 vill vekja athygli bæjaryfirvalda á Húsavík á þeirri þróun og þeim geigvænlega rekstrarvanda sem bátaútgerð á Húsavík, eins og víða annars staðar á landinu, á nú við að etja. Flest útgerðarfyrirtæki á staðnum eru nú þegar komin á vonarvöl og ekkert blasir við annað en rekstrarstöðvun og sala á bátum úr bænum ef ekkert verður að gert þegar í stað. Ef slíkt gerist er ljóst að mikill hluti af þeim aflakvóta sem hér er til staðar flyst úr bænum og grundvelli búsetu

margra fjölskyldna hér í bæ er stefnt í voða. Síðustu ár hefur afkoma bátaflotans farið mjög versnandi og benda nýjustu tölur nú til þess að afkoma síðasta árs sé neikvæð um 20--30%. Mestu munar hér um hinn mjög svo háa fjármagnskostnað og stórhækkað verð olíu auk annarra rekstrarliða sem hafa hækkað margfalt á móti tekjuliðum sem hafa raunar dregist saman vegna síminnkandi aflaheimilda. Fundurinn skorar á bæjaryfirvöld að taka þessi mál þegar í stað til alvarlegrar skoðunar og beita öllum sínum áhrifum til að aðstoða bátaútgerð á staðnum við að komast út úr þessum vanda jafnframt því sem fundurinn varar við öllum hugmyndum í þá átt að auka álögur sveitarfélagsins á hendur útgerðinni við þessar aðstæður.``
    Undir þetta skrifa níu útgerðarmenn, allir útgerðarmenn á staðnum. Þetta var 22. jan. Ég hygg ég fari rétt með það að síðan hafi einn bátur verið seldur frá Húsavík. Ég veit ekki annað en um það hafi tekist samningar. Að hluta til eru erfiðleikar bátaútgerðarinnar auðvitað sprottnir af því hversu misjafnt fiskverð er hér á landi. Því er alls ekki að leyna að þeir bátar sem hafa lagt upp hjá ýmsum vinnslustöðvum á Norðausturlandi hafa verið í lægri eða lægsta kantinum á fiskverðinu sem auðvitað hefur nú hefnt sín í verri rekstrarafkomu hjá þessum bátum. Þegar við hugsum um þetta atriði minnumst við þess, hæstv. forsrh., að þegar gengið var frá fiskverði fyrir einu ári tók fiskvinnslan á sig nokkra hækkun fiskverðs gegn því að ríkisstjórnin beitti sér fyrir fiskmiðlun hér á landi. Ég hef hér í höndum bréf sem send voru hæstv. utanrrh. Ég er hér með eitt bréf sem sent var 14. mars 1989 og snertir þetta mál. Ég er hér með annað bréf sem var sent 12. júlí og varðar þetta sama mál og loks er ég með bréf sem er dags. hinn 6. apríl á sl. ári og því bréfi hefur heldur ekki verið svarað. Engu af þessum þrem bréfum hefur verið svarað. Öll varða þessi bréf fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að koma til móts við aðila fiskvinnslu og útgerðar til að koma á fót aflamiðlun hér á landi. En auðvitað vitum við að fiskvinnslan getur tekið á sig nokkra fiskverðshækkun ef hægt er að tryggja henni öruggari aðgang að hráefni. Þeir sem hafa séð reikninga fiskvinnslufyrirtækja vita að stöðugleiki í hráefnisöflun er einhver þýðingarmesti þátturinn í því að koma rekstri fiskvinnslufyrirtækis á heilbrigðan grundvöll.
    Í sambandi við fiskverðsákvörðun að þessu sinni. Þegar samkomulag hafði tekist í grófum dráttum um það hvernig staðið yrði að fiskverðsákvörðun bregður svo við að einstakir ráðherrar eru með, ég vil segja mjög ósvífnar glósur, nafngreina jafnvel einstaka menn, reyna að koma á þá höggi til þess að afsaka getuleysi sjálfra sín í sambandi við meðferð þessara mála. Það er t.d. eitt atriði sem mjög hefur komið illu til leiðar, vil ég segja, og það er sú mikla leynd og sú mikla þoka sem hefur verið í sambandi við afgreiðslu utanrrn. á útflutningsheimildum á fiski. Ég verð því að segja að það yrði mikið fagnaðarefni ef ríkisstjórnin hefur nú fallist á að láta þessi mál algerlega í hendur hagsmunaaðila, launþega og atvinnurekenda, því að þá

er við því að búast að hægt verði að ná verulegum árangri. Ég skal ekki segja að það takist á fyrsta degi, en auðvitað munu þessir aðilar, hvort sem við tölum um útgerðarmenn eða sjómenn, fiskverkendur eða verkamenn eða verkakonur, reyna að koma þessu máli í svo gott horf að við getum nýtt ferskfiskmarkað erlendis þannig að við fáum hámarksverð á hverjum tíma fyrir útflutta afurð án þess að sá fiskur verði tekinn til frekari vinnslu erlendis og um leið styrkt hráefnisöflun hér á landi. Nefnd af því tagi getur ekki starfað undir hrópyrðum. Og nefnd af því tagi getur ekki starfað ef atkvæðagreiðslur eiga að verða um sérhvert mál. Þess vegna vil ég segja að upphrópanir formanns Verkamannasambands Íslands hafa satt að segja verið mjög undarlegar, svo að
ekki sé meira sagt. Maður hefði getað látið sér detta í hug að formaðurinn hefði gleymt neftóbaksdósunum heima eða þá að hann sé eitthvað eftir sig eftir að hafa rifjað upp samskipti sín við Ceausescu, fyrrum leiðtoga Rúmeníu, sem formaður Verkamannasambandsins átti að gistivini.
    Ég vil líka segja, hæstv. forsrh., að það bréf sem nú er skrifað og er sem fskj. með þessu frv. er dags. hinn 1. febr. 1990. Það er sent Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaga og er áferðarfallegt. En spurningin er, hvaða alvara er á bak við það? Ég vil, herra forseti, taka lítið dæmi. 10. liður hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Skattlagning fyrirtækja. Ríkisstjórnin áréttar fyrri yfirlýsingar um að unnið verði að því að samræma skattlagningu á fyrirtæki því sem gerist í samkeppnislöndunum.``
    Ef við förum aftur til maímánaðar á sl. ári, þá skrifaði hæstv. forsrh. bréf þar sem þessi sami punktur var, en það var eitt öðruvísi þá en nú. Þá var því heitið að samráð yrði haft við hagsmunasamtök atvinnurekenda, við vinnuveitendur um þessa samræmingu skattlagningar á fyrirtæki, en nú er því sleppt. Og af hverju er því sleppt, hæstv. forsrh.? Því er sleppt vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir hvað eftir annað hér í þinginu að aldrei hafi staðið til að standa við þau orð forsrh. að unnið yrði að þessu máli í samráði við vinnuveitendur. Þetta er yfirlýsing sem hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson hefur hvað eftir annað gefið hér í þinginu. Nú langar mig að spyrja hæstv. forsrh. sem sagði hér áðan að hann vildi ekki skjóta sér undan: Hvenær hyggur hæstv. forsrh. þetta koma til framkvæmda, að skattlagning á fyrirtækjum hér á landi verði samræmd því sem gerist í nágrannalöndum? Gerir hæstv. forsrh. ráð fyrir því að það geti orðið það snemma að skattlagning vegna ársins 1990 falli undir slíka löggjöf? Með öðrum orðum að frv. verði lagt fram á þessu þingi og við getum afgreitt það fyrir vorið. Ríkisstjórnin er þegar búin að hafa tíu mánuði til að vinna að þessu verkefni, tíu mánuði. Hæstv. iðnrh. lýsti því yfir fyrir nokkrum mánuðum að það hafi gengið vel. En hæstv. fjmrh. hefur aldrei gefið neitt slíkt í skyn. Hann hefur sagt að ekki verði litið á

þetta fyrr en með vorinu. Hann hefur aldrei gefið undir fótinn með það að nein skattalög í þessa veru yrðu samþykkt meðan hann er fjmrh. Og nú spyr ég hæstv. forsrh.: Hvenær ætlar hann að standa við þetta? Þorir hann að gefa yfirlýsingu um það? Treystir hann sér til að segja nú á þessari stundu: Ég skal kannski beita mér fyrir slíkri löggjöf en hún kemur þá ekki til framkvæmda fyrr en ég er hættur að vera forsrh., fyrr en þessi ríkisstjórn er farin? Eða þorir hann að segja: Ef ég verð forsrh. að ári skuluð þið sjá það, sem nú gagnrýnið mig fyrir að standa ekki við orð mín, að hin nýja löggjöf verði gengin í gildi og að fyrirtækin muni þegar á næsta ári njóta þess að vilji minn stendur til þess að skattlagning fyrirtækja hér á landi verði hliðstæð því sem gerist í nágrannalöndunum?
    Það vekur athygli mína að í bréfi því sem hæstv. forsrh. skrifar aðilum vinnumarkaðarins er ekki minnst einu einasta orði á Byggingarsjóð ríkisins. Ég held að nauðsynlegt sé að rifja upp nokkur atriði úr sögunni til að reyna að gera sér grein fyrir því hvernig fjármál þess sjóðs eru nú. Þegar hv. þm. Alexander Stefánsson fór með húsnæðismál var lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun. Ég man ekki hvort það var í marsmánuði 1986, 442. mál og í grg. með því frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sé gert ráð fyrir að um helmingi af þeim lánveitingum, sem reiknað er með hér á undan til þeirra sem eiga íbúð fyrir, verði frestað um eitt ár yrði fjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins til lána vegna nýrra og notaðra íbúða um 3,5 milljarðar kr. á árinu 1987. Framlag ríkissjóðs mætti á þessum forsendum ekki vera lægra en 1 milljarður kr. Lögbundið lágmarksframlag ríkissjóðs miðað við samþykktar útlánaáætlanir á árinu 1986 eru 940 millj. kr. Á hinn bóginn mun ríkissjóður verja á þessu ári 1,1 milljarði til sjóðsins auk 200 millj. kr. til lána til þeirra sem eiga í sérstökum greiðsluerfiðleikum. Hafa verður í huga að framlag ríkissjóðs umfram hið lögbundna lágmark byggist á sérstakri fjáröflun sem fellur niður í lok þessa árs. Þessu til viðbótar ver ríkissjóður 300 millj. kr. til Byggingarsjóðs verkamanna þannig að samtals nema framlög ríkissjóðs til byggingarsjóðanna beggja 1,6 milljörðum kr. á þessu ári.
    Vegna mikillar aukningar ráðstöfunarfjár lífeyrissjóða næstu árin á ekki að skapast hætta á sífellt vaxandi biðröð þótt lánum sé frestað í upphafi. Heppilegt virðist að útjöfnunar lánsfjáreftirspurnarinnar gæti fyrst og fremst á árinu 1987 en eftir það ætti ekki að taka nema 2--3 ár að ná jafnvægi. Er þá miðað við lánsfjárhæðir samkvæmt frv. þessu, ofangreindar tölur um fjölda lána og að framlag ríkissjóðs verði ekki lægra en 1 milljarður á ári.
    Þörfin fyrir framlag ríkissjóðs ræðst þegar fram í sækir ekki einungis af lánsfjáreftirspurn heldur ekki síður af vaxtaniðurgreiðslunni. Hún er svo aftur háð vaxtamuninum á teknum lánum og veittum og muninum á endurgreiðslutíma lánanna. Verði hér um verulegan mun að ræða í vöxtum og tíma og vaxtaniðurgreiðslan því mikil kallar það sem fyrr segir

á vaxandi framlag ríkissjóðs. Á hinn bóginn er einnig ljóst að framlag ríkissjóðs ræður miklu um
eiginfjárstöðu Byggingarsjóðs ríkisins. Því er óhjákvæmilegt að ákvarðanir um framlög ríkissjóðs á fjárlögum til Byggingarsjóðs ríkisins ár hvert verði teknar með hliðsjón af hvoru tveggju, útlánaþörf sjóðsins á árinu og eiginfjárstöðu sjóðsins.``
    Svo mörg voru þau orð. Okkur hefur gengið illa að standa við það að viðunandi framlag úr ríkissjóði kæmi til Byggingarsjóðs ríkisins. Ég vil minna á það að þegar Þorsteinn Pálsson var forsrh. var svo ákveðið í fjárlögum að á árinu --- ég verð nú að biðja afsökunar á því að ég hef ekki þær tölur með mér, en það kemur ekki að sök í þessu samhengi. Á árinu 1989, það er best að fara einu ári lengra, var ekki talið fært að Byggingarsjóður ríkisins fengi nema 1 milljarð 50 millj. kr. á fjárlögum. Sú fjárhæð var síðan skorin niður í 550 millj. kr. og nú er svo komið að til Byggingarsjóðs ríkisins renna einungis 150 millj. kr. Það er með öðrum orðum vísvitandi, með opin augun verið að brjóta niður eiginfjárstöðu Byggingarsjóðs ríkisins með þeim rökum væntanlega að ríkissjóður hafi ekki efni á því að mæta þeim skuldbindingum sem hann hefur þar tekið á sig. En um leið og þessi ákvörðun er tekin hefur verið ákveðið að veita æ meiri straumi húsnæðislána í gegnum Byggingarsjóð verkamanna þar sem lánin eru mun hærri og niðurgreiðslan á lánunum þeim mun meiri sem vextir í Byggingarsjóði ríkisins eru 3,5% en vextir í Byggingarsjóði verkamanna 1%. Og nú er munurinn orðinn sá að Byggingarsjóður verkamanna sem fékk 300 millj. kr. úr ríkissjóði á árinu 1986 fær nær tvöfalda þá upphæð í krónutölu eða 500 millj. en á hinn bóginn fær Byggingarsjóður ríkisins einungis 150 millj. á móti 1,1 milljarði á árinu 1986. Og ekki nóg með þetta heldur hefur það heyrst, ekki veit ég hvort það er satt, að ríkisstjórnin hugsi sér að skera enn niður þessar greiðslur til Byggingarsjóðs ríkisins.
    Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt við þessa umræðu nú að hæstv. forsrh. geri deildinni grein fyrir því hvort hann hafi í hyggju að leggja Byggingarsjóð ríkisins niður eða hvort hann með öðrum hætti hyggst draga svo úr lánveitingum úr Byggingarsjóði ríkisins að það fólk sem þar á nú umsókn inni geti undir engum kringumstæðum vænst þess að fá þá lánsfyrirgreiðslu sem það hefur vænt og talið sig geta treyst á. Ég held að hitt sé algerlega ófullnægjandi að ætla að reyna að skjóta sér á bak við orðið verkamaður í heiti sjóðsins Byggingarsjóður verkamanna því við vitum vel að víða úti um land hefur fólk orðið að fara í félagslegar íbúðir vegna þess að staðið hefur á því að Byggingarsjóður ríkisins hafi getað veitt þá lánsfyrirgreiðslu nógu fljótt sem fólk hefur viljað geta treyst á og hefur þóst geta treyst á. Með þessu háttalagi er hæstv. forsrh. auðvitað að binda þunga bagga á framtíðina. Hann er að segja við það unga fólk sem nú er að vaxa úr grasi að það verði að taka á sig þessa miklu pinkla sem fram undan eru. Það er þess vegna kannski eðlilegt að forsrh. segi í fjölmiðlum að það sé meira beinskorið

núna í ríkisfjármálum en verið hafi nokkru sinni fyrr. En hvar er beinskorið? Það er beinskorið í Byggingarsjóði ríkisins. Það er beinskorið hjá Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna og það er víðar á öðrum stöðum þar sem beinskorið er þegar hægt er að ávísa sköttunum á það fólk sem nú er að vaxa úr grasi.
    Hæstv. forsrh. gerir sér grein fyrir að hann verður ekki langlífur úr þessu í sínu embætti. Á hinu á ég ekki von, sem hann sagði hér áðan, að hann muni þá taka á sig ábyrgðina af því hversu illa hefur tiltekist. En ég skrifaði það niður eftir honum að hann segist aldrei hafa leikið tveim skjöldum í sambandi við pólitíska ábyrgð. Hann segist ekki hafa leikið tveim skjöldum þegar hann talaði um að Róm brynni. Hann segist ekki hafa leikið tveim skjöldum þegar hann sagðist hafa verið uppi í fílabeinsturninum og hann segist ekki hafa leikið tveim skjöldum yfir höfuð að tala allan þann vetur, 1987--1988 og fram á haust 1988. Ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma. Það er spaugilegt að eiga þessi ummæli í þingtíðindum og er auðvitað sjálfgert að setja smáblýantsstrik við þegar þingtíðindin koma út. Maður verður þá fljótur að finna þetta gullkorn sem hraut þarna af vörum hæstv. forsrh. sem gaf sér þá einkunn að hann hefði aldrei leikið tveim skjöldum.
    Ég geri, herra forseti, kannski ekki kröfu til þess að hæstv. forsrh. svari öllum þeim athugasemdum sem ég hef hér komið með, en ég tel óhjákvæmilegt að fá a.m.k. um það upplýsingar hvort umræður hafa verið í gangi milli ríkisstjórnarinnar og Verkamannasambandsins eða þá ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambands Íslands um að lögfesta þá samninga sem nú eru í gildi. Ég deili áhyggjum með hv. 6. þm. Vesturl. um það að hæstv. fjmrh. skýri ekki rétt og satt frá því hvernig rétt sé að túlka þá kjarasamninga sem gerðir voru við Bandalag háskólamanna á sl. ári. Það er óhjákvæmilegt líka að rifja upp að öll sú samningsgerð sem þá fór fram, fyrir einu ári, var samkvæmt uppskrift og að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað hálfspaugilegt þegar þeir sömu ráðherrar og komu þeirri verðbólguöldu af stað eru nú að tala um að þeir hafi átt einhvern sérstaklega góðan þátt í lausn kjaramálanna.
    Við höfum nú fengið vitneskju um það í þinginu að búast megi við því að á morgun verði lagt fram, ef ekki er búið að því, frv. frá hæstv. fjmrh. um að fresta því um einn mánuð að bifreiðagjald gjaldfalli. Ástæðan fyrir því að
ríkisstjórnin vill nú fresta greiðsludeginum um einn mánuð er sú að ríkisstjórnin ætlar að þyngja þessar skattaálögur. Á sama tíma og hæstv. forsrh. var að hrósa sér af því áðan að hann hafi gengið á vit verkfræðinga og beðið þá að taka til baka launahækkun sem þeir voru búnir að semja um, stendur hann að því nú í dag að taka ákvörðun um það að flutt verði stjórnarfrv. á morgun um að fresta greiðsludegi bifreiðagjalds um einn mánuð til að hægt verði að auka álögur á fólkið í landinu. Það er með þessum hætti sem ríkisstjórnin ætlar að ganga á

undan, auka álögurnar, sitja ein við það borð að hún megi leggja á þennan skattinn, hún megi leggja á hinn skattinn. Þeir eiga þetta ráðherrarnir allt saman á blaði hjá sér, þessa ótrúlega mörgu möguleika sem þeir hafa fundið upp til að þyngja skattheimtuna í landinu. Okkur tókst hér í deildinni að brjóta á bak aftur tilraunir þeirra til að hækka raforkuverðið um 30% nú á haustmánuðum. Nú eigum við hér í deildinni eftir að kljást um það í næsta mánuði hvort hitt gengur fram, að bifreiðagjaldið verði lagt á. Það á eftir að koma í ljós. En þessi umræða er haldin í skugga þess forsrh. sem þurfti að fjölga stuðningsmönnum sínum á Alþingi á þessu þingi þegar hann stóð frammi fyrir því að hann yrði að öðrum kosti að segja af sér, þess hæstv. forsrh. sem talar um að fólkið í landinu eigi að spara og ganga hart að sér.
    Ráðherrarnir voru níu og ekki hefur sést að afköstin hafi neitt aukist þó nú séu þeir ellefu. Það hefur lítið borið á því. Og hæstv. forsrh. var búinn að semja við Borgfl. um að bæta tveim ráðherrum við. En hann fór ekki þá leiðina að fækka ráðherrum hjá öðrum flokkum eða hjá sjálfum sér. Hann fór hina leiðina, að fjölga ráðherrunum. Einungis kostnaðurinn við nýja stjórnarhattinn er 23 millj. Hvað ætli kostnaðurinn við ráðherradóm hins ráðherra Borgfl. sé? Getum við komið okkur saman um 10 millj. eða 15? Hvað skyldi þessi samningsgerð hæstv. forsrh. á sl. hausti, þegar allt kemur til alls, hafa kostað þjóðina? Skyldu nýju ráðherrarnir hafa kostað þjóðina meira en sá dráttur sem orðið hefur á því að ganga frá lánamálum vegna raðsmíði Slippstöðvarinnar hefur kostað það fyrirtæki? Ég get haldið svona áfram og tekið fleiri fyrirtæki hringinn í kringum landið. Við höfum auðvitað áhyggjur af því, þingmenn utan af landi, hvernig þar er komið og auðvitað hafa þingmenn Reykjavíkur og Reykjaness áhyggjur af því hvernig hér er komið. Þjóðin sjálf sættir sig þess vegna við að launakjörin batna ekki að sinni eða meðan þessi stjórn hneppir okkur í fjötra, menn sem eru að reyna að sameina vinstri blokkina í einn flokk og hafa ekki meiri smekk en svo að þeir taka kommúnistana með eftir allt það sem gengið hefur á í málefnum Austur-Evrópu upp á síðkastið.