Páll Pétursson:
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um tímabundið bann við atvinnurekstri einstaklings vegna afbrota. Frv. er á þskj. 532 og er 297. mál þingsins. Flm. þessa frv. eru Finnur Ingólfsson, Páll Pétursson, Kristín Einarsdóttir, Árni Gunnarsson og Ásgeir Hannes Eiríksson.
    Á undanförnum árum virðast ýmiss konar afbrot í atvinnurekstri hafa færst í aukana. Hægt væri að nefna mörg dæmi af fyrirtækjum og einstaklingum sem gróflega hafa brugðist skyldum sínum í atvinnurekstri og þar með brotið gegn almennum hegningarlögum, ýmsum lögum um opinber gjöld og bókhaldslög. Rekja má slóð sömu einstaklinganna í gegnum hvert gjaldþrotafyrirtækið af öðru þar sem skuldum hefur verið safnað og fyrirtækin síðan gerð gjaldþrota. Þannig hafa fjölmargir grandalausir lánardrottnar tapað stórfé. Þannig er hægt að rekja langa slóð og oftast nær sömu einstaklinganna sem með skipulögðum hætti hafa svikið lánardrottna sína og jafnvel dregið sjálfum sér fé. Sögur af slíkum málum þekkja margir. Í íslenskum lögum eru takmarkaðar heimildir til að stöðva þá menn sem stunda þessa iðju með skipulögðum hætti. A.m.k. hafa þau úrræði, sem til eru, lítið verið notuð. Tilburðir stjórnvalda á undanförnum árum til að koma í veg fyrir slíka háttsemi hafa verið þó nokkrir og það sem kannski vegur þyngst í þeim efnum er að árið 1985 skipaði dómsmrh. nefnd til að gera tillögur um greiðari meðferð efnahagsafbrota í dómskerfinu. Í framhaldi af því nefndarstarfi var stofnuð sérstök deild við Rannsóknarlögreglu ríkisins til að rannsaka efnahagsbrot.
    Í íslenskri löggjöf eru takmörkuð ákvæði um sviptingu starfsréttinda og heimildir til að svipta menn leyfum til að stunda atvinnurekstur. Í 2. mgr.
68. gr. almennu hegningarlaganna er einungis gert ráð fyrir því að hægt sé að svipta einstaklinga leyfum til að stunda starfsemi vegna afbrota og þá fyrst er dómur hefur gengið í málinu. Greinin hljóðar svo, og vitna ég þá til 2. mgr. 68. gr. hegningarlaganna:
    ,,Nú er maður dæmdur sekur um brot, og má þá í dómi í opinberu máli á hendur honum svipta hann heimild er hann hefur öðlast til að stunda starfsemi sem opinbert leyfi, löggildingu, skipun eða próf þarf til að gegna, enda gefi brotið til kynna að veruleg hætta sé á því að sakborningur muni fremja brot í stöðu sinni eða starfsemi. Þegar brot er stórfellt má einnig svipta mann ofangreindum rétti ef hann telst ekki framar verður til að rækja starfann eða njóta réttindanna. Lögaðilar verða ekki sviptir réttir til að stunda starfsemi samkvæmt þessari grein. Réttarsvipting einstaklings samkvæmt greininni takmarkast við þá starfsemi þar sem opinbert leyfi eða löggildingu þarf til eða skipun eða próf.``
    Í íslenskri löggjöf eru víða ákvæði um að menn þurfi að uppfylla ákveðin almenn skilyrði og í sumum tilfellum að hafa ákveðin próf til að mega sinna störfum á viðkomandi sviði eða stunda ákveðna

starfsemi. Auk þess er í mörgum tilfellum, auk almennra skilyrða, gerð krafa um að til þess að mega sinna starfi eða stunda ákveðna starfsemi þurfi leyfi viðkomandi yfirvalda. Skilyrði þess að menn verði sviptir réttindum samkvæmt 2. mgr. 68. gr. almennu hegningarlaganna eru tvenns konar. Í fyrsta lagi að þeir séu dæmdir fyrir refsiverðan verknað. Brotið gefi til kynna að veruleg hætta sé á að sakborningurinn muni fremja það í stöðu sinni eða starfsemi. Hugsunin er sú að tengsl séu milli afbrots og starfsemi þeirrar sem svipting lýtur að. Þrátt fyrir þessa aðalreglu, að tengsl séu á milli afbrots og þeirrar starfsemi sem svipting lýtur að, er þó talið að svipting geti komið til greina vegna afbrots sem ekki er í tengslum við starfsemi ef veruleg hætta er á að það sama gerist þar.
    Í öðru lagi er heimilt að svipta menn réttindum skv. 2. mgr. 68. gr. ef brot er stórfellt og viðkomandi telst ekki framar verður til að rækja starfann eða njóta réttindanna. Þegar haft er í huga hversu skilyrði 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga eru ströng til sviptingar á rétti til að stunda starfsemi vegna afbrota liggur beinast við að álykta að þetta ákvæði 2. mgr. 68. gr. almennu hegningarlaganna sé ekki virkt úrræði í baráttu gegn afbrotum, enda er staðreyndin sú að sárafáir dómar hafa fallið þar sem heimildir þessar hafa verið notaðar.
    Eins og ég gat um áður verða lögaðilar ekki sviptir starfsréttindum skv. 2. mgr. 68. gr. almennu hegningarlaganna. Hins vegar eru í nokkrum sérlögum heimildir til að svipta lögaðila starfsréttindum vegna brota á þeim. Má þar nefna lög um tekju- og eignarskatt og lög um varnir gegn mengun sjávar. Þar sem ákvæði í sérlögum um sviptingu starfsleyfa eru sjaldgæf og heimildir þessar sjaldan eða aldrei notaðar er full ástæða til að veita þeim sem atvinnurekstur stunda meira aðhald en verið hefur og mun frv. þetta gera það verði það að lögum. Sem dæmi um það hversu dómstólarnir hafa verið sínkir á sviptingu starfsréttinda voru á árunum 1985 og 1986 kveðnir upp í sakadómi Reykjavíkur þrír dómar varðandi stórfelld brot gegn lögum um söluskatt. Í öllum tilfellum var gerð krafa um sviptingu starfsréttinda. Þessum kröfum var
hafnað og voru forsendur þessar:
    Mál nr. 1. Ekki þykja alveg næg efni til að svipta viðkomandi smásöluleyfi. Mál nr. 2. Eftir atvikum og m.a. með hliðsjón af því hve langt er um liðið frá því að brotin voru framin þykir ekki alveg næg ástæða til þess að taka til greina kröfur ákæruvaldsins um sviptingu starfsréttinda. Mál nr. 3. Eins og atvikum máls þessa öllum er háttað þykir ekki alveg næg ástæða til að svipta hvorki fyrirtæki starfsréttindum né ákærða heildsöluleyfi.
    Ef niðurstöður þessara dóma eru skoðaðar liggur beinast við að álykta sem svo að svipting starfsleyfa hjá lögaðilum og einstaklingum, þar sem það er á annað borð heimilt, sé ekki virkt úrræði. Því er þetta frv. til laga um tímabundið bann við atvinnurekstri einstaklings vegna afbrota flutt.
    Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að hvern þann

sem gróflega bregst skyldum sínum í eigin atvinnurekstri eða í atvinnurekstri lögaðila sem hann er í forsvari fyrir megi með dómi útiloka frá frekari atvinnurekstri um tiltekinn tíma. Samkvæmt þessu, og það ber að undirstrika, nær atvinnurekstrarbannið einungis til einstaklinga ef skilja má atvinnureksturinn sjálfan frá þeim brotlega. Svo væri t.d. í mörgum tilfellum um atvinnurekstur hlutafélaga. Hlutafélagið gæti haldið áfram sinni starfsemi en einstaklingur sá sem í forsvari fyrir atvinnurekstrinum hefði verið og brotið hefði af sér yrði dæmdur í atvinnurekstrarbann. Þetta er gert til að hægt sé að halda atvinnurekstrinum áfram gangandi og koma þannig í veg fyrir að atvinnureksturinn sem slíkur þurfi að líða fyrir það að í forsvari hafi verið óvandaðir menn.
    Í 2. gr. frv. er skilgreint með hvaða hætti maður telst hafa brugðist gróflega skyldum sínum í atvinnurekstrinum. En það er með því að hafa brotið gegn almennum hegningarlögum eða framið annað meiri háttar afbrot, að hafa framið meiri háttar brot gegn lögum um opinber gjöld og bókhald eða framið önnur meiri háttar auðgunarbrot. Í 2. mgr. greinarinnar er tilgreint hvað skuli hafa til hliðsjónar við mat á því hvort brot er meiri háttar eða ekki. Í 3. mgr. 2. gr. er sérregla um gjaldþrot. Þar er gert ráð fyrir því að dæma megi mann í atvinnurekstrarbann sem hefur í sjálfstæðum atvinnurekstri orðið gjaldþrota, enda hafi hann í atvinnurekstrinum gerst sekur um stórlega ámælisverða háttsemi gagnvart lánardrottnum sínum. Sama gildir um einstakling sem hefur í störfum sínum sem forsvarsmaður lögaðila er verður gjaldþrota gerst sekur um stórlega ámælisverða háttsemi gegn lánardrottninum.
    3. gr. frv. nær einungis til atvinnurekstrar lögaðila. Þar er lýst hverja af forsvarsmönnum atvinnurekstrarins megi dæma í atvinnurekstrarbann nema þeir sýni fram á að þeir hafi hvorki vitað né mátt vita um hina ólögmætu háttsemi. En þetta eru sameigendur í sameignarfélagi, félagsmenn með ótakmarkaða ábyrgð í samlagsfélagi, stjórnarformenn og framkvæmdastjórar hlutafélaga, stjórnarformenn og forstöðumenn hvers kyns annars konar lögaðila með fjárhagsleg markmið og sá sem í raun veitir atvinnurekstri lögaðila forstöðu eða hefur komið fram sem slíkur út á við.
    4. gr. frv. fjallar um tímalengd atvinnurekstrarbanns. Bannið skal standa í þrjú ár hið skemmsta og í fimm ár hið lengsta. Þessi tímalengd er í samræmi við það sem tíðkast í sambærilegri norrænni löggjöf.
    5. gr. fjallar um þær hömlur sem settar eru á hvern þann mann sem dæmdur hefur verið í atvinnurekstrarbann. Honum er óheimilt að stunda sjálfstæðan atvinnurekstur, óheimilt að gangast undir ótakmarkaða ábyrgð á rekstri hvers kyns félags, annars lögaðila með fjárhagsleg markmið og óheimilt að vera í stjórn eða varastjórn hvers kyns félags eða lögaðila með fjárhagsleg markmið, óheimilt að vera framkvæmdastjóri, staðgengill framkvæmdastjóra eða veita í raun forstöðu atvinnurekstri lögaðila sem hefur

fjárhagsleg markmið.
    Í 6. gr. frv. er reynt að koma í veg fyrir að hægt sé að fara í kringum atvinnurekstrarbannið. Í 1. mgr. kemur fram að manni sem dæmdur hefur verið í atvinnurekstrarbann er ekki heimilt að starfa við atvinnurekstur tilgreindra venslamanna sinna megi hann ekki hafa það hlutverk með höndum á eigin vegum. 2. mgr. fjallar um að manni í atvinnurekstrarbanni sé meinað að starfa við eða taka að sér reglubundin verkefni í sams konar starfsemi og hann braut af sér í.
    7. gr. frv. tekur til þess hvernig megi úrskurða mann í atvinnurekstrarbann til bráðabirgða. Sé brotið mjög gróft og augljóst má úrskurða mann í atvinnurekstrarbann til bráðabirgða því rétt þykir að koma í veg fyrir að maður sem augljóslega og gróflega hefur brotið af sér fái að halda áfram starfsemi sinni meðan mál hans er fyrir dómi. Í 2. mgr. greinarinnar kemur þó fram að atvinnurekstrarbann til bráðabirgða getur staðið hið lengsta í sex mánuði. Þó getur það verið framlengt um allt að þrjá mánuði sé mál enn fyrir dómstólum þegar fyrra bann rennur úr gildi. Það gerist aðeins að kröfu saksóknara og samkvæmt mati dómstóla. Í 3. mgr. er saksóknara veittur ákveðinn frestur til málshöfðunar að uppkveðnum úrskurði um atvinnurekstrarbann til bráðabirgða. Ljóst er að atvinnurekstrarbann er mjög viðurhlutamikið. Því verður að leitast við að flýta því svo sem auðið er að fá endanlega niðurstöðu. Úrskurður um atvinnurekstrarbann til bráðabirgða fellur úr gildi
ef saksóknari nýtir ekki takmörkin. Í 4. mgr. kemur fram að dómur fellir úr gildi bráðabirgðabann. Atvinnurekstrarbann skal talið hefjast við uppkvaðningu úrskurðar um bráðabirgðabann.
    8. gr. skýrir sig að mestu leyti sjálf, en þar er gert ráð fyrir því að úrskurð um atvinnurekstrarbann til bráðabirgða sé hægt að kæra til Hæstaréttar.
    Um 9. gr. frv. er það að segja að eins og fram kemur í 1. gr. frv. nær atvinnurekstrarbann aðeins til einstaklinga en ekki til lögaðila. Er það gert til þess að takmarka tjón samfélagsins af stöðvun atvinnurekstrarins. Því er brotlegum, samkvæmt þessari grein, veittur ákveðinn frestur til að koma í veg fyrir að atvinnureksturinn líði undir lok, t.d. með því að selja hann. Brotlegur verður þó við þessar ráðstafanir að njóta aðstoðar lögmanns eða löggilts endurskoðanda og fara þær fram undir umsjá skiptaráðanda í viðkomandi umdæmi. Haganlegast þykir að hafa þann hátt á því að ætla má að nokkur skyldleiki sé með þessum ráðstöfunum og meðferð þrotabúa og greiðslustöðvana.
    Í 10. gr. frv. er kveðið á um viðurlög við brotum við atvinnurekstrarbanni og að þá sem það brjóta megi dæma í allt að tveggja ára fangelsi. Sé brotið hins vegar minni háttar megi dæma þá sem það brjóta til varðhalds eða greiðslu sektar. Brot gegn atvinnurekstrarbanni skuli að lágmarki leiða til þess að sá tími sem menn hafa verið dæmdir í atvinnurekstrarbann tvöfaldist. Sameiginlegur tími

atvinnurekstrarbannsins og brota gegn því getur þannig farið fram úr fimm árum.
    11. gr. frv. kveður á um að mál til höfðunar atvinnurekstrarbanns skuli sæta meðferð opinberra mála skv. lögum nr. 74/1974 þar sem frv. kveður á um refsikennd viðurlög. Þykir því eðlilegt að láta fara með mál þessi að hætti opinberra mála. Enn fremur má gera ráð fyrir því að á lög þessi mundi reyna jafnhliða öðrum lögum, t.d. almennum hegningarlögum, í einu og sama máli.
    12. gr. frv. kveður á um gildistöku laga þessara en samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að þau taki gildi 1. jan. 1991. Annars staðar á Norðurlöndum hafa heimildir til leyfissviptinga færst í aukana á undanförnum árum og jafnvel hefur mönnum almennt verið meinuð þátttaka í atvinnurekstri vegna brota í atvinnurekstrinum. Tilgangur þessa er ekki síst að koma í veg fyrir að sömu einstaklingar brjóti ítrekað af sér. Eins og meginákvæði íslenskrar löggjafar um heimildir til sviptingar starfsréttinda vegna afbrota eru nú og lýst hefur verið hér að framan þá fullyrði ég að ólíklegt sé að brotlegir atvinnurekendur leiði hugann að öðru en sektum í gildandi lögum. Refsivist kemur sjaldan til nema brot sé þeim mun alvarlegra. Stæðu brotamenn hins vegar frammi fyrir hugsanlegri sviptingu réttinda til atvinnurekstrar eins og frv. gerir ráð fyrir má ætla að þeir muni hugsa sig betur um. Þannig gengur frv. þetta lengra en nokkurt gildandi lagaákvæði sem aðeins heimilar sviptingu réttinda samkvæmt útgefnum stjórnvaldsleyfum.
    Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þessu máli verði vísað til athugunar í hv. allshn. deildarinnar. Á dagskrá þessa fundar er 298. mál, meðferð opinberra mála, á þskj. 533, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 74/1974, um meðferð opinberra mála. Þetta frv. er fylgifrv. með hinu frv. og þarfnast ekki sérstakrar framsögu og legg ég til að það verði látið fylgja hinu frv. og að sjálfsögðu þá einnig vísað til hv. allshn.