Bifreiðagjald
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð vegna þessa frv. Ég held það sé mjög mikilvægt að leggja áherslu á það erindi sem okkur barst aftan á nál. fjh.- og viðskn. Nd. Það er erindi frá Alþýðusambandi Íslands sem nú nýlega hefur staðið að kjarasamningum við þessa ríkisstjórn m.a. Þar er lögð áhersla á þau loforð ríkisstjórnarinnar að ekki verði neinar þær breytingar sem geti leitt til hækkunar framfærsluvísitölu, fremur lækkunar hennar. Þess vegna er mjög mikilvægt að með þessari frestun fylgi loforð um að bifreiðagjaldið verði ekki hækkað þannig að það geti leitt til hækkunar á framfærsluvísitölu. Þessar launabætur, ef kalla skyldi, eru hreinlega ekki til þess að mæta auknum rekstrarkostnaði heimilanna, því miður. Þess vegna skiptir auðvitað öllu máli ef það mál á að halda sem var verið að greiða um atkvæði hér áðan, þ.e. breytingar í tengslum við kjarasamningana, að staðið verði við gefin loforð. Mér finnst nauðsynlegt að slíkt komi fram áður en hægt sé að gera svo mikið sem að láta sér detta í hug að samþykkja frv. eins og þetta.
    Ég vil líka aðeins reifa hér hugmynd sem kom fram hjá fulltrúa Kvennalistans í Nd., hv. 18. þm. Reykv. Það væri auðvitað mjög eðlilegt að nota þá aðferð til tekjujöfnunar, því að ekki eru þær nú of margar, aðferðirnar við tekjujöfnunina sem þessi ríkisstjórn hefur fundið upp á, því miður. Það væri hægt að nota þá aðferð að binda bifreiðagjald við verðmæti bifreiða hverju sinni þannig að greiðsla bifreiðagjalds væri um leið tekjujafnandi aðgerð. Það væri nokkurt vit í því, hæstv. fjmrh. Ég bið hann að stinga því bak við eyrað.
    En ég ætla ekki að segja fleira í þessari 1. umr.