Lyfjadreifing
Þriðjudaginn 06. mars 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Með frv. því til laga um breytingu á lögum nr. 76/1982, um lyfjadreifingu, með síðari breytingum sem ég mæli hér fyrir er ætlunin að heimila lyfjaheildsölum að selja lyf til annarrar lækningastarfsemi en þeirrar sem flokkuð er sem sjúkrahús skv. lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu.
    Samkvæmt gildandi lögum um lyfjadreifingu er lyfjaheildsölum óheimilt að selja lyf öðrum en þeim sem leyfi hafa til smásölu lyfja svo og til notkunar á sjúkrahúsum og þeim tilraunastofnunum sem leyfi hafa til tilrauna með lyf.
    Nái breyting sú sem ég mæli hér fyrir fram að ganga mundu bætast við heilsugæslustöðvar og læknastöðvar. Það liggur ljóst fyrir að sú starfsemi sem fram fer á heilsugæslustöðvum og læknastöðvum er sambærileg við þjónustu sjúkrahúsa í mörgum tilfellum og er því óeðlilegt að ekki gildi um þessa starfsemi sömu reglur gagnvart kaupum á lyfjum í heildsölu, en það er mikið hagsmunamál fyrir þá aðila að geta keypt lyf af lyfjaheildsalanum.
    Það er skoðun ráðuneytisins og Lyfjaeftirlits ríkisins að nauðsynlegt sé að heilsugæslustöðvar og læknastöðvar, sem fengið hafa viðurkenningu ráðuneytisins í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, búi við sömu kjör hvað lyfjakaup varðar og annar hliðstæður rekstur. Hér er um að ræða starfsemi sem jafna má til starfsemi sjúkrahúsanna eins og áður sagði.
    Sem stendur standa lög beinlínis í vegi fyrir því að lyfjaheildsalar geti selt lyfjaheilsugæslustöðvum og læknastöðvum lyf og hlýst af því margvíslegt óhagræði og röskun, ekki síst fyrir þá sjúklinga sem leita þjónustu þessara aðila og þurfa því ekki að leggjast inn á sjúkrahús. Samkvæmt lyfjadreifingarlögum þarf að tryggja ákveðna þjónustu lyfjafræðinga nái frv. þetta fram að ganga, þ.e. lyfjafræðingar hafi umsjón með og beri ábyrgð á öflun lyfja og eftirliti með notkun innan heilsugæslustöðva og læknastöðva. Í sjálfu sér þyrfti ekki að ráða lyfjafræðing nema í hlutastarf við þessar stofnanir þannig að ekki er um teljandi kostnað að ræða þar. Rétt er að geta þess að með þessu er ekki verið að veita heilsugæslustöðvum heimild til þess að nota lyf utan stöðva, hvað þá að afhenda hlutaðeigandi sjúklingum lyf, heldur er eingöngu um að ræða notkun á stöðvunum sjálfum.
    Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um frv. þetta fleiri orðum. Ég tel það skýrt og ekki stórvægilega breytingu um að ræða en legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. að lokinni þessari umræðu. Ég bendi á að hv. Nd. gerði á frv. smávægilegar breytingar frá því að það var lagt fram í upphafi. Annars vegar var tilvitnun í lagabreytingu sem gerð var á þingi í fyrra og hins vegar skýrara orðalag hvað átt er við með læknastöðvar sem greint er frá í frvgr.