Frumvarp um stjórn fiskveiða
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Því miður þurfti ég að víkja af fundi hér örstutta stund og var ekki við lokaumræðuna hér. Ég vil lýsa undrun minni yfir því að hæstv. sjútvrh. hafi ekki séð ástæðu til þess að svara í einu eða neinu þeim fyrirspurnum sem hér voru lagðar fyrir hann af sumum hv. þm. Og ég vil líka lýsa undrun minni og mikilli óánægju yfir því að jafnmikilsvert mál og stjórn fiskveiða skuli lenda í þeirri sjáldheldu við umræðu hér á hv. Alþingi að eðlileg umræða geti ekki átt sér stað. Mér er kunnugt um það að sumir hv. þm. hér í hv. deild ætluðu sér nú við 1. umr. að fjalla um þetta mál, en vegna þess hvernig mál liggja hér fyrir, var að því horfið að reyna að takmarka umræður, það var óskað eftir því við suma hv. þm. að þeir féllu frá því að ræða þetta mál hér við 1. umr.
    Það er eins með þetta mál og önnur að þegar þau eru komin til 2. umr. er oftast nær búið að vinna málin á þann veg að umræða lík þeirri sem á að eiga sér stað við 1. umr. fer ekki þá fram.
    Ég vil og benda á það að rétt fyrir jólin átti sér einnig stað að mikilsvert mál, sjávarútvegsmál, var afgreitt á svipaðan máta hér í hv. deild, haldið utan umræðu eða þannig staðið að að umræða gat ekki orðið um málið á eðlilegan hátt. Ég vil lýsa óánægju minni með þessi vinnubrögð og að jafnmikilsverð mál og veiðileyfisgjaldið fyrir áramótin og fiskveiðistefnan nú skuli ekki fá eðlilega og sjálfsagða umræðu hér í hv. deild. Það er sjálfsagt heldur seint hjá mér núna að fara fram á að umræðan haldi áfram. Það er þegar búið að samþykkja, og ég tók þátt í þeirri samþykkt, að vísa málinu til 2. umr., en ég hefði talið eðlilegt að við í sjútvn. hefðum unnið að þessu máli núna í þingfríinu alveg eins og það væri komið til nefndarinnar, en umræðan hefði frestast. En það er víst of seint að tala um það á þessari stundu. En ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér við lok umræðunnar.