Frjáls flugrekstur
Mánudaginn 05. mars 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ég heyri það að hv. 2. þm. Vestf. er orðinn æði mikill frjálshyggjumaður. Og kannski er það tónninn úr flokknum, ekki veit ég það, en það er auðvitað frjálsræði á fleiri sviðum en í flugi. Það er með verðlagið. Á ekki að gefa það frjálst, leyfa samkeppnina? Er það stefna Framsóknar? Er hún einhver önnur? (Gripið fram í.) Er hún einhver önnur á því sviði? Menn geta ekkert einangrað einn þátt í þjóðlífinu og sagt: Hér á að gera algert frelsi, annars staðar höft. Þetta verða menn auðvitað að hugsa. Og ég spyr hv. 2. þm. Vestf.: Hvað með verðlagseftirlitið¿ Á að leggja það niður, leyfa frjálsa samkeppni? Þetta var gert á sínum tíma, ef ég man rétt, að hluta til, að vörur voru undanþegnar verðlagseftirliti, að ég held að frumkvæði þáv. forsrh., man ég það ekki rétt, Ólafs Jóhannessonar? Ég þori ekki að fullyrða það en menn leiðrétta mig þá ef ég fer rangt með. Ég hygg að þetta sé rétt. ( Gripið fram í: Viðskiptamál heyra ávallt undir viðskrh.) Ja, hann gat verið viðskrh. þá. Hann var það nú stundum. Nokkru eftir að þetta var gert var gerður samanburður annars vegar á þeim vörum sem voru í frjálsri samkeppni og áttu að skapa lægra vöruverð og hins vegar hinum sem voru háðar verðlagseftirliti. Og hver var útkoman? Útkoman var sú að frjálsræðið var miklu dýrara en með verðlagseftirlitinu. Það var engin samkeppni sem veitti lægra vöruverð, a.m.k. ekki á þeim árum. Það kann að vera breytt. Ef svo er hlýtur það að vera víðar en í fluginu sem þetta getur lánast og gott ef hv. þm., sem eru miklir frelsispostular og frjálshyggjumenn, nánast í hvaða flokki sem er á Íslandi, gætu sýnt fram á það að með frjálsræðinu væri hægt að skapa minnkandi kostnað, lægra vöruverð, lægri fargjöld og fleira og fleira, lægri vexti. Ef menn geta sýnt fram á að þetta sé raunhæft þá á auðvitað að fara þá leið. En með því að tala um að þetta og hitt sé gott án þess að geta sagt nokkurn skapaðan hlut um hvernig á að framkvæma það, hvað menn eru að
hugsa um, hvað á að gera, þá verður það ekki trúverðugt tal. Það a.m.k. sannfærir ekki okkur efasemdamennina um að þetta sé raunhæft. En trúlega er sjálfsagt að skoða það.
    En ég segi enn, við höfum reynt að feta þennan veg í einhverjum mæli og það hefur ekki gefið góða raun, það hefur ekki skilað því sem menn voru að vonast eftir að það skilaði.