Bifreiðagjald
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég kem upp hér til þess að lýsa fyrirvara mínum, en ég stend að nál. meiri hl. um þetta frv. sem leggur til að það verði samþykkt. Fyrirvari minn byggist á því að þetta gjald verði ekki hækkað. Ég gerði grein fyrir því hér í 1. umr. að mér þætti ekki koma til greina að auka kostnað við rekstur heimilanna eins og nú er í pottinn búið. Það kemur ekki til greina að þetta verði til að hækka framfærsluvísitöluna.
    Hins vegar ákvað ég fyrir hönd Kvennalistans að styðja ekki nál. minni hl. vegna þess að fulltrúar hans munu greiða atkv. gegn frv. Ég tel mjög mikilvægt að þessu verði frestað nú. Þess vegna styð ég málið. En ég mun einnig styðja brtt. minni hl. þar sem lagt er til að gjaldið hækki ekki á gjaldtímabilinu. Það er til að undirstrika þá afstöðu sem við kvennalistakonur tökum í þessu máli. Ég tel mig ekki vera bundna að neinu leyti öðru en því að ég tek þátt í að fresta þessu. Hins vegar tek ég og við ekki þátt í því að hækka bifreiðagjald þannig að það verði til þess að hækka framfærsluvísitöluna.