Stjórnarráð Íslands
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Umhverfið mótar okkur og hefur áhrif á gerðir okkar alveg á sama hátt og við mótum umhverfið og höfum áhrif á það með okkar gerðum. Þess vegna verðum við að taka mið af umhverfissjónarmiðum við stefnumótun í öllum málum og skoða valkosti í ljósi umhverfissjónarmiða áður en ákvarðanir eru teknar.
    Hæstv. hagstofuráðherra gegnir margþættu hlutverki í ríkisstjórninni. Hann hefur m.a. mótun atvinnustefnu á sinni könnu og mun nú vera ætlað að taka að sér yfirstjórn umhverfismála. Það eru augljós sannindi að sjónarmið atvinnurekstrar og umhverfisverndar rekast oft á. Það er því fyrirsjáanlegt að hann mun oft standa frammi fyrir því að taka ákvarðanir með hliðsjón af því. Vil ég nú leyfa mér að beina nokkrum spurningum til hæstv. hagstofuráðherra og hlýt að spyrja hann í framhaldi af þessum orðum mínum hvar hann muni standa þegar slíkir árekstrar verða, þ.e. milli umhverfissjónarmiðanna og sjónarmiða atvinnurekstursins.
    Það hefur komið fram í umræðunni að skilgreining á hugtakinu ,,umhverfisvernd`` er nokkuð á reiki. Það vekur athygli að hæstv. hagstofuráðherra, sem á að taka að sér þennan mikilvæga málaflokk, hefur alls ekki tjáð sig um sínar skoðanir á umhverfismálum í þeirri ítarlegu umræðu sem hér hefur farið fram. Vil ég því spyrja hann hvernig hann sjálfur skilgreini hugtakið umhverfisvernd. Ég gerði athugasemd við það í ræðu minni við 2. umr. að fram hefði komið athugasemd frá Jarðfræðafélagi Íslands um skipan þeirrar nefndar sem fyrirhuguð er samkvæmt bráðabirgðaákvæði með frv. því sem við nú ræðum í þriðja skipti. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv.
hagstofuráðherra hvernig hann hugsi sér að skipa þá nefnd sem ætlað er að semja lög um umhverfisvernd og á ég þá við hvaða aðila hann telji nauðsynlega í nefndinni varðandi faglega þekkingu.
    Það hefur komið fram í máli hæstv. forsrh. hér í umræðunni, sem svar við fyrirspurnum mínum, að eitt af meginverkefnum hins nýja ráðuneytis á að vera á sviði umhverfisfræðslu. Tek ég svo sannarlega undir mikilvægi þess og minni á tillögu Kvennalistans sem samþykkt var á síðasta þingi um umhverfisfræðslu í skólum og meðal almennings. Spurning mín til hæstv. hagstofuráðherra er með hvaða hætti hann hyggist sinna því fræðsluhlutverki sem honum er ætlað og að hverju og hverjum hún muni fyrst og fremst beinast.
    Þá vil ég einnig gera athugasemd við frétt sem ég las í DV í gær þar sem verið var að spyrja um afgreiðslu þessa máls hér í þinginu. Þar er haft eftir hæstv. hagstofuráðherra að hann telji þessa umræðu um umhverfisráðuneytisfrv. komna út í hött. Vil ég spyrja hann hvað hann eigi við með því sem hann þar segir og hvort hann telji að ekki hafi verið þörf á þeirri umhverfisumræðu sem fram hefur farið hér í þessari hv. deild. Hér hefur að mínu mati farið fram mjög málefnaleg umræða og innihaldsrík um þennan málaflokk sem er mjög viðamikill og mikilvægur.

    Nú í dag er haldin ráðstefna á vegum Félags ísl. náttúrufræðinga undir yfirskriftinni Umhverfi, gróðurvernd og landnýting. Mér gafst í morgun tækifæri til að hlusta á nokkra sérfræðinga sem fjölluðu um þessi mál bæði út frá reynslu sinni og menntun á þessu sviði. Við 2. umr. um þetta frv. fjallaði ég nokkuð um okkar mesta umhverfisvandamál sem er gróðureyðing sem enn hefur ekki tekist að stöðva og hefur verið vandamál nú um aldaraðir, má segja.
    Það urðu nokkur orðaskipti milli mín og hv. 4. þm. Austurl. við 2. umr. málsins þegar rætt var um gróðureyðinguna og langar mig í framhaldi af því að vitna aðeins í heimild. Hann bað um heimildir þá og ég nefndi eina. Ég hefði getað nefnt fleiri en ég vil sérstaklega vitna í eina núna. Það er árbók Landgræðslu ríkisins frá 1988. Þar er grein um jarðvegseyðingu sem Ólafur Arnalds hefur skrifað, og segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Jarðvegseyðing hefur orðið meiri á Íslandi en þekkist í nálægum löndum. Afleiðingar eyðingarinnar eru einnig mun varanlegri sem stafar e.t.v. ekki hvað síst af því að hér er náttúruleg endurgræðsla og vistheimt mjög hæg og sums staðar líða jafnvel aldir áður en gróður nær fótfestu á ný. Nú er svo komið að aðeins um 25% landsins eru gróin en ætlað er að um landnám hafi allt að 65% þess verið hulin gróðri. Jarðvegseyðing á Íslandi er af mörgum talin alvarlegasti umhverfisvandi þjóðarinnar.``
    Á ráðstefnunni í morgun var nokkuð fjallað um þetta vandamál, orsakir þess og afleiðingar. Eins og fram kom bæði í mínu máli við 2. umr. málsins, svo og máli hv. 4. þm. Austurl., eru orsakirnar af ýmsum toga. Nú er svo komið að umferð manna og athafnir eiga ekki síst stóran þátt í gróðureyðingunni á seinni árum. T.d. má minna á að það lón sem mun myndast vegna Blönduvirkjunar mun ná yfir gróið land, jafnstórt landflæmi og þau svæði sem Reykjavík, Kópavogur og Seltjarnarnes ná yfir. Það hlýtur því að vera mál málanna að nýtt umhverfisráðuneyti hafi burði, þá á ég við bæði faglega þekkingu, fjármagn og vald, til að takast á við þetta vandamál sem verður okkar mesti vandi í umhverfismálum þangað til okkur tekst að snúa vörn í sókn. Vil ég því spyrja
hæstv. hagstofuráðherra um hans hug til gróðurverndarmála: Telur hann tillögu þá sem kynnt hefur verið í hv. allshn. Nd. vera til bóta? Telur hann að með því fyrirkomulagi sem þar er lagt til sé nauðsynlegum friðunaraðgerðum borgið? Treystir hann því að nauðsynlegur árangur náist með því að ráðherrar þurfi að fara milli ráðuneyta nánast með betlistaf og treysta loks á úrskurðarvald forsrh. í hverju tilviki?
    Það hefur komið greinilega fram í umræðunni um flutning verkefna og stofnana til umhverfisráðuneytis að tregðulögmálið er seigt og sú staðreynd að ætíð hefur verið talað um stofnanirnar í þeirri mynd sem þær eru í í dag og því sjá menn ýmsa annmarka á að skipta þeim milli ráðuneyta. Mesta ágreiningsefnið hvað þetta varðar tengist Landgræðslu ríkisins og

Skógrækt ríkisins, en þær stofnanir eru auðvitað nátengdar þessu stærsta umhverfisvandamáli okkar. Hvernig sér hæstv. hagstofuráðherra fyrir sér framtíð þessa málaflokks innan stjórnskipulagsins? Þetta tengist auðvitað fyrri fyrirspurn minni um þá tillögu sem kynnt var í allshn. Nd.
    Við stöndum nú hér á þessum bjarta og fagra vetrardegi, ættum raunar frekar að vera úti í náttúrunni og njóta blíðunnar og fegurðar himinsins. Við erum að afgreiða gríðarlega mikilvægt mál, stofnun nýs ráðuneytis, ráðuneytis umhverfismála innan Stjórnarráðs Íslands. Það ber þó nokkurn skugga á þá umræðu sem hér fer fram þar sem við höfum enn ekki fengið að heyra stefnu þess hæstv. ráðherra sem á að taka að sér þetta ráðuneyti og við vitum ekki enn hvaða verkefni verða flutt til hins nýja ráðuneytis. Þetta hefur komið fram í umræðunni æ ofan í æ. Ég vil aðeins víkja að stærsta ágreiningsmálinu varðandi flutning stofnana samkvæmt því frv. sem fyrir liggur í Nd. Ég tel að með því að afgreiða þetta frv. hér í dag séum við að lögfesta ráðuneyti án verkefna. Við vitum ekki hvað verður um hitt. Við vitum ekki um samstöðu, ekki einu sinni stjórnarliða í hv. Nd., og þar af leiðandi sjáum við ekki hvenær það mál kemur til umfjöllunar hér í hv. Ed. Vil ég í því tilefni minna á brtt. sem fyrir liggur, flutta af hv. 6. þm. Reykn., um að lögin um stofnun umhverfisráðuneytis öðlist ekki gildi fyrr en í sumar, 1. júní. Vil ég lýsa aftur stuðningi mínum við hana, eins og ég reyndar gerði þegar við 2. umr. Ég tel að úr því sem komið er hefði verið skynsamlegra að bíða og skilgreina verkefni þessa mikilvæga ráðuneytis áður en það er stofnað, umbúðirnar einar, það vantar allt innihald í þær.
    Við verðum að vona að okkur takist að snúa unhverfismálunum til betri vegar. Í fornum bókum er ýmsan fróðleik að finna. Í Völuspá t.d. dylst ekki trúin á endurnýjunarmátt sköpunarverksins, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Sér hún upp koma öðru sinni jörð úr ægi iðjagræna.`` Íslendingar vilja græða upp landið og inn í þessar línur í Völuspá þarf einungis að setja orðið ,,auðn`` í staðinn fyrir ,,ægi`` til að tjá vilja okkar nú. Til þess að þetta megi takast verður að skapa skilyrði sem nauðsynleg eru fyrir sköpunarverkið til að það nái að blómstra. Til þess þarf líka samstöðu og sýn á hið stærra samhengi hlutanna. Ég minnist á þetta sérstaklega hér þar sem ég hef viljað leggja mikla áherslu á það stóra umhverfisvandamál sem gróðureyðingin er, en það er auðvitað svo að umhverfismálin snúast í raun um allt okkar daglega líf.
    Ég ætlaði ekki að hafa hér langt mál við þessa síðustu umræðu, get vitnað til margs af því sem ég hef áður sagt. Það stendur allt enn. Hér er verið að stofna ráðuneyti sem ekki hefur skilgreind verkefni og við það mun skapast nokkur réttaróvissa. Það er e.t.v. hægt að setja einhverjar yfirborðskenndar reglugerðir um hlutverk þess hæstv. ráðherra sem tekur að sér yfirstjórn þess ráðuneytis. Mér hefði þótt öllu

skemmtilegri blær á því að standa hér og geta stutt heils hugar við stofnun umhverfisráðuneytis vegna þess að það hefur verið á stefnuskrá Kvennalistans frá upphafi. Við höfum hins vegar, eins og fram hefur komið, lagst gegn þeirri afgreiðslu sem hér er fyrirhuguð og munum því ekki greiða frv. okkar atkvæði, --- við höfnum því að taka þátt í að afgreiða málið með þessum hætti.
    Ég vil að lokum aðeins minna á að ábyrgð þeirra sem munu taka fyrstu skrefin í að samræma stjórn umhverfismála á Íslandi er mikil. Við megum ekki gleyma því að við höfum aðeins eina jörð og hana höfum við aðeins fengið til varðveislu fyrir komandi kynslóðir. Ég hlýt því að ljúka máli mínu með því að skora á hæstv. ríkisstjórn að sýna það í verki að hún hafi í raun áhuga fyrir að þetta umhverfisráðuneyti verði með þeim myndarbrag sem það auðvitað verðskuldar, með því að sjá til þess að það fái fjármagn, að það fái verkefni, og skora ég á hv. stjórnarliða að reyna að ná samstöðu um þær brtt. sem þeir ætla að leggja fram í Nd. þannig að við getum sem fyrst fengið þetta mál. Auðvitað vona ég fyrst og fremst að hv. þm. sjái skynsemina í því að fresta gildistöku laganna til 1. júní þannig að hægt sé að fara betur í það frv. sem liggur fyrir allshn. Nd. og ná betri samstöðu um þetta mál því að ég tel mjög óheppilegt málsins vegna að það skuli vera afgreitt með þeim hætti sem hér er gert.