Bifreiðagjald
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er ekki rétt sem hæstv. fjmrh. segir að hér sé eingöngu um að ræða að breyta dagsetningu á gjalddaga um einn mánuð. Það sem hér er um að ræða er að ríkisstjórnin, með þingmeirihlutanum, ætlar að knýja fram skattahækkanir eftir einn mánuð.
    Það getur vel verið að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar eða þeir menn sem stóðu að samningsgerðinni fyrir hönd vinnuveitenda haldi að allur almenningur í landinu, þetta launafólk sem verður að sæta verstum kjörum þjóðfélaginu, hafi búist við því að ríkisstjórnin héldi áfram að hækka skattana eins og nú er komið. Það getur vel verið að einhverjir haldi það. Við höfum séð það af atkvæðagreiðslum sem hafa orðið um kjarasamningana að það er engin hrifning í landinu. Sums staðar hefur verulegur fjöldi greitt atkvæði gegn samningunum, eins og t.d. í Dagsbrún, og ég þori að fullyrða að ef öllum almenningi, launþegum, hefði verið ljóst að í kjölfar samninganna, um leið og búið yrði að greiða atkvæði um þá mundi ríkisstjórnin halda áfram skattahækkununum --- 1. apríl á að hækka bifreiðagjaldið. Við höfum verið að tala um skatta á orkufyrirtæki. Í blöðunum um daginn var verið að segja frá fundi Gigtarfélagsins vegna þess að þeir sjúklingar sem þurfa á slíkri læknisþjónustu og lyfjum að halda þurfa að greiða tvöfalda þá upphæð, stóð í blaðinu, 100% meira en þetta fólk þurfti áður að greiða, og svo er um ýmsa aðra sjúklinga.
    Ég tók eftir því að varaformaður Verkamannasambands Íslands hefur kvatt sér hljóðs nú við umræðuna og ég vænti þess að hann hafi kvatt sér hljóðs hér í deildinni til að lýsa því yfir að hann sé mér sammála um að ekki komi til greina að Alþingi samþykki eina einustu skattahækkun á meðan þessir samningar eru í gildi.
    Í gær hlýddum við á hæstv. forsrh. hrósa sér af því að hann hefði gengið á fund þeirra í Verkfræðingafélaginu og þeir hefðu fallist á að láta
launahækkanir, sem búið var að semja um, bíða til samræmis við kjarasamningana. Á fundinum í gær lét varaformaður Verkamannasambands Íslands líka þau orð falla að hann treysti ekki samningsgerðinni sjálfri, treysti ekki launanefndinni og af þeim sökum teldi hann nauðsynlegt að kjarasamningarnir yrðu lögfestir. Af þeim sökum líka er ég sannfærður um að þingmenn munu bregðast við með sama hætti og ég, gera sér grein fyrir því siðleysi sem í því felst að hækka skattaálögur nú og knýja á ríkisstjórnina og hæstv. fjmrh. um að hann stingi þessum nýju skattahækkunum ofan í pokann sinn. Ég held að ríkisstjórninni veiti ekki af einhverri andlitslyftingu og það má vera að einhverjum þætti upplitið ofurlítið skárra ef hæstv. fjmrh. mundi endurskoða hug sinn.
    Hitt er auðvitað ekki gæfulegt ef lyktir þessara síðustu funda í Ed. Alþingis áður en þing Norðurlandaráðs kemur saman verði þær, það sem eftir er þessa þinghalds, að byrja á því, herra forseti,

að staðfesta lög sem nauðsynleg eru beinlínis vegna kjarasamninganna. Næsta mál á dagskrá verði síðan að samþykkja frv. til að gefa hæstv. fjmrh. svigrúm til að hækka verulega bensíngjaldið 1. apríl og tekjurnar sem eiga að koma inn af bensíngjaldinu eiga svo að fara til þess að borga stjórnunarkostnaðinn við umhverfisráðuneytið sem verður stofnað með þriðju lögunum sem verða samþykkt nú á eftir. Ráðuneyti sem ekki hefur nein verkefni, ráðuneyti sem hefur 23 millj. kr. á fjárlögum án þess að nokkurt verkefni falli undir það. Þetta verður röðin. Fyrst eigum við að samþykkja sem lög frv. sem tengist beinlínis kjarasamningunum. Nr. tvö kemur frv. til þess að gefa hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. möguleika á að hækka bifreiðagjaldið eftir einn mánuð til þess í þriðja lagi að standa undir óþörfum kostnaði við pjattráðuneytið umhverfisráðuneyti sem stofnað var á sl. hausti þegar hæstv. forsrh. þurfti að styrkja stöðu sína því að hann vissi að öðrum kosti mundi hann ekki lifa af sem forsrh. þetta þinghald. Fyrir þjóðina hefði það auðvitað orðið betri kostur ef svo hefði farið.