Frjáls flugrekstur
Mánudaginn 05. mars 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Mig langar til að leggja hér örfá orð í belg. Auðvitað er frjálsræði og frelsi göfugt hugtak en raunsæi verður líka að fylgja því. Hvað eiga menn við þegar menn tala um frjálsa flugsamkeppni? Eru menn að tala um flugið bara á milli landa? Ef svo er, hvað ætla menn að gera við hitt sem er þá út undan, milli svæða innan lands? Á að aðskilja þetta? Eða finnst mönnum líklegt að í frjálsræðinu öllu taki hinir stóru að sér að sjá um landsbyggðina og flytja þar í milli í lofti? Er þetta inni í dæminu hjá þeim sem núna tala um frjálsræði í flugrekstri? Eða hvernig ætla menn að leysa málið í heild, bæði fyrir þá sem vilja fara til útlanda og eins fyrir hina sem verða og þurfa að ferðast innan lands með flugi? Eða eru menn að afgreiða þetta alveg? Dettur mönnum í hug að það verði margir til þess að sjá fyrir flugi innan lands á hin dreifðu svæði ef einhver einn stór aðili fengi flugið til útlanda? Menn hafa séð þetta fyrir sér, án þess að ég sé að mæla gegn því að þetta mál sé skoðað, hvort það sé raunsætt að taka upp svona stefnu.
    Ég hugsa hins vegar að það sé fleira en bara farþegagjöldin sem er þess valdandi að færri ferðast til landsins. Ætli það sé ekki líka ástandið hér innan lands, efnahagsástandið hjá okkur sjálfum, sem hefur orðið til þess að færri koma til landsins en ella hefði orðið? Ég hygg að menn megi ekki einvörðungu leita til þessa farkosts, sem er flugvélin, og dæma hann einn sökudólginn í því hve fækkað hefur frá því sem áður var.
    Hér var líka minnst á fjölmiðlana, sjónvarpið. Það er út af fyrir sig rétt að stöðvum hefur fjölgað, en hvernig var komið fyrir Stöð 2? Var hún ekki komin á hnén að biðja um að fá að fara á ríkisjötuna? Bað hún ekki um styrk frá ríkinu á sínum tíma, í öllu frjálsræðiskjaftæðinu sem uppi var haft þegar henni var hleypt af stað? ( ÓÞÞ: Var þingmaðurinn ekki að segja að frjálsræðið
væri göfugt?) Jú, vissulega er það, en ég bætti líka við, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson: Menn þurfa að skoða hvað er verið að tala um. --- Það er ekki hægt að veita ótakmarkað frjálsræði í byrjun og ætla síðan að láta okkur hina borga það sem á eftir kemur. Það var það sem mér sýndist vera að gerast með Stöð 2. Þeir ætluðu sko sjálfir að spjara sig án þess að fá nokkuð frá ríkinu en komu síðan aðra leið. (Gripið fram í.) Það var rétt. Þeim var ekki leyft að fara hana, en þeir vildu fara hana, og það er það sem skiptir máli. Þeim var hafnað, að fá styrk með þeim hætti frá almenningi eins og þeir vildu fá, þrátt fyrir það sem þeir höfðu hafnað á undan. Og ég held að menn þurfi að skoða þetta líka. Það er vissulega gott, frjálsræðið og frelsið, en menn geta ekki farið með það bara eins og þeim sýnist sjálfum. Það getur leitt til þess að menn lendi í einstigi og vitleysu og geri hlutina enn þá verri en þeir voru þó fyrir.
    Ég ítreka það að ég er ekki að hafa á móti því að þetta mál sé skoðað, en til þess eru vítin að varast

þau og við höfum víti sums staðar, í frjálsræðinu, sem við þurfum að huga að þegar lengra er gengið í því frjálsræði sem menn vilja fá af stað.