Listskreytingasjóður ríkisins
Þriðjudaginn 06. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem fram hafa farið um frv. og þann áhuga sem þau hafa sýnt málinu bæði fyrr og nú, hv. 2. þm. Reykv. og hv. 13. þm. Reykv. Ég get út af fyrir sig viðurkennt það að ég hef velt því dálítið fyrir mér hvort þessi aðferð sem hérna er gert ráð fyrir er endilega sú eina rétta. Ég velti fyrir mér þeim möguleika að einfaldlega yrðu sett í lög ákvæði um að 1% af útlögðum kostnaði ríkisins til opinberra bygginga yrði sjálfkrafa, um leið og greiðslur eru inntar af hendi úr ríkissjóði, látið renna í Listskreytingasjóð, sem ég hugsaði sem aðferð til að tryggja peningana pínulítið betur en gert hefur verið á undanförnum árum, og að með þessari aðferð væri e.t.v. erfiðara fyrir okkur sem hér eigum sæti og afgreiðum lánsfjárlög líka af og til að skerða sjóðinn eins og við höfum oft gert. Stjórn Listskreytingasjóðs sá ekki að hægt væri að framkvæma þetta með góðu móti. Ég velti líka fyrir mér þeirri hugmynd sem hv. 2. þm. Reykv. talaði hér fyrir sem gengur út á það að einfaldlega verði gert ráð fyrir að þessi sjóður verði lagður niður en eigendum þessara bygginga og þeim sem fyrir þeim standa verði gert að skyldu að verja a.m.k. 1% af kostnaðarverði bygginganna til listskreytinga og að í raun og veru væri horfið frá því miðstýrða kerfi sem að nokkru leyti felst í sjóðsfyrirkomulaginu.
    Ég bar mig satt að segja saman við nokkra aðila og menn sáu helst þá annmarka á þessu fyrirkomulagi að með því móti yrði sennilega lítið um listskreytingar af því að menn mundu alltaf frekar vilja nota síðustu krónurnar til þess að kaupa búnað eða gera aðra hluti sem eru að því er virðist yfirleitt taldir brýnni en að hafa list inni í húsum í þessu landi. Þess vegna varð það úr að ég flutti frv. óbreytt eða mjög lítið breytt frá því sem það kom frá stjórn Listskreytingasjóðs og endurskoðunarnefndinni.
    Ég get ekki neitað því að það sem mér finnst kannski alvarlegast í þessu sambandi er almennt áhuga- og skilningsleysi á því að vera með listaverk inni í opinberum byggingum. Og það er satt að segja ömurlegt að koma inn í stofnanir, sem eru byggðar fyrir kannski hundruð milljóna króna, þar sem eru berir hvítir veggir, fleiri tugir metra. Það virðist óvíða vera til nægilegur metnaður til þess að gera þetta að mannsæmandi vistarverum, sem þær verða auðvitað því aðeins að þar séu listaverk, því að það er auðvitað ekki hægt að lifa eðlilegu lífi öðruvísi en að menn séu í tengslum við einhverja tegund af list. Ég held að það þurfi satt að segja býsna víðtæka vakningarumræðu í þjóðfélaginu til þess að menn fáist til að taka við sér í þessu efni. Við sjáum það þegar við heimsækjum opinberar byggingar erlendis að þar er yfirleitt heldur vel að málum staðið. Við sjáum það líka hjá einstökum sveitarfélögum að þau hafa oft og tíðum staðið mikið betur að þessu en ríkið. Ég gæti í því sambandi nefnt mörg sveitarfélög. Ég nefni t.d. sveitarfélög eins og Kópavog sem tók um það ákvörðun fyrir 20 eða 25 árum að verja tilteknu

hlutfalli allra sinna útsvarstekna til þess að kaupa myndverk og eignaðist þar með geysilega myndarlegt listaverkasafn. Þarna hafa ríkisbyggingar hins vegar legið eftir og það er satt að segja til vansa. En ég tel að þær athugasemdir sem hér hafa komið fram falli allar í þann farveg að reyna að hjálpa málinu heldur áfram og þakka fyrir góðar undirtektir, og ég vænti þess að okkur auðnist á yfirstandandi þingi að gera þetta frv. að lögum.