Frjáls flugrekstur
Mánudaginn 05. mars 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Sú till. til þál. sem hér liggur frammi um frjálsan flugrekstur og flug snertir hvert mannsbarn hér á landi. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að við sem búum á Íslandi erum afar háð flugi, bæði innan lands og til að komast til útlanda. Það er svo að hjá fáum er kostnaður við að komast til nágrannalandanna og ferðast meiri en hjá okkur. Fjöldi Íslendinga fer í sumarleyfi á hverju ári með flugi til Evrópu og Bandaríkjanna. Þetta snertir Íslendinga meira en nokkur önnur samgönguleið hvað varðar farþegaflutninga. Það er því tímabært að láta athuga þessi mál mjög náið. Það er rétt sem kom hér fram í máli hv. 2. þm. Vestf. að Íslendingar gætu hæglega stofnað flugfélag, t.d. í Danmörku og hafið áætlunarflug til Íslands í samkeppni við Flugleiðir á leiðinni Kaupmannahöfn--Keflavík því þeir samningar sem eru í gildi eru gagnkvæmir og því er hægt að hefja flugrekstur frá þeim löndum sem við fljúgum til.
    En það er einnig svo, og hefði mátt koma inn á það hér, að nýverið er búið að leggja á sérstakan skatt, lendingargjöld, t.d. í Kaupmannahöfn sem þýðir að lægstu fargjöld héðan hækka um 10--20%. Það hefði verið áhugavert að heyra sjónarmið hæstv. samgrh., hvort hann ætlar að beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að þessu verði mótmælt harðlega því þetta kemur niður á öllum þeim farþegum sem fara þarna á milli. Lágu fargjöldin sem boðið hefur verið upp á hækka verulega við tilkomu þessa nýja skatts sem er lagður á.
    Ég ætla nú ekki að hafa öllu fleiri orð um þessa þáltill. en það er auðvitað mikið hagsmunamál fyrir hvern og einn að flug sé sem ódýrast milli landa. M.a. hefur verkalýðshreyfingin staðið að því að semja um sérstakt leiguflug til ýmissa staða fyrir sína umbjóðendur og hefur það lækkað verðið á þeim tímum, þ.e. sumarleyfistímum, fyrir ákveðinn hóp fólks. En auðvitað þyrftu að vera miklu meiri möguleikar á að fljúga ódýrt.
    En það er náttúrlega eitt sem þyrfti líka að gera og það er að skoða betur flugsamgöngur almennt. Í því sambandi vil ég minna á að Evrópubandalagið hyggst fella niður ýmsar takmarkanir á flugi innan þess svæðis sem mun þýða harðari samkeppni þar. Það gæti farið svo að við verðum að taka tillit til þeirra hluta mjög bráðlega.
    Ég ætla ekki að lengja mál mitt en tel að þetta sé mjög þarft mál til að athuga og vona að það verði afgreitt jákvætt.