Bifreiðagjald
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Við kvennalistakonur stöndum að því að veita þennan frest á gjalddaga bifreiðagjaldsins en skrifum undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari okkar er fyrst og fremst fólginn í því að við vonum að ríkisstjórnin noti þennan mánuð til að íhuga vel breytingar á bifreiðagjaldi og hafi þá í huga að ábyrgð ríkisstjórnar er mikil hvað það varðar að halda í skefjum verðhækkunum svo ekki komi til hækkunar framfærsluvísitölu.
    Í því sambandi vil ég minnast á þann möguleika í bifreiðagjaldi að hægt er að nota það til tekjujöfnunar líkt og flestar aðrar tekjujöfnunarleiðir ef áhugi er á. Í þessu tilfelli væri helst um það að ræða að bifreiðagjald færi ekki einungis eftir þyngd bifreiða heldur væri líka haft í huga verð bifreiða. Það liggur í hlutarins eðli að því meiri efni sem fólk hefur því líklegra er að það keyri á dýrum bílum og því væri stighækkandi bifreiðagjald eftir verði bíla ein leið sem ríkisstjórnin gæti notað til tekjuöflunar.