Stjórn fiskveiða
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Mér skilst að komist hafi verið að samkomulagi um það að menn lengdu ekki umræður um of við 1. umr., og tek það skýrt fram, við 1. umr., þannig að málið komist til nefndar. Ég hvatti til þess í gær að menn tækju þetta mál umfram önnur til þess að koma því til nefndar því að auðvitað er þetta eitt af grundvallarmálum þjóðfélagsins í dag. ( Gripið fram í: Það er stærsta málið.) Stærsta málið. Og auðvitað hefðu menn átt að taka það fyrir í gær og ræða það þá en ekki vera að brenna sig inni í tíma við 1. umr. með því að taka það til umræðu í dag. Ég skal ekki hafa mörg orð um það, ég skal ekki níðast á tímanum að því er þetta varðar. Ég hefði hins vegar mjög vel kosið að geta gert þetta í gær og þá með rýmri tíma því að þetta mál er þess eðlis að menn þurfa auðvitað að ræða það hafi menn á annað borð skoðun á því, aðrar skoðanir en flokksfjötra úr ýmsum stjórnmálaflokkum.
    Ég skal ekki vera langorður, herra forseti, og skal reyna að virða það sem hefur verið gert hér að samkomulagi og ekki fara út fyrir þau mörk, en ég fagna því sérstaklega að hæstv. menntmrh. er mættur í deildina sem ekki hefur sést lengi en fagnaði því fyrir tveimur árum að vera kominn í þessa deild (Gripið fram í.), skemmtilegu, en hefur því miður lítið látið sjá sig.
    Það hefur verið rifjað hér upp að málið sem hér er á dagskrá varð að lögum um áramótin 1983/1984, ef ég man rétt. Það var samþykkt 1983 en varð að lögum um áramótin, muni ég rétt, þannig að þetta mál er búið að vera meira og minna við lýði frá þeim tíma. ( HBl: Sjö ár. Sex ár.) Já, já. Ég veit það, hv. þm. Halldór Blöndal. Þó ég sé ekki góður í reikningi kann ég þessa reikningstölu. Þó að ég sé ekki lærður kennari kann ég að leggja saman þennan tíma og þarf ekki að tala sérstaklega þar um.
    Þegar þetta kerfi var sett á voru menn að tala um það til reynslu og hverju það mundi skila til þjóðfélagsins í mikilvægasta útflutningi þessa lands. Það átti að draga úr fiskiskipaflotanum. Það átti að minnka sóknina og það voru kannski tvö af einkennum þessa kerfis sem þeir sem tala fyrir því og hafa talað fyrir því tóku fram að mundu verða. En hverjar eru nú staðreyndir þessa? Hér væri auðvitað ástæða til, og til þess hefur maður gögn, að halda 8--10 tíma ræðu varðandi sögu þessa máls og hvaða áhrif það hefur haft á hin ýmsu landsvæði í kringum landið, fyrst og fremst þau landsvæði sem byggja númer eitt, tvö og þrjú á sjávarútvegi, og ég hygg að menn ættu að líta til ársins 1989. Það eru að vísu mörg dæmi á því ári hvernig kvótinn, í því formi sem hann hefur verið framkvæmdur, hefur farið með ýmis sjávarútvegssvæði. Ég nefni t.d. Patreksfjörð. Hvað gerðist þar? Ég vil ekki trúa því að þeir stjórnmálamenn sem gefa sig út fyrir það að hugsa um hag almennings í landinu, þar með væntanlega fiskvinnslufólks, sjómanna á þeim svæðum þar sem það á við, íhugi ekki þessi dæmi sem hafa brunnið á

þessu fólki svo vikum og mánuðum skiptir.
    Ég hefði kannski átt að taka það strax fram í upphafi að ég er algjörlega andvígur því frv. sem hér liggur fyrir, og það kemur auðvitað engum á óvart. ( EgJ: Jú.) Það kann vel að vera að hv. ritara þingsins, Agli Jónssyni, komi það á óvart. Hann kannski man ekki umræðurnar hér í þessari hv. deild, frá 1987, þegar hann var tilneyddur, í flokksfjötrum, að samþykkja kvótann --- tilneyddur, trúlega gegn sinni samvisku eins og margir fleiri voru þá. ( EgJ: Menn verða nú að vera ábyrgir.) Það kann vel að vera að menn telji sig ábyrga gagnvart flokknum en ekki gagnvart umbjóðendunum og mér heyrist að hv. þm. Egill Jónsson geri það í þessu tilviki. Það er flokkurinn sem ræður, það eru ekki sjónarmið almúgans, umbjóðendanna. Það eru flokksfjötrarnir sem hefta menn um of, ekki bara í þessu máli heldur og mörgu öðru.
    Þetta er eitt stærsta málið sem menn ræða nú um. Ég er þeirrar skoðunar að kvótinn eins og hann hefur verið framkvæmdur --- ég er ekki að tala gegn því að menn þurfi að hafa stjórn á fiskveiðum, alls ekki, en að afhenda slíkt miðstýringarvald einum aðila, þó að hann sé út af fyrir sig ágætur, en allir eru nú mannlegir, að afhenda einum aðila slíkt vald sem gert hefur verið og á að gera áfram, með frv. sem hér er gert ráð fyrir, í auknum mæli, það er auðvitað út hött og tekur engu tali að Alþingi afsali sér því valdi sem það á að hafa, ég tala nú ekki um í grundvallaratvinnugrein þessa lands.
    Menn hafa margir haldið því fram að við andstæðingar kvótans höfum bara sagt nei og nei, ekki flutt neinar tillögur til breytinga um eitthvað annað sem ætti að koma í staðinn fyrir það sem nú er. Þetta er auðvitað rangt, gjörsamlega rangt. Ég vil minna menn á það hér í þessari deild, sem menn eiga auðvitað að muna, að 1987 þegar þetta var hér til umræðu, undir forsæti þáv. hæstv. forsrh. Þorsteins Pálssonar, af því að hann er nú í salnum, fluttum við ég og hv. þm. Matthías Bjarnason brtt. við þetta mál, tillögur í þá átt að reyna að rétta hlut þeirra sem byggja númer eitt á fiskveiðum og fiskvinnslu. Það var allt saman fellt, allt saman fellt. ( ÞP: Þið viðurkennduð kvótann með því.) Ég veit nú ekki hvort maður á að tala við hv. þm. af því að hann er ekki í deildinni, hvort það er heimilt, en ekki hefði ég á móti því. En þetta er
rangt hjá hv. þm. Þorsteini Pálssyni, þó að hann grípi fram í hér inni í annarri deild en þar sem hann á að vera. (Gripið fram í.) Það var ekkert viðurkennt, ekki af minni hálfu. Nú er ég að tala um mig. Það var ekkert viðurkennt, Þorsteinn Pálsson, á engan hátt. Ég veit ekki hvort hv. þm. Þorsteinn Pálsson á við Matthías Bjarnason, að hann hafi viðurkennt þetta. Eru þetta glósur til hans? ( ÞP: Það svíður undan þessu.) Eða hv. þm. Þorvaldar Garðars? Eru þetta glósur til þeirra af því að þeir hafa verið á móti kvótanum frá upphafi?
    Nei, ég held að menn verði að horfast í augu við þær staðreyndir að það kerfi sem við höfum búið við

dugar ekki. Því verður að breyta. Ég minni á það að ég og hv. þm. Matthías Bjarnason, sem vorum formenn sjávarútvegsnefnda 1987, þegar kvótafrumvarpið var afgreitt þá í þinginu, fluttum tillögur til breytinga um það að gera kerfið mannúðlegra og réttlátara gagnvart þeim sem ættu við það að búa, fyrst og fremst þeim sem höfðu þetta sem eina atvinnu á vissum landsvæðum. Nú gefa menn yfirlýsingar út og suður um álver, kannski ekki hingað og þangað, til atvinnuuppbyggingar. Mér skilst að það eigi að gerast hér á Reykjanessvæðinu, á Suðurlandssvæðinu. Menn hafa nefnt Eyjafjarðarsvæðið, en þá er trúlega upptalningunni lokið. ( EgJ: Hver hefur forræði þessara mála?) Ég hygg að það muni vera hæstv. ríkisstjórn sem hafi það, viti þingmaðurinn ekki betur. Ég hygg að svo muni vera. En í ljósi þess að menn eru að gefa slíkar yfirlýsingar, væntanleg loforð og væntingar um álver hér og þar á tilteknum svæðum án þess að huga að einu eða neinu um hin svæðin sem eru út undan, og ég tiltek Vestfirði, Vesturland, Austurland. Hvað ætla menn að gera þar? Ætla menn bara að viðhalda óbreyttu ástandi í niðurníðslu í atvinnuuppbyggingu á þessum svæðum? Ég sé ekki annað. Og ég ítreka enn: Þetta hlýtur að vera á ábyrgð allrar ríkisstjórnarinnar, allra ráðherranna, hvaða nafni sem þeir nefnast. ( Menntmrh.: Líka kratanna?) Já, ekki síst. En þegar menn tala um krata eru menn ekki að tala um jafnaðarmenn í einu orði, er það? ( Menntmrh.: Ja, þú veist hvað ég á við, Karvel. Fyrsti stafurinn er Ó.) Já, því er verr og miður, hæstv. menntmrh., að ýmsir ráðherrar, þó að þeir séu ágætir að mörgu leyti, geta villst af vegi í þessum efnum. Ég vil ekki sérstaklega gagnrýna hæstv. sjútvrh. fyrir þetta. Auðvitað á hann að hafa sína skoðun og halda henni fram. En hitt liðið, að dansa eftir því öllu saman, það er gagnrýnisvert. Að láta hann, þó að ágætismaður sé, einstaklingur, dansa þannig með sig í sex ár --- eða jafnvel ævilangt eins og menn leggja núna til í frv., ævilanga ráðningu á kvótanum, það er gagnrýnisvert og það ætti formaður Sjálfstfl. líka að skilja sem hefur tekið þátt í slíku. Og meira að segja Sjálfstfl. samþykkti, það ég best man, fyrir ekki alllöngu að ganga nánast inn á kvótakerfið hjá hæstv. ráðherra Halldóri Ásgrímssyni. ( Menntmrh.: Sjálfstfl. er eini flokkurinn sem hefur flokkslega samþykkt það.) Ég hygg það, já, hæstv. ráðherra. Ég er nú einn af þeim sem fullyrði aldrei meira en ég veit, en ég held að þetta sé rétt. (Gripið fram í.) Já, það má að vísu ekki tala við menn úr öðrum deildum hér þó að ég vildi það gjarnan. En það er eini flokkurinn, að ég best man, í heild sem hefur fallist á þetta kerfi sem er helstefna gagnvart þeim landsvæðum sem fyrst og fremst byggja á sjávarútvegi og fiskvinnslu. Og ég hlýt að spyrja þá ráðherra sem nú sitja í hæstv. ríkisstjórn: Hvað ætla þeir að gera við okkur þegar menn eru búnir að lofa álverum út og suður í tilteknum kjördæmum vegna atvinnuuppbyggingar --- sem ég er á engan hátt að gagnrýna, ef það er rétt? En hvað ætla menn að gera við okkur hina sem erum

eftir? Ætla menn að byggja blokkir hér í Breiðholtinu til þess að flytja Vestfirðinga, Vestlendinga, Austfirðinga í þær? (Gripið fram í.) Ég spyr um þetta. Hér eru að vísu tveir ráðherrar og þeir eiga að geta svarað. Það er ekkert um það að ræða að flytja svona mál eins og hér er flutt, einhliða, gegn þeim sem búa fyrst og fremst við það vandamál að hafa einhæfan atvinnuveg sem er fiskveiðar og fiskvinnsla. Ég held að menn hljóti að krefjast þess --- a.m.k. geri ég það. Hvað ætla menn að gera við Vestfirði, Vesturland, Austurland, ja, kannski Suðurland, ég veit það ekki --- ( EgJ: Suðausturlandið.) Já, a.m.k. --- í þessum efnum? Það er náttúrlega alveg um tómt mál að tala að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn geti leyft sér að flytja svona einhliða mál gagnvart grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar án þess að taka neitt annað inn í. Og ég spyr hæstv. sjútvrh. og hæstv. menntmrh., af því að hann heyrir til mín þó að hann sé í símanum: Ef þau áform verða að álver verði reist hér og þar, eins og ég hef verið að tala um, á þeim svæðum, hvað ætla menn þá að gera við hin landsvæðin sem byggja fyrst og fremst á fiskveiðum og fiskvinnslu? Er þá ekki kominn tími til að segja: Við tökum þau þorskígildi af álverssvæðunum og færum þau til hinna. Eru menn reiðubúnir til þess? Á að taka þorskígildi af Reykjanesi? ( Gripið fram í: Hvar er Kalli?) Hann er kominn. Á að taka þorskígildin þar vegna hugsanlegs álvers sem menn eru að tala um að reisa þar og færa til þeirra staða sem ekki hafa annað neitt að byggja á en fiskveiðar? ( KSG: Þið þurftið að fá útlendinga til að vinna.) Já, það er gott að heyra þetta frá varaformanni Verkamannasambandsins og þetta hefði hann átt að segja í ræðu en ekki í
frammíkalli ef hugsunarhátturinn er með þessum hætti. ( KSG: Þið bara getið ekki unnið allan kvótann, hvað þá meira.) Ég ætla ekki að skattyrðast við hv. þm. Karl Steinar Guðnason hér. ( EgJ: Flokksbróðir þinn.) Ja, hver segir það? En mér finnst að ábyrgðaraðilar í verkalýðshreyfingu eigi ekki að haga orðum sínum með þessum hætti. Þeir þurfa að bera ábyrgð á fleirum en bara sínum nánustu í félaginu. ( KSG: Það er ekki satt.) Það er rangt, hv. þm. Karl Steinar Guðnason. Og ég er tilbúinn til þess að taka hér upp umræður um það ef hv. þm. Karl Steinar óskar sérstaklega eftir því, sem mér heyrist, en þá riðlast náttúrlega það samkomulag sem menn voru búnir að gera um umræðu í þessu máli og þar er ég ekki skaðvaldur, það eru aðrir.
    Það er út af fyrir sig rétt, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, að það hefur þurft að flytja inn fólk til fiskvinnslu í fiskvinnslufyrirtækjum. Vegna hvers? Og sú spurning hlýtur að snúa að hv. þm., varaformanni Verkamannasambandsins. Vegna þess að launin eru það slæm, það illa borgað, að Íslendingar vilja helst ekki vinna við það. Og það væri kannski nær að forustan í verkalýðshreyfingunni hugaði að því. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. þm.? Gæti ég fengið það endurtekið? ( KSG: Það er búið að hringja bjöllunni.) Já, ég heyri það að menn vilja ekki tala beinskeytt um þessi mál og finn að sú gagnrýni knýr

á þeim sem uppi er í þjóðfélaginu vegna þess að hinn almenni launþegi og þar með fiskvinnslufólk, sem ber uppi þetta þjóðfélag, ekki síst, og sjómenn bera skarðan hlut frá borði.
    Hæstv. forseti, ég skal ekki lengja mjög tímann. Ég hefði gjarnan vilja tala hérna í 6--8 klukkutíma, a.m.k. ( EgJ: En ætlarðu að tala ...?) Nei, nei. Ég vil virða samkomulag ef um það er að ræða, að menn ætli að halda sér innan viss ramma, en 2. og 3. umr. eru eftir um þetta mál og þar gefst trúlega tækifæri til að taka málið frekar í gegn en hér hefur verið gert við 1. umr. Ég minni á það að þeir kvótamenn, með hæstv. sjútvrh. í fararbroddi, formann Sjálfstfl. í fararbroddi --- ja, líklega formann Alþfl. í fararbroddi. Ég spyr: Er það ekki rétt? (Gripið fram í.) Jæja, í fylgdarliðinu þá. Formann Alþb. í fararbroddi, er það ekki rétt? ( MF: Fararbroddi fyrir hverju?) Fararbroddi fyrir kvótafrv. Ég hygg að formaður þingflokks Alþb., hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, sé nú með á því hvaða mál er verið að ræða hér í þessum umræðum.
    Og síðan komum við að Borgfl. Hver var afstaða hans 1987 þegar hörðustu deilurnar voru hér í þessari deild um málið? Nú vildi ég gjarnan fá hæstv. hagstofuráðherra hér í salinn. ( SalÞ: Þetta heyrir undir umhverfismál ...) Hæstv. hagstofuráðherra, það er enginn umhverfisráðherra orðinn enn það ég best veit. Og ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra sé ekki hér í þinginu þennan dag sem mest ríður á að mál fái afgreiðslu. Ekki er ég að tefja málið, það eru þá þeir sem gera það. ( Gripið fram í: Hvern vantar?) Hæstv. hagstofuráðherra. ( Forseti: Er óskað eftir því að hann komi hingað?) Já. Það er greinilega góður samgangur milli framsóknarmanna og hæstv. hagstofuráðherra því að hér er sagt að hann sé að flytja erindi á ráðstefnu úti í bæ. (Gripið fram í.) Já, ég óskaði eftir því að hæstv. hagstofuráðherra yrði við þessa umræðu vegna fortíðarinnar. ( Gripið fram í: Hann er nú að verða umhverfisráðherra.) Vegna fortíðarinnar, það er enginn að tala um umhverfisráðherra, það er ekki orði minnst á slíkt.
    Ég man ekki betur, og ég bið hæstv. hagstofuráðherra að rétta mig af í málinu ef ég er á rangri braut, ég man ekki betur en að hér í hv. deild í desember 1987 hafi borgaraflokksmenn barist hvað harðast ásamt mér gegn kvótanum. Og ég hlýt að spyrja: Hafa orðið sinnaskipti í þeim herbúðum og ef svo er, hvers vegna? Skipta menn bara um skoðun eftir því í hvaða stól þeir sitja? Er það málið? Ég spyr. Ég man ekki betur, vil þó ekki fullyrða en trúlega verður það þá leiðrétt hér á eftir, ég man ekki betur en að allir þingmenn Borgfl. berðust þá hatrammlega gegn kvótakerfinu. Nú er þetta lagt fram, að mér skilst, sem frv. hæstv. ríkisstjórnar eða ég skil það svo. Og hver hefur breytingin orðið, af hverju er þessi breyting, hvað hefur breyst? Er það vegna æviráðningar kvótans til eilífðar? Menn sem vildu afnema æviráðningu ríkisstarfsmanna, vilja þeir nú æviráða kvótann til eilífðar? Eða hver er skýringin? ( EgJ: Stóllinn, hægindin.) Ég dreg nú mjög í efa hægindin í þeim stól sem menn eru að tala um.

Kannski koma þau en ég held nú samt að þau séu ekki fyrir hendi í dag, þau hægindi. En hvernig stendur á því að menn í ábyrgðarstöðu í pólitík, stjórnmálum, þjóðfélagsmálum skipta um skoðun eftir því sem þeim hentar hverju sinni? Hver er skýringin á því? ( Hagstofuráðherra: Þingmaðurinn hefur ekki fylgst með umræðunni.) Hæstv. ráðherra. Ég fylgdist gjörla með umræðunni 1987, tók þátt í henni. ( Hagstofuráðherra: Ég átti við 1. umr. um þetta mál.) Þetta er 1. umr. Ég held að hæstv. ráðherra sé eitthvað ruglaður í ríminu, þetta er 1. umr. Það eru einhverjir aðrir ruglaðir en ég í þessu máli, heyrist mér. Þetta er 1. umr. um málið það ég best veit. Og við hæstv. hagstofuráðherra töluðum á svipuðum nótum 1987 í desember. Kannski hefur hæstv. núv. hagstofuráðherra verið harðorðari gegn þessu máli þá en ég var og mörgum þótti nóg um þá. En hvað hefur breyst? Eru þessi fimm stykki
keyptu í þessu og kannski öðru? Ég spyr. Og er það sú þróun sem almenningur vill hafa í íslenskum stjórnmálum að menn séu keyptir upp til skoðana í hverju tilviki? Er það það sem menn vilja? Ég held ekki. Við höfum dæmin, því miður, hér á Alþingi um kaup á tilteknum einstaklingum frá fyrri ríkisstjórn og líklega núverandi ríkisstjórn til stuðnings. Eru menn virkilega að selja sig þrátt fyrir sannfæringuna? Er þetta það sem koma skal í stjórnmálum hér á Íslandi? Ef svo er, þá frábið ég mér allt slíkt. Ég tek ekki þátt í slíku.
    Ég sé að hér er komið blað til mín frá hæstv. forseta, trúlega um að tíminn sé liðinn sem ég á að tala, en nóg er eftir. Það eru líka tvær umræður eftir um þetta mál. Ég minni á það að síðustu að Vestfirðingar hafa kannski verið hvað harðastir gegn því miðstýringarkerfi sem kvótinn hefur innleitt og á að innleiða nánast til æviloka að mér skilst með þessu frv. Það voru haldnir tveir fundir á Ísafirði á sl. ári þar sem þessu kerfi var harðlega mótmælt, þessu miðstýringarkerfi þar sem skrifstofa í Reykjavík á að ráðsmennskast með alla hluti og virða að vettugi sjálfsbjargarviðleitni þeirra manna sem stunda fiskveiðar. Og þessu andófi verður haldið áfram. A.m.k. krefjumst við Vestfirðingar þess að fá að vita frá hæstv. ríkisstjórn, þeim ráðherrum sem eru að lofa álverum út og suður, hingað og þangað annars staðar en á Vestfjörðum, hvað ætla þeir að gera við okkur? Á að flytja okkur í blokk í Breiðholti? Og hvað þýðir það fyrir þjóðfélagið?
    Menn eiga auðvitað að hafa sjálfstæða stefnu í öllum þessum atvinnumálum. Fiskveiðin er ekki síður atvinnugrein en aðrar og náttúrlega nr. eitt. Það kann vel að vera að álver hér og þar geti bjargað einhverjum hlutum á þeim svæðum sem það á við, en það bjargar ekki þeim sjávarplássum sem byggja fyrst og fremst á fiskveiðum og fiskvinnslu. Það er ráðamanna hverju sinni að sjá fyrir því að þessum svæðum verði bjargað. Ég sé ekki, og segi það hér, ég sé ekki að núverandi hæstv. ríkisstjórn skynji sinn vitjunartíma í þessum efnum, því miður. Það gengur auðvitað ekki að hagkvæmustu verstöðvar, fengsælustu

fiskimið sem þjóðin býr við, séu rækt af allt öðrum en þeim sem búa í nálægð við þau. Það gengur ekki. Það er því kominn tími til að hæstv. ráðherrar, forustumenn í stjórnmálum íhugi þessi mál.
    Og í lokin vil ég minna á það að Alþýðusamband Vestfjarða, kjördæmisþing Alþfl. á Vestfjörðum, ráðstefna Fjórðungssambandsins á Vestfjörðum um atvinnumál skoraði á þingmenn Vestfjarða að bylta því kvótakerfi sem hér er til umræðu. Þetta eru auðvitað þau skilaborð sem a.m.k. þingmenn Alþfl. á Vestfjörðum hljóta að framfylgja og ég hygg, eða vona a.m.k., þingmenn annarra flokka þó að ég viðurkenni að vísu að einn þingmanna Vestfjarða brást síðast og innleiddi það kerfi sem við höfum búið við. ( StG: Hver var það?) Það var hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, ef hv. þm. Stefán Guðmundsson veit það ekki. Það var hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Ég hygg að hann sé 2. þm. Vestf. Ég bið menn að hafa í huga að þetta eru skilaboðin að vestan. Og ég bið menn að gleyma þeim ekki og það á jafnt við hæstv. ráðherra og aðra þingmenn, hvar í flokki sem þeir eru.
    Ég skal ekki, herra forseti, hafa lengri orð um þetta að sinni nema tilefni gefist til, en auðvitað er nægur tími til að ræða þetta mál í áframhaldi af þessu.