Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um nám og þjálfun í öðrum löndum fyrir atvinnulífið. Ástæðan fyrir þessari þáltill. er tvíþætt:
    Annars vegar er hugmyndin að mennta fólk í þeim löndum sem við annaðhvort seljum vörur núna eða komum til með að selja vörur í náinni framtíð. Flm. sér það þannig fyrir sér að ungt fólk verði aðstoðað við að sækja skóla í þessum löndum, vaxa þar úr grasi, kynnast siðunum sem eru í löndunum, kynnast venjum, kynnast neysluvenjum þjóðanna. Sjá hvað bjóða má þessum löndum og hvað þýðir ekki að bjóða þeim, ganga í skóla með jafnöldrum sínum og leita inn í viðskipta- og verslunarskóla í þessum löndum, innan um það fólk sem væntanlega tekur við forustu í þjóðfélögunum á sviði viðskipta og stjórnsýslu. Þannig að í framtíðinni eigi okkar fólk skólafélaga, lykilmenn í viðkomandi löndum sem það getur leitað til þegar þörf krefur og það er komið heim til Íslands að taka til óspilltra málanna við að selja okkar afurðir til annarra landa.
    Hins vegar er það hlutverk þeirrar áætlunar sem hér er talað fyrir að mennta fólk í öðrum löndum til þess að kynna sér og fræðast um einstaka þætti atvinnulífsins hér heima og vil ég þá sérstaklega taka álverið sem dæmi. Þegar álverið var reist voru engir Íslendingar til sem höfðu sérþekkingu á álvinnslu eða viðskiptum með ál og þess vegna ... Má ekki bjóða hv. þm. Halldóri Blöndal að koma hér í pontuna til mín? Þá getum við sameinað fundina tvo í salnum. (Gripið fram í.) Já, já.
    Það sem ég vildi sagt hafa var að þegar álverið var reist hér á Íslandi höfðum við ekki fólk sem var í stakk búið til þess að takast á við álmálin í landinu. Fólk sem kunni að framleiða ál, selja það eða fylgjast með álrekstrinum hér á landi. Þess vegna lýtur helmingur þessarar tillögu að því að mennta fólk til verkefna á borð við álvinnslu, þ.e. að senda fólk til að læra allt sem hægt er að læra um ál, vinna í áliðnaði og við álsölu, koma hingað heim með þá þekkingu til þess að taka við stjórnunarstöðum í álverinu og í viðkomandi ráðuneyti þannig að ekkert komi okkur á óvart í þessum málum og að við þurfum ekki að taka orð erlendra eigenda álversins sem góða latínu. Gætum heldur gengið úr skugga um hlutina sjálf af því að við höfum kunnáttu og þekkingu til þess að fylgjast með. Getum þess vegna sjálf tekið á hækkunum í hafi og öðrum slíkum æfingum sem hugsanlega koma upp. Ég nefndi álverið sem dæmi en þetta gildir líka fyrir ýmsa aðra þætti í þjóðfélaginu sem við erum vanbúin til þess að takast á við í dag.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fylgja þessu úr hlaði með fleiri orðum, en að lokum legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og til félmn.