Frjáls flugrekstur
Mánudaginn 05. mars 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð vegna þessarar tillögu og þess sem fram kom í máli hv. flm., 16. þm. Reykv. Hann taldi þörf á að leyfa frjálsan flugrekstur til að geta fengið hingað sem flesta ferðamenn. Það þyrfti að fjölga komum ferðamanna til landsins. Komið hefur fram, og kom mjög sterklega fram á ráðstefnu Ferðamálaráðs nú fyrir hálfum mánuði, að það sem við Íslendingar þurfum miklu frekar á að halda er að gæta þess að vernda landið og var talað um að jafnvel þyrfti ítölu á ákveðnum svæðum uppi á hálendinu þar sem ágangur ferðamanna er mjög mikill.
    Nú hefur verið stofnað sérstakt umhverfisráðuneyti og á þetta mál sennilega eftir að koma til kasta þess, að vernda landið, hvort sem er gegn mönnum og þeirra athöfnum eða þá dýrum. Þar sem formaður Borgfl., flokksfélagi hv. flm., hefur nú tekið sæti umhverfisráðherra vona ég að þar verði áherslan ekki sú sem fram kom hér í máli hv. þm. Mörg vandamál hafa fylgt í kjölfar þess að hingað fóru að koma hópar ferðamanna, einmitt á vegum erlendra aðila. Það hafa verið vandamál varðandi innflutning á matvælum, eldsneyti með bílum og bílainnflutning af ýmsu tagi. Ég vildi aðeins benda á, vegna þess að hv. flm. lagði ríka áherslu á fjölgun ferðamanna, að ég held að við ættum frekar að huga að því að hafa ferðamennina færri heldur en fleiri en reyna að stefna að því að fá hingað þá ferðamenn sem eru tilbúnir til þess að koma og vera á ráðstefnum og fundum eða jafnvel að njóta okkar heilsulinda og skilja þess vegna eftir sig töluverðar tekjur. Ég held að hér sé ekki spurning um fjöldann heldur til hvaða hóps við reynum að höfða þegar við markaðssetjum okkar ferðaþjónustu, ef ég má nota það orð.
    Hv. 16. þm. Reykv. hefur flutt hér margar tillögur og mér þykir þessi hér vera nokkuð stórhuga, um frjálsan flugrekstur sem gæfi væntanlega öllum mögulegum flugfélögum kost á því að fara hér um. Veit ég ekki hvort það er tímabært fyrir okkur að hugsa svo stórt enn þá því að auðvitað er markaðurinn takmarkaður. Ég man ekki betur en að hv. þm. flytti hér till. til þál. fyrr í vetur, sem mun vera 212. mál þingsins, þar sem hann leggur til að við Íslendingar reynum að kanna hvernig önnur smáríki afla sér tekna og haga stjórnkerfi sínu. Mér sýnist að sú tillaga sem hér var mælt fyrir sé þversögn við það sem fram kemur í grg. með smáríkjatillögunni.
    Ég hef ákveðnar efasemdir um að frjáls flugrekstur sé tímabær vegna þess hversu takmarkaður markaðurinn er og vildi einnig koma þessu að með stefnuna í ferðaþjónustunni.