Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Frsm. félmn. (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 657 er nál. frá félmn. Ed. um frv. til laga um ráðstafanir vegna kjarasamninga. Nefndin hefur fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt eins og það var afgreitt frá hv. Nd. Allir hv. nefndarmenn skrifa undir nál.
    Ekki var talin þörf á að kalla aftur fyrir þá aðila sem komu á fund félmn. Nd. og tilgreindir eru á nál. hennar á þskj. 638. Ein breyting varð á frv. í meðförum Nd. Sú breyting er við 7. gr. frv. og miðar að því að gera ákvæði greinarinnar skýrari. Breytingin er gerð í samráði við þá aðila sem komu á fund félmn. Nd.
    Í umræðu um frv. á fundi nefndar þessarar hv. deildar í morgun var rætt um 10. gr. frv., um breytingu á lögum nr. 23/1985, um ríkisábyrgð á launum, þar sem fjallað er m.a. um greiðslu til lífeyrissjóða vegna vangoldinna lífeyrissjóðsgjalda launþega og vinnuveitenda, hvort ekki væri rétt að taka sérstaklega fram að Lífeyrissjóður bænda félli þar undir. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að hér væri ekki þörf á brtt. því fram að þessu hefði Lífeyrissjóður bænda fallið undir þessi lög.
    Virðulegi forseti. Félmn. Ed. leggur til að frv. þetta verði samþykkt með þeim breytingum sem samþykktar voru af hv. Nd.