Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Miðvikudaginn 07. mars 1990


     Friðrik Sophusson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Þegar litið er hér á dagskrá þess fundar sem nú er að hefjast í hv. neðri deild kemur í ljós að þegar hafa verið afgreidd fjögur fyrstu málin. Síðan gerist það að virðulegur forseti breytir frá prentaðri dagskrá, sleppir fimmta málinu en fer yfir í það sjötta. Það sem ég vildi segja hér er það að fimmta málið hefur verið tilbúið nú um nokkurt skeið eða frá því áður en þing Norðurlandaráðs var haldið. Mér var kunnugt um það að því máli var frestað í gær vegna fjarveru hæstv. ráðherra. Ég veit ekki betur en nál. séu tilbúin og þar sem ég er frsm. nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. og var undir það búinn að taka hér til máls og fylgja því nál. úr hlaði hlýt ég að spyrja hæstv. forseta hvernig á því standi að vikið er frá dagskránni þótt mér sé vel kunnugt um það að auðvitað getur virðulegur forseti vikið frá dagskrá. Hér er þó um óvenjulega ákvörðun að ræða því hér er verið að fjalla um stjfrv. Ábyrgðadeild fiskeldislána er stjfrv. sem allir vita að mikið liggur á að fái afgreiðslu sem allra fyrst frá hinu háa Alþingi.