Frumvarp um stjórn fiskveiða
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Karvel Pálmason:
    Herra forseti. Ég hlýt að virða það samkomulag sem gert hefur verið þó mér finnist að þetta mál sé svo brýnt að það hefði þurft meiri tíma og lengri. Í gær hafði ég nánast frumkvæði að því að þetta mál yrði tekið á dagskrá þá og fengi umræðu. En hér eru menn að loka málið inni við þessa umræðu og ég skal á engan hátt spilla því. En mér finnst eigi að síður mjög nauðsynlegt, þegar það kemur fram frá einum hæstv. ráðherra, ráðherra Hagstofu, að borgaraflokksmenn séu andvígir frv., að krefja menn svara um það: Eru þeir flm. að þessu stjórnarfrv. eða ekki? Við því hefur ekkert svar fengist. Og ég hlýt að krefjast þess nú áður en málið fer til nefndar. ( Gripið fram í: Það er komið til nefndar.) Það er ekki komið til nefndar. ( Gripið fram í: Jú, jú, það er búið að samþykkja það.) Umræðu er lokið, það er ekki komið til nefndar, það er rangt. ( Forseti: Atkvæðagreiðsla hefur þegar farið fram.) Já, til 2. umr. ( Forseti: Og nefndar.) Og nefndar líka, þá biðst ég velvirðingar á því, en hlýt að krefjast þess, þó það sé komið til nefndar og kannski ekki síður, að ráðherrar Borgfl. segi til um það hér: Eru þeir flm. að þessu frv. eða ekki? Ég hlýt að krefjast svars við því frá þessum ráðherrum í ljósi fenginnar reynslu frá 1987, hvort þeir flytja þetta mál eða ekki. Ég óska eftir því að hæstv. hagstofuráðherra verði hér viðstaddur og svari svona einfaldri fyrirspurn. Mér finnst þetta mál þess eðlis að menn hljóti að hafa á því þann áhuga, ég tala nú ekki um ráðherra, hvort þeir flytja málið eða ekki. Er það Borgfl., hæstv. ráðherrar hans í ríkisstjórn, sem flytja þetta mál eða ekki? Ég spyr vegna reynslunnar frá 1987 og viðhorfa sem þá voru frammi og er á engan hátt að gagnrýna þó menn hafi skipt um skoðun. Það kemur bara fram og það er öllum heimilt, komist þeir að einhverju öðru sannara en þeir héldu áður. En ég óska eftir því að þeir verði báðir hér. ( EgJ: Þeir eru komnir.)
Já, þeir eru komnir, ég veit það, hv. þm., en trúlega þarf bara annan hæstv. ráðherra til að svara, það þarf nú ekki báða. Ég hygg að þeir séu sammála, ekki fleiri en þeir eru.