Frjáls flugrekstur
Mánudaginn 05. mars 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það vakti verulega athygli mína að fulltrúi Kvennalistans, hv. 6. þm. Vesturl., flutti hér ræðu og taldi það með brýnni verkefnum að fækka ferðamönnum til Íslands, nánast að sérstöku ráðuneyti væri komið á laggirnar sem hlyti að snúa sér að því að stöðva það að jafnmargir ferðuðust um íslensk öræfi og þar ferðast í dag.
    Nú fer það ekki milli mála að við þurfum margt upp að byggja á íslenskum öræfum til þess að hægt sé að taka þar á móti ferðamönnum. En mér er spurn: Ætlum við að fara að setja lög um það að hingað til lands eigi aðeins að koma ríkir ferðamenn? Þeir eigi að fara á ráðstefnu á Loftleiðum og í sundlaugarnar í Reykjavík en þeir eigi ekki að þvælast upp á fjöll? ( Gripið fram í: Er það frá Kvennalistanum?) Ég átta mig beinlínis ekki á stefnunni, en svona var þetta sett fram. Hér áðan var verið að hreyfa máli sem vafalaust er hægt að segja um með sanni, eins og um svo mörg önnur, að það væri á margan hátt gott mál en það kosti peninga. Og það sem mér virðist gjarnan vanta í málflutning Kvennalistans er hvernig þær hafa hugsað sér að standa að þeirri fjárhagslegu þörf sem um er að ræða ef við gerum alla hina góðu hluti en stígum svo á bremsurnar þegar um atvinnuuppbyggingu er að ræða.
    Ég held að aðalatriðið í þessari umræðu hafi gleymst. Aðalatriðið er það að íslenska þjóðin hefur loftferðasamninga við aðrar þjóðir. Og þessir loftferðasamningar eru gagnkvæmir. Það þýðir það að ef við megum fljúga til New York-borgar, þá má flugfélag í New York-borg fljúga til Íslands. Það þýðir það að ef við megum fljúga til Amsterdam, þá má flugfélag í Amsterdam fljúga til Íslands. Og ef við megum fljúga til kóngsins Kaupmannahafnar, þá má flugfélag í Danmörku fljúga til Íslands. Þetta þýðir það að ef það frelsi kemst á, sem menn eru margir að tala um að eigi að komast á árið 1992, þ.e. að frjálst sé fyrir Íslendinga að taka þátt í atvinnurekstri á ýmsum stöðum
erlendis og einnig að rýmka möguleika útlendinga til að taka þátt í atvinnurekstri á Íslandi, gæti komið upp sú staða að til þess að ungir athafnamenn á Íslandi ættu kost á því að stofna flugfélag og hefja flug á milli Íslands og Kaupmannahafnar yrðu þeir að stofna slíkt flugfélag í kóngsins Kaupmannahöfn. Þá gæti komið upp sú staða að ef þeir vildu hefja flug á milli Íslands og Amsterdam yrðu þeir að stofna slíkt flugfélag í Amsterdam. Og það sem meira er, það væri ekkert sem bannaði þeim að gera það.
    Ég verð nú að segja eins og er að miðað við það að ég er hlynntur uppbyggingu á Íslandi og í íslenskum atvinnurekstri og að íslenskir athafnamenn muni frekar reka slíka starfsemi frá þessu landi en öðrum löndum, þá neita ég að líta svo á að hér sé verið að tala um einhverja hluti úti í fjarskanum. Hér er verið að tala um þá hluti að í stað þess að binda þetta leyfum verði þetta frjálst. Og auðvitað mun markaðurinn ráða umsvifunum en því má slá föstu,

miðað við það mannhaf sem er erlendis, að það skiptir ekki höfuðmáli í þeirri stöðu hvort eitthvað fleiri reyna að glíma við það að fá erlenda ferðamenn til landsins. Sá markaður er það stór að hér er ekki um það að ræða að hægt sé að segja að menn séu að kroppa augun hver úr öðrum, nema menn vilji líta svo á að nú séum við búnir að fá þann fjölda ferðamanna til landsins sem við viljum fá og við viljum alls ekki fá fleiri. Ef við lítum þannig á málið erum við vissulega að skipta niður í smátt því sem fyrir er.
    Ég held þess vegna að þessi tillaga sé þess virði að menn setjist niður með opnum huga og hugleiði þetta: Hvað mælir með því að þetta skuli vera bundið? Hvða mælir með því? Er það bundið leyfum að hafa siglingar á milli landa? Er eitthvað sem segir að þannig skuli að því staðið? Ég hef orðið miklar efasemdir við þessi leyfi eins og þau eru og hafa verið. Ég skil ekki þann Íslending, hreint út sagt, sem telur að eðlilegt sé að ef þú vilt kaupa flugfar frá Keflavík til New York eigir þú að borga miklu hærra verð fyrir það en ef þú vilt kaupa flugfar frá New York til Lúxemborgar og millilendir svo í Keflavík og ferð af þar. Ég skil ekki að eðlilegt sé að þannig sé staðið að málum. Og í ljósi þess verð ég að segja eins og er að ég tel að það séu ferskir vindar sem blási um þá menn sem vilja ráðast á það kerfi sem við höfum byggt hér upp, með bænaskjölum og leyfisveitingum, og þori að leggja til breytingar á því kerfi.