Bifreiðagjald
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Í fjh.- og viðskn. þessarar deildar er til meðferðar frv. um bifreiðagjald. Það varð að samkomulagi hér í þinginu fyrir áramót að fresta afgreiðslu þess og var þess vegna flutt af fjh.- og viðskn. brtt. um að gjalddaga væri frestað til 1. mars.
    Í tengslum við nýgerða kjarasamninga voru lögð fram tvö skjöl til aðila vinnumarkaðarins sem birt eru í Fréttabréfi Alþýðusambandsins þar sem raktar voru breytingar á gjaldskrám opinberra fyrirtækja og breytingar á sköttum sem gengið var út frá að tækju gildi á þessu ári. Hins vegar ákvað ríkisstjórnin að samþykkja að lækka þessar breytingar með einhverjum hætti um 0,3% í framfærsluvísitölu.
    Ríkisstjórnin stefnir að því í þeirri athugun að taka til endurskoðunar útfærslu þess bifreiðagjalds sem liggur fyrir í hv. fjh.- og viðskn. og til
þess að gera kleift að vinna að þeirri endurskoðun er nauðsynlegt að fresta gjalddaganum um einn mánuð.
    Eftir viðræður við fulltrúa þingflokkanna í gær varð það að ráði að ég flytti þetta frv. hér um breytingu á dagsetningu um einn mánuð og gefst þá tími til þess í marsmánuði að ræða málið efnislega. Hér er þess vegna ekki verið að leggja til efnisbreytingu á málinu heldur eingöngu frest um einn mánuð svo að þinginu gefist að loknu Norðurlandaráðsþingi tækifæri til að ræða málið.
    Ég legg svo til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.