Bifreiðagjald
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Það kom fram á fundi fjh.- og viðskn. að meiri hl. nefndarinnar, fulltrúar ríkisstjórnarinnar í nefndinni voru ekki reiðubúnir til þess að standa að brtt. þess efnis að svigrúmið til 1. apríl yrði ekki notað til að undirbúa frekari skattahækkanir. Það liggur með öðrum orðum ljóst fyrir að á þessari stundu er hæstv. fjmrh. að fara fram á þessa frestun til að hækka bifreiðagjaldið hinn 1. apríl.
    Eins og við heyrðum áðan liggur það líka fyrir að hv. 4. þm. Reykn. Karl Steinar Guðnason hefur talið sér skylt að verja sérstaklega þessar fyrirætlanir og hefur stigið hér í ræðustól til að lýsa sérstakri ánægju sinni yfir því að fram undan sé hækkun á bifreiðagjaldi. Á hinn bóginn vék hann ekki einu einasta orði að þeirri miklu hækkun sem orðið hefur á sjúkrakostnaði í landinu. Ég tók dæmi áðan af mjög þrálátum sjúkdómi, gigtarsjúkdómum, og mér er sagt að svo sé yfirleitt með alvarlega sjúkdóma að um verulega hækkun sjúkrakostnaðar sé að ræða hjá fólki sem þjáist af þeim. Ekki minntist hv. þm. á hvaða áhrif það hefði á framfærsluvísitölu.
    Það er nú þetta með framfærsluvísitöluna. Það er svolítið óljóst hvað hún er og eins og að fara inn í einhvern myrkvið. En hitt kemur undir eins við pyngjuna ef menn eiga að svara út verulega hærri bifreiðagjöldum en áður.
    Ég sé hér í minnisblaði frá hagfræðingi Alþýðusambandsins að með frestun gjalddaga bifreiðagjaldsins sé verið að koma í veg fyrir að framfærsluvísitalan hækki 1. mars vegna þessa gjalds. ASÍ telur þessa aðgerð jákvæða enda er með henni komið í veg fyrir 0,3% hækkun á framfærsluvísitölu 1. mars miðað við upphaflegar áætlanir. Með því að fresta bifreiðagjaldinu 1. jan. komum við í veg fyrir 0,3% hækkun á vísitölunni í janúar. Með því að bifreiðagjaldið var ekki innheimt 1. febr. er komið í veg fyrir 0,3% hækkun á framfærsluvísitölu í febrúar. Með því að fresta til 1. apríl komum við í
veg fyrir 0,3% hækkun á framfærsluvísitölu í mars. Ef við mundum nú fresta til 1. maí þá mundum við koma í veg fyrir 0,3% hækkun á framfærsluvísitölu í apríl o.s.frv. Og ef reikningskúnstir ríkisstjórnarinnar yrðu notaðar mundi þetta á ári þýða 3,6% lækkun á framfærsluvísitölu sem er náttúrlega hundalógík af versta tagi. Auðvitað mælist það ekki í framfærsluvísitölunni hvort einhverju gjaldi er frestað um einn mánuð frá 1. mars til 1. apríl ef það er sama fjárhæðin og við erum að tala um að í stórum dráttum séu verðlags- og launaforsendur óbreyttar. Auðvitað mælist það ekki í framfærsluvísitölunni. Svo einfalt er það.
    En ég sé ekki, herra forseti, að það sé ástæða til að tala mikið meira um þetta. Ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir þessu. Sem fylgiskjal með nál. fjh.- og viðskn. Nd. er þetta minnisblað frá hagfræðingi Alþýðusambandsins. Það er merkilegt í 1. tölul. þess

blaðs hvar stendur: ,,Í viðræðum fulltrúa Alþýðusambands Íslands við ríkisstjórnina var lögð áhersla á að aðgerðir stjórnvalda til að draga úr hækkun framfærsluvísitölu beindust að því að lækka verð á brýnustu nauðsynjavörum, t.d. brauðum. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki talið sér fært að verða við þeim tilmælum.``
    Það væri mjög fróðlegt að heyra, svona bara fyrir forvitnissakir, hvernig í ósköpunum stendur á því að ríkisstjórnin vill ekki beita sér fyrir því að verð á brauðum lækki. Ef við t.d. mundum lækka brauðin sem nemur 0,3% í vísitölu. Þetta eru náttúrlega hálfbroslegar blaðaskriftir en segja má að á meðan hægt er að koma í veg fyrir hækkunina sé það gott.
    Það er alveg ljóst, herra forseti, að ef ríkisstjórnin ætlar sér að knýja fram þessar skattahækkanir nú í marsmánuði, þá verður ekkert samið eins og nú um þinghaldið. Þá held ég verði nauðsynlegt að ráðherrarnir sitji fram á nótt yfir því að haga sér þannig. Best væri auðvitað að koma þeim fyrir í hliðarherbergi og hafa heldur skuggalegt þar inni. Það ætti best við. Nálægð þeirra yrði nógu þrúgandi samt sem áður þegar þeir eru í slíkum hugleiðingum eins og nú er búið að alþýðu þessa lands.