Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Áður en ég hef mál mitt verð ég að leiðrétta eitt atriði sem fram kom í máli hv. 2. þm. Norðurl. e. Ég hygg að það hafi verið hv. 3. þm. Vestf. sem minntist á túlkun kjarasamninga BHMR því að ég minntist örugglega ekki á þá í máli mínu hér fyrr í dag.
    Ég vildi aðeins þakka hæstv. ráðherrum fyrir þær tilraunir sem þeir gerðu til að svara þeim fyrirspurnum sem ég bar fyrir þá fyrr í dag. Reyndar sást hæstv. fjmrh. yfir a.m.k. tvær spurninga minna. Hann tjáði mér hins vegar að hann þyrfti nauðsynlega að hverfa af þessum fundi og geri ég ekki við það athugasemdir. Hann tjáði mér jafnframt hér í hliðarherbergi að nú væru til umræðu innan hæstv. ríkisstjórnar tillögur um að setja annað skattþrep og fyrirhugað væri að leggja fram tillögur þar um í haust. Vil ég fagna því þar sem þetta hefur verið eitt af stefnuatriðum okkar í Kvennalistanum, að koma á sérstöku þrepi fyrir hátekjufólk sem er frekar aflögufært en þeir sem lægri launin hafa. Þetta er ein mikilvæg leið til tekjujöfnunar. Eftir stendur reyndar spurning mín til hæstv. fjmrh. um það hvernig til hefur tekist með að lækka verð á matvælum síðan lög um virðisaukaskatt tóku gildi en ég reikna með að við gætum átt um það umræður síðar.
    Þá vil ég víkja aðeins að þeim svörum sem hæstv. forsrh. gaf. Ég varð hvorki vör við eldmóð né hugsjónaólgu í þá áttina að reyna að jafna launamismuninn í landinu heldur kom hann með klassískt svar um það að ríkið sæi ekki um samninga á hinum almenna vinnumarkaði. Ég vil hins vegar benda á það fordæmi sem ríkið getur gefið með því að ganga á undan með því að jafna launin milli hópa og milli kynja. Ég vil einnig benda á að í könnun BHM sem gerð var í vetur kom fram að meira launajafnrétti er hjá einkafyrirtækjum en opinberum. Í þeirri könnun kemur fram að hjá sveitarfélögum t.d. eru heildarlaun kvenna einungis rúm 60% af heildarlaunum karlmanna og jafnframt kemur fram að
algengara er að karlmenn fái bónusgreiðslur af einhverju tagi eða fasta ómælda yfirvinnu, sem virðist vera orðið fast hugtak í umræðunni um launamál, en hlutfallslega fleiri konur fá yfirvinnu greidda samkvæmt tímamælingu. Þetta þýðir auðvitað ekkert annað en það að væntanlega séu karlmenn oftar yfirborgaðir. Ég vil ítreka að ríkið, hið opinbera, getur gengið á undan með góðu fordæmi og reynt að laga þessi mál í sínum stofnunum.
    Hæstv. forsrh. minntist einnig á að hæstv. félmrh. hefði farið fram á 15 millj. kr. fjárveitingu til að hefja það átak í atvinnumálum kvenna úti á landsbyggðinni sem ég held að allir hljóti að telja nauðsynlegt. Þetta virðist mér ekki há fjárhæð og ég fór að velta fyrir mér hvað skyldi kosta í beinhörðum peningum að hafa allar þær konur atvinnulausar sem nú eru atvinnulausar svo að ekki sé talað um ýmis önnur atriði sem ekki er hægt að meta til fjár í þeim efnum.
    Ég vildi aðeins koma þessum athugasemdum

mínum að. Reyndar var sagt hér að þær nefndir sem starfa á vegum hæstv. ríkisstjórnar séu að störfum og það er auðvitað von mín að fyrstu hugmyndir þeirra fari að birtast sem allra fyrst. Það kom reyndar fram í máli forsrh. að gert er ráð fyrir skýrslu næsta haust frá þeirri nefnd sem hann skipaði. Við höfum ekki tíma til að bíða miklu lengur. Það þarf sérstaklega að taka á atvinnumálum úti á landsbyggðinni.