Páll Pétursson:
    Herra forseti. Ég ætla að bera af mér sakir. Ég gleymdi nefnilega að leiðrétta hv. 2. þm. Vestf. Ólaf Þ. Þórðarson þar sem hann bar á mig lögbrot varðandi upprekstur hrossa í ræðu sinni sem hann hélt hér fyrr í dag. Ég braut ekki lög í þessu umgreinda tilfelli. Þar var um að ræða tilskipun sem ekki átti stoð í lögum en þótti hagkvæm. Ég sleppti hrossum í heimalandi sem ég hafði heimild til, en þetta heimaland var að vísu ekki girt frá þeim afrétti sem tilskipunin tók til. Nú hef ég borið af mér sakir.
    En athugasemdina ætla ég þá að láta fylgja því að ég gleymdi atriði líka eða það hefur ekki komið nógu skýrt fram í máli mínu. Þetta lagafrv. er sniðið eftir norrænum lögum. Á öllum Norðurlöndunum er löggjöf hliðstæð þessari. Þetta frv. er mjög lítið frábrugðið þeim lögum sem gilda í Svíþjóð um þessi efni. Þar er altítt að svipta menn leyfi til atvinnurekstrar eða meina mönnum atvinnurekstur jafnvel þó að ekki þurfi sérstakt leyfi til að sinna honum.
    Svo þakka ég herra forseta fyrir góðsemina.