Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Þriðjudaginn 06. mars 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. sem urðu allhörð orðaskipti um í Nd. Hv. þm. Ólafur Þórðarson gagnrýndi ákvæði frv. Ég ætla ekki beinlínis að fara að taka upp hanskann fyrir þann hv. þm. en ég vil þó vekja athygli á því sem hann benti á að með þessum lögum er verið að gefa Hollustuvernd ríkisins mjög mikið vald til ákveðinna hluta í sambandi við einstaklinga og fyrirtæki og í vissum tilfellum getur þetta vald verið á þann veg að það jaðrist þau mörk sem eðlileg geta talist.
    Ég vil sem sagt við þessa umræðu aðeins benda á það að ég tel að hér sé á ferðinni mál sem er mjög æskilegt að verði vel skoðað í nefnd áður en hv. nefnd skilar hér áliti til þingsins til 2. umr. Sjálfsagt eru hér ákvæði, eins og hæstv. ráðherra nefndi, sem nauðsynlegt er að binda og lögfesta en þegar verið er að samþykkja ákveðin þvingunarákvæði er mjög nauðsynlegt að líta vel til hvað þar er verið að samþykkja.
    Í sumum tilfellum er verið að eiga, eins og hæstv. ráðherra nefndi, við stóriðju jafnvel, mengandi stórfyrirtæki og í öðrum tilfellum er kannski verið að eiga við litla manninn, bóndann eða smákaupmanninn í sambandi við heilbrigðiseftirlitið.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég taldi ástæðu til þess að benda á þá ákveðnu og hörðu umræðu sem átti sér stað í Nd. um þetta og vekja athygli á þessum þáttum málsins.