Frjáls flugrekstur
Mánudaginn 05. mars 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hér hafa tekið til máls, sérstaklega þeim þingmönnum sem hafa lýst sig meira og minna sammála um að liðka eigi um flugrekstur á Íslandi, það eigi að gefa hann frjálsan, enda segir í þáltill. þar sem tekið er til áætlunarflugs, leiguflugs og vöruflutninga, ,,innan þeirra marka sem alþjóðalög og samningar leyfa.``
    Það er ekki margt sem ég tel að ég þurfi að svara hér í rauninni því búið er að svara því flestu fyrir mína hönd. Er ég því þakklátur, það sparar mér ómakið. Hins vegar vil ég ekki blanda saman ferðamönnum og umhverfisvernd eins og það væri einn og sami hluturinn.
    Sem betur fer hefur nú náðst samkomulag um umhverfisráðuneyti og það er komið til síns heima. Það er í góðum höndum, ég þekki það best sjálfur. Við munum væntanlega sjá tekið hraustlega á þeim málum núna á næstunni. Umhverfið er viðkvæmt og ber að vernda það. En ekki er þar með sagt að við eigum að útiloka ferðamenn frá landinu. Það er ekki lausnin. Ferðaþjónustan er allt annar hlutur. Ef við fækkum ferðamönnum þá erum við að draga úr tekjum þjóðarinnar og því hlýt ég að spyrja: Hvar á að finna tekjur í staðinn? Hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir nefndi hér áðan að ferðamenn kæmu til landsins með bíla sína fulla af bensíni og matvælum. Það er mikið rétt. En þeir koma einfaldlega ekki með flugi, þeir ferðamenn koma með skipum þannig að það er nær að fjölga þeim ferðamönnum sem koma með flugvélum og ekki hafa tök á að koma með bensín og matvæli inn í landið frekar en að draga úr flugfarþegum á þeim forsendum að þeir komi með neysluvöl landsins sem hér eru seldar.
    Arnarflug var nefnt til sögunnar áðan og er vissulega rétt að það stendur ekki föstum fótum í dag, enda hefur það aldrei fengið annað en frákastið. Arnarflug hefur aldrei fengið að fljúga á eftirsóttustu flugleiðum milli landa á Íslandi og heldur ekki innan lands. Arnarflug hefur mátt sætta sig við
flugleiðir sem eru rýrari og gefa ekki eins vel í aðra hönd. Þetta er kjarni málsins. Samkeppnin er í rauninni engin í flugi því eitt félag ræður ferðinni og annað er sett hjá. Það er ekki nema von að því félagi gangi illa meðan það er stöðugt haft sem kolbítur í öskustó.
    En hvað gerist ef Arnarflug hættir rekstri í dag og það verður engin samkeppni? Þá förum við nákvæmlega í sama farið og hv. þm. Ingi Björn Albertsson minntist á áðan, þá fáum við nýtt Hafskip/Eimskip. Þá rýkur verðið upp. Alls staðar þar sem sem Arnarflug hefur þó veitt samkeppni hefur verði verið haldið niðri. En hættan er sú að verðið rjúki strax upp um leið og þeirri samkeppni lýkur.
    Með leyfi forseta langar mig að lesa hér tölur um viðkomu farþega- og fragtflugvéla á Keflavíkurflugvelli árið 1989, í fyrra. Þá lentu

flugvélar Flugleiða 2434 sinnum á flugvellinum, flugvélar Arnarflugs 525 sinnum og erlendar flugvélar 2949 sinnum. Arnarflug er ekki með nema tæp 9% af flugumferðinni til landsins. Það er nú ekki meira. Flugleiðir eru aftur á móti með 50%. Ég er líka með tölur um flutninga um Keflavíkurflugvöll. Í fyrra fóru samtals 658 þús. farþegar um flugvöllinn. Þar af fóru 262 þús. frá Íslandi og 259 þús. komu til Íslands og 135 þús. voru farþegar sem héldu áfram för sinni. Hvorki meira né minna en 25 þús. tonn af vörum fóru um flugvöllinn sem sýnir hve vöruflutningar eru miklir um Keflavíkurflugvöll.
    Ég nefni þetta til þess að sýna hve flugið er í rauninni snar þáttur af lífi Íslendinga, hvað við fáum mikið af erlendum ferðamönnum, hvað við notum flugið mikið sjálf og hvað hingað berst mikið af vörum með flugvélum. Fyrir þá sem vilja eitt sterkt, gott flugfélag í framtíðinni er ég með miklu betri lausn en Flugleiðir. Þá lausn sem hlýtur að duga. Það er að sameina Flugleiðir og SAS. Þá erum við komin með eitt sterkt, gott flugfélag. Úr því sameiningin gildir, af hverju eigum við þá að láta staðar numið við Flugleiðir? Af hverju höldum við þá ekki áfram alla leið og sameinum Flugleiðir og SAS?
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að hafa fengið að mæla fyrir þessu máli hér í dag og ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa skapast.