Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Miðvikudaginn 07. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Fulltrúar allra flokka í hv. fjvn. hafa flutt hér mjög athyglisvert frv. sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, formaður fjvn., hefur mælt fyrir í ítarlegu máli. Ýmsir aðrir þingmenn hafa einnig flutt á öðrum þingskjölum tillögur um veigamiklar breytingar á stjórn ríkisfjármála. Má þar nefna sérstakar tillögur frá nokkrum þingmönnum Framsfl. sem hér voru til umræðu á Alþingi fyrir skömmu síðan, enn fremur tillögu frá hv. þm. Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni, þingmanni Borgfl., og ýmsum öðrum.
    Það er alveg ljóst að hér á Alþingi ríkir mikill áhugi á því að koma þeirri skipan á stjórn ríkisfjármála að hún fullnægi ákveðnum formlegum kröfum um lagalegan rétt og ákvörðunarvald Alþingis og framkvæmdarvalds en hún þjóni einnig ýmsum mikilvægum markmiðum á sviði efnahagsmála eins og árangri í hagstjórn og hagkvæmni í ríkisrekstri. Mér hefur fundist nokkuð á því bera að tilhneiging væri til þess að líta á þessi mál frá nokkuð þröngu formlegu sjónarmiði eins og t.d. að telja að vandinn felist fyrst og fremst í því hvort aukafjárveitingar svokallaðar séu afnumdar eða ekki. Ég tel að vandinn sé miklu víðtækari og það þurfi í reynd mun umfangsmeiri breytingar á verklagi Alþingis og á valdsviði Alþingis og framkvæmdarvalds en felst í tillögunum um að afnema aukafjárveitingar.
    Ég vil þó í upphafi segja það að ég tel framlag fjvn. til þessarar umræðu með flutningi þessa frv. vera mjög mikilvægt og í grundvallaratriðum sé hugsun nefndarinnar sprottin af sama meiði og sú viðleitni sem ég hef beitt mér fyrir síðan ég varð fjmrh. að flytja Alþingi á nýjan leik það fjárveitingavald sem þingið hafði á fyrstu áratugum þessarar aldar en hefur síðan smátt og smátt, með vitund og vilja Alþingis legg ég áherslu á, verið tekið frá Alþingi af öllum þeim ríkisstjórnum sem hér hafa setið og af öllum stjórnmálaflokkum. Það er í anda þessarar stefnubreytingar sem ég dró mjög úr aukafjárveitingum á
liðnu ári og lagði síðan fyrir Alþingi fyrstur fjármálaráðherra í nær 70 ár frv. til breytingar á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár og það er í anda þeirrar siðabótar sem engin einasta aukafjárveiting hefur verið veitt það sem af er þessu ári og verður ekki veitt með mínum vilja það sem eftir er af þessu ári.
    Þess vegna hef ég lagt hér fram á Alþingi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990 til að Alþingi geti staðfest með samþykki sínu þær breytingar sem þarf að gera á fjárlögum yfirstandandi árs vegna nýliðinna kjarasamninga. Það mun einnig vera í fyrsta sinn um langt árabil, marga áratugi, sem ríkisstjórn bregst við með þeim hætti að flytja málið í hendur Alþingis með flutningi fjáraukalagafrumvarps. Ég vil þess vegna í upphafi taka skýrt fram að það er enginn ágreiningur milli mín eða núv. ríkisstjórnar og hv. fjvn. um að hér þurfi að koma á nýskipan í þessum efnum. Ég tel líka

að við höfum sýnt það í verki með því að vera fyrsta ríkisstjórnin í um 70 ár sem flytur fjáraukalagafrumvarp til breytinga á fjárlögum yfirstandandi árs og felur það vald þess vegna í hendur Alþingis.
    Eins og ég sagði í upphafi míns máls tel ég að vandinn sé í reynd mun víðtækari og nauðsynlegt sé, ef Alþingi hefur vilja, sem ég vona að Alþingi hafi, til þess að taka á þessum málum svo að árangur náist, að menn horfi yfir sviðið allt og hiki ekki við að takast á við ýmsar mjög erfiðar breytingar sem þarf að gera á starfsháttum Alþingis, skipulagi Alþingis og valdaskiptingunni í okkar þjóðfélagi og eru í reynd mun víðtækari en felast í þessu frv. sem hér hefur verið lagt fram. Ég hef þess vegna kosið að setja hér fram við þessar umræður 14 tillögur sem eru framlag mitt til þess að skerpa og skýra þá umræðu sem hér þarf að fara fram og fer m.a. fram í umræðu um frv. sem hér er til umræðu og ég hef valið umræðuna um þetta frv. vegna þess að frv. er veigamesta og metnaðarfyllsta tilraun þingmanna til að taka á málinu þótt vissulega hefði einnig komið til greina að flytja þetta í fyrri umræðum um þær þingsályktunartillögur sem ég vék að áðan.
    Vandamálið felst að mínum dómi í því, svo að ég reki örfá meginatriði, að í fyrsta lagi hefur ekki ríkt samræmi í störfum Alþingis milli þess hluta þingsins sem ákveður útgjöldin og hins hluta þingsins sem ákveður tekjuöflunina. Þetta misræmi endurspeglast mjög greinilega í nefndarnafngiftinni sjálfri, fjvn. Hún fjallar um veitingu fjármuna en aðrar nefndir þingsins fjalla um tekjuöflunina þannig að hvergi í störfum þingsins þarf þingheimur að standa frammi fyrir því að vega og meta hvort innra samræmi ríkir í þessum störfum því að það eru aðrir sem bera ábyrgð á tekjuöfluninni en þeir sem fjalla um útgjöld. Ég er sannfærður um að það kemst aldrei nein regla eða festa á þessa hluti fyrr en sami aðilinn innan þingsins fjallar um fjárlögin í heild sinni, bæði útgjaldahliðina og tekjuhliðina en það er ekki nú eins og kunnugt er.
    Annar þáttur vandans felst í því að þær nefndir Alþingis sem bera ábyrgð á einstökum málaflokkum, menntamálanefndir, heilbrigðisnefndir, samgöngunefndir, koma aldrei að því verki að fjalla um tekjuöflun eða útgjaldaákvarðanir í
þessum málaflokkum. Þeirra verkefni er eingöngu að fjalla um efnisþætti málanna sem koma fjárhagsvandanum ekkert við. Í öðrum þjóðþingum hefur um langan tíma tíðkast sú skipan að hinar einstöku sérhæfðu nefndir þingsins fjalla um þann hluta fjárlaganna sem að þeim snýr. Menntamálanefndir fjalla um menntamálafjárlögin, heilbrigðisnefndirnar um heilbrigðisfjárlögin. Slík skipan gerir nefndirnar mun ábyrgari í störfum sínum og stuðlar líka að því að umræðan í heild verður raunhæfari. Verkefni fjárveitinganefndarinnar er að hafa heildaryfirsýn yfir dæmið allt og tryggja innra samræmi milli hinna einstöku málaflokka.
    Þriðja ástæðan felst að mínum dómi í því að þingið hefur leyft sér ár eftir ár að samþykkja

veigamikil frv. til útgjaldaauka án þess að gera sér nokkra grein fyrir því hvernig eigi að afla teknanna til þess að standa undir þessum útgjöldum. Þess vegna tel ég brýnt að það sé rætt í fullri alvöru hvort hér á Alþingi eigi að taka upp þá sömu lagalegu kvöð og tíðkast í öðrum þjóðþingum að enginn þingmaður né heldur ríkisstjórn megi leggja fram frv. eða þáltill. um útgjaldaauka nema gera um leið tillögu um breytingar á sköttum eða annarri tekjuöflun ríkisins til að standa undir þessum útgjaldaauka eða samsvarandi niðurskurð annarra útgjalda á gildandi fjárlögum. Með slíkri lagalegri kvöð yrðu þingmenn og ríkisstjórn að horfast í augu við það að sérhverjum góðum vilja til framkvæmda og framfara fylgir reikningur um kostnaðinn.
    Í fimmta lagi tel ég að vandinn felist að nokkru leyti í því að á sama hátt og nauðsynlegt er að skilja á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins hvað ákvörðunina um fjárlögin sjálf snertir verður líka að vara sig mjög á því að fulltrúar löggjafarvaldsins séu of virkir á vettvangi framkvæmdarvaldsins. Við höfum lengi búið við þá skipan að fulltrúar fjvn. sitja t.d. í ráðninganefndum starfsmanna ríkisins og í samstarfsnefndum um opinbera framkvæmdir eða með öðrum orðum eru virkir aðilar á vettvangi framkvæmdarvaldsins. Er þess vegna ekki eins nauðsynlegt og það er að flytja valdið yfir fjárveitingunum til þingsins á nýjan leik að gera skýran greinarmun á þeim verkum nefnda þingsins sem eru lagasetningarverkefnin og þeirri tilhneigingu þingnefnda að vilja gera sig gildandi einnig á sviði framkvæmdarvaldsins. Ef við náum samstöðu um það að skýra línurnar hvað lagasetninguna snertir þurfum við líka að ná samstöðu um að skýra línurnar hvað starf framkvæmdarvaldsins snertir.
    Ég hef einnig í umræðum um fjárlög yfirstandandi árs og áður á Alþingi gert grein fyrir ýmsum breytingum við gerð fjárlaga og við endurskoðun ríkiskerfisins á hverjum tíma, bæði nauðsyn þess að fyrir Alþingi sé lögð fjárlagaáætlun til lengri tíma og hún formlega afgreidd og ráðuneytin sjálf þurfi að gera fjárlagatillögur innan ákveðins fjárlagaramma og á hverju ári sé hluti af ríkiskerfinu tekinn til allsherjarendurskoðunar frá grunni þannig að réttlæta þurfi á nýjan leik alla þættina í rekstri ríkisstofnunar eða á vettvangi ráðuneytis a.m.k. einu sinni á hverjum áratug.
    Virðulegi forseti. Ég vil þess vegna áður en ég kem að frv. sem hér er til umfjöllunar og vegna þess að forseti hv. deildar hefur lagt á það ríka áherslu að menn reyni að halda umræðunni innan eðlilegra marka lýsa hér þessum 14 tillögum sem ég vil leggja inn í þessa umræðu. Ég vil þó leggja á það áherslu að ég tel þessa umræðu mjög mikilvæga og þykir miður að hér skyldi hafa orðið deila í upphafi fundar um það hvernig ætti að verja fundartímanum í dag því ég tel að það frv. sem hér er til umræðu og málið allt sé það mikilvægt að það réttlæti vissulega að hv. deild taki sér góðan tíma til þess að fjalla um það.
    1. Tillaga um að Alþingi endurskoði þingsköpin á

þann hátt að útgjaldahlið fjárlaga og tekjuhlið fjárlaga sé afgreidd á sama tíma og af sömu aðilum á Alþingi. Það þýðir að skattafrumvörp séu ekki bara ákveðin í deildum án tillits til þess hvað gerist í Sþ. með fjárlögin heldur séu þessi störf samtengd á þann hátt að annaðhvort fjalli deildirnar um fjárlögin sjálf og búi til sameiginlegan vettvang til þess að fjalla um það í nefndum eða þá að skattafrumvörpin verði hluti af fjárlagafrumvarpinu og geti þess vegna verið afgreidd í Sþ.
    2. Í stað þeirrar fjárveitinganefndar sem starfað hefur um áratugi á Alþingi verði sett upp, með lagabreytingu, fjárlaganefnd sem fjalli bæði um útgjaldahlið og tekjuhlið fjárlaganna og hafi það verkefni að hafa heildaryfirsýn yfir dæmið allt en ekki bara fyrst og fremst útgjaldahliðina eins og fjvn. hefur haft í áratugi.
    3. Ákveðin verði verkaskipting milli hinnar nýju fjárlaganefndar og einstakra fagnefnda Alþingis. Fjárlaganefndin hafi það verkefni að fjalla um heildargerð fjárlaganna og stærstu drættina í gerð þeirra en fagnefndir þingsins, menntamálanefndir, heilbrigðisnefndir og samgöngunefndir fjalli um þann þátt fjárlaganna sem snýr að þeirra vettvangi, þ.e. menntamálafjárlögin, heilbrigðisfjárlögin o.s.frv.
    4. Samin verði og lögð fram á Alþingi fjárlagaáætlun til þriggja ára í senn og hún formlega afgreidd og notuð sem viðmiðun og grundvöllur fyrir fjárlagagerð hvers árs. Stór þáttur í útgjaldaaukningu íslenska ríkisins á
undanförnum áratugum er að menn eru á hverju ári að reyna að þrýsta inn útgjöldum til verkefna m.a. vegna þess að menn telja að lítil von sé til þess að ná þeim fram á næstu árum ef það tekst ekki í ár. Með slíkri langtímafjárlagaáætlun sem formlega væri samþykkt á Alþingi vissu menn um lengri tíma hvað væri fyrirhugað að gera.
    5. Hlutverk, markmið og starfshættir ákveðins hluta allra ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja verði metin árlega frá grunni. Með slíkum hætti verður að finna réttlætingu fyrir öllum útgjaldaliðum viðkomandi stofnana á reglulegu árabili og skera þá niður ella. Þannig yrði með raunhæfum hætti og með gagnrýnum hætti knúin fram réttlæting með reglubundnu millibili á öllum útgjaldaþáttum ríkisins en vaninn einn ekki látinn ráða því frá ári til árs hvað í fjárlögin er sett.
    6. Til að tryggja aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds verði starfsvettvangur fjvn. eða hinnar nýju fjárlaganefndar bundinn við setningu fjárlaga. Þátttöku fulltrúa fjvn. í framkvæmd fjárlaga sem tíðkast hefur á mörgum undanförnum áratugum og bundin er reyndar í ýmsum lögum sem Alþingi hefur sett verði hætt með öllu á sama hátt og aukafjárveitingum verður hætt með öllu og þannig báðum megin frá dregnar skýrar aðskilnaðarlínur milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Ég er sannfærður um það að slík skipan mundi gera Alþingi gagnrýnna á störf framkvæmdarvaldsins og draga úr þeirri samábyrgð sem óhjákvæmilega þróast þegar menn eru báðum megin við borðið.

    7. Innan hvers ráðuneytis verði komið upp öflugum fjármálaskrifstofum sem annist undirbúning fjárlagagerðar í hverju ráðuneyti og eftirlit með framkvæmd fjárlaganna innan þess. Ég er sannfærður um það að sú reynsla sem fengist hefur af fjárlagamati heilbrrn. og menntmrn. hefur gefið góða raun og það sé nauðsynlegt að efla í senn sjálfstæði og ábyrgð ráðuneytanna við gerð fjárlaganna með því að flytja hluta af þeim verkefnum sem hafa verið hjá Fjárlaga- og hagsýslustofnun og fjmrn. yfir í einstök fagráðuneyti og gera þau um leið þar með ábyrgari fyrir undirbúningi fjárlagatillagna og framkvæmd fjárlaga.
    8. Að fjárlagagerðin fari fram á grundvelli rammafjárlaga þar sem heildarupphæð fyrir hvert útgjaldaráðuneyti verði ákveðin fyrir fram og ráðuneytunum síðan falið að gera tillögur um útgjöldin innan þess ramma.
    9. Eins og ég hef vikið að áður og tek undir meginþáttinn í því frv. sem hér hefur verið mælt fyrir, að allar greiðslur úr ríkissjóði verði annaðhvort samkvæmt heimildum í fjárlögum eða fjáraukalögum og aukafjárveitingar lagðar niður.
    10. Að með hverju því þingmáli, stjórnarfrv. eða þingmannafrv., sem leitt gæti til aukinna útgjalda fylgi tillaga eða greinargerð um það hvernig þeirra viðbótarútgjalda skuli aflað með breytingum á skattalögum eða með niðurskurði á öðrum ríkisútgjöldum. Þannig verði dregið úr þeirri þróun að auka sífellt ríkisútgjöldin með setningu nýrra laga án tilsvarandi tekjuöflunar.
    11. Til að tryggja vandaða meðferð Alþingis á fjárlögum og fjáraukalögum og öðrum skyldum frumvörpum er nauðsynlegt að annaðhvort verði fjárlagaárinu breytt, eins og ég reifaði hér á sl. hausti, þannig að fjárlagaárið verði ekki almanaksárið heldur t.d. frá 1. júní til 1. júní og Alþingi hafi þannig allnokkra mánuði til þess að fjalla ítarlega um fjárlögin eða, ef ekki er vilji til þess að breyta fjárlagaárinu á þann hátt að það verði ekki það sama og almanaksárið, þá komi Alþingi fyrr saman til fundar en nú er. Og ekki síðar en í byrjun septembermánaðar ár hvert. Það er að mínum dómi vonlaust verk að standa sómasamlega að því á Alþingi, ef vilji er til að vanda verkið og virða það vald sem Alþingi er fært á nýjan leik, ef á tveimur mánuðum á í senn að afgreiða fjárlög fyrir nýtt ár, fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár og ýmis þau önnur skyld frumvörp sem þessum málum tengjast. Ég hef því sannfærst um það að vilji Alþingi ekki flytja fjárlagaárið til þá verði Alþingi að horfast í augu við það að með auknu valdi og kröfum um vandaðri vinnubrögð verður að koma til breyttur þingtími.
    12. Til að auðvelda störf þingsins að ríkisfjármálum verði fjvn. eða hin nýja fjárlaganefnd gerð að heilsársnefnd líkt og utanrmn. Það er nauðsynlegt að þessi sess nefndarinnar sé festur í lögum og hún hafi formlegan rétt til starfa allt árið og hún fái einnig sjálfstæða starfsmenn. Ég er þeirrar skoðunar að sú skipan sem verið hefur núna um

tveggja ára skeið að starfsmenn Ríkisendurskoðunar gegni jafnframt þeim störfum að vera aðstoðarmenn fjvn. sé ekki til heilla þegar til lengdar lætur með mikilli virðingu fyrir þeim einstaklingum sem þessum störfum hafa gegnt. Því það skapar mikinn rugling og margvísleg vandamál að þeir sem samkvæmt lögum eiga að starfa í hinni sjálfstæðu stofnun Ríkisendurskoðun séu jafnframt starfsmenn einnar nefndar þingsins og dragist þannig óhjákvæmilega stig af stigi inn í gerð þeirra fjárlaga sem þeim er síðan ætlað að endurskoða og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að ákveða að fjvn. fái sína eigin starfsmenn sem séu fyrst og fremst háðir nefndinni einni og engum öðrum. Það
getur vissulega verið með þeim hætti að þeir séu lánaðir frá Ríkisendurskoðun um 2--3 ára skeið en séu sjálfstæðir meðan þeir eru í starfi fyrir fjvn. en þeim sé ekki jafnframt ætlað að gegna einnig fjölmörgum öðrum störfum á vettvangi Ríkisendurskoðunar.
    13. Að ríkisreikningsnefnd, sem lítt hefur starfað á undanförnum árum, verði falið að endurskoða og meta hvaða úrbótum megi ná fram á þáttum eins og geymdum fjárveitingum og verðuppfærslu útgjalda fjárlaga.
    14. Að ríkisfjármálanefnd, sem einnig hefur því miður lítt starfað á undanförnum árum og þar með talið síðan ég var fjmrh., verði endurvakin til markvissara og reglubundinna starfa en áður hefur verið og hún verði fyrst og fremst vettvangurinn fyrir samráð og skoðanaskipti milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins með fulltrúum fjmrn. og fjvn.
    Virðulegi forseti. Ég hef kosið að rekja þessar tillögur hér vegna þess að mér finnst brýn nauðsyn vera á því að Alþingi líti yfir þetta mál í heild sinni. Það er alltaf töluverð tilhneiging til þess að telja að með einum eða tveimur breytingum geti menn náð fram umtalsverðum þáttaskilum en ég held að þau vandamál sem við eigum við að etja í ríkiskerfinu á Íslandi séu svo víðtæk að kröfurnar um efnislegar breytingar og kröfurnar um ný vinnubrögð feli í sér mun víðtækari umsköpun á öllu þessu sviði en það frv. sem hér hefur verið mælt fyrir felur í sér þó margt sé í því athyglisvert.
    Ég vil einnig leggja á það ríka áherslu að menn mega ekki í allri þessari umræðu gleyma því að ríkisfjármálin eru hluti af hagstjórninni. Ríkisfjármálin eru ekki bara formleg ákvörðun þings um það til hvaða verkefna eigi að verja útgjöldunum eða hvernig eigi að afla teknanna heldur eru þau hluti af heildarefnahagsstjórninni í landinu. Þáttur ríkisfjármálanna í heildarefnahagsstjórninni getur á ákveðnum tímum gert það eðlilegt að ríkissjóður sé rekinn með halla vegna þess að sú aðferð er tæki til þess að ná þeim heildarmarkmiðum í efnahagsmálum sem þingið og þjóðin stefnir að. Ég er t.d. sannfærður um það að á árinu 1990 er efnahagslega skynsamlegt og réttlætanlegt að reka ríkissjóð með nokkrum halla. Það eru hins vegar vissulega takmörk fyrir því hvað hann má vera mikill. Þau takmörk liggja að mínum dómi einhvers staðar á bilinu 3--4 milljarðar. En það

að fylgja þeirri kenningu að ríkissjóð eigi alltaf að reka með tekjuafgangi hvað sem tautar og raular í efnahagsstjórn landsins getur aldrei leitt til annars en efnahagslegra ófara.
    Á sama hátt voru það mikil mistök sem ég ætla þó ekki að ræða hér í löngu máli hjá þeim sem stýrðu ríkisfjármálum á kjörtímabilinu 1983--1987 að reka ríkissjóð með halla í því mikla góðæri sem þá var. Þegar réttu viðbrögðin út frá efnahagsstjórninni hefðu þá verið að reka ríkissjóð með allmiklum afgangi. Ég nefni þetta hér vegna þess að einstaka þættir í því frv. sem hér er til umræðu geta takmarkað eðlilegt svigrúm ríkisins til þess að nota ríkisfjármálin sem tæki í hagstjórninni.
    Virðulegi forseti. 1. flm. þessa frv. kaus að hafa þann hátt á að víkja ekki að einstökum greinum frv. Hann sagði þó í sinni ræðu að hann mundi bíða eftir því að fram kæmu hugleiðingar, ábendingar eða athugasemdir um einstakar greinar áður en hann fjallaði um þær. Ég vona að það verði þess vegna ekki misskilið þó að ég taki hér nokkurn tíma í að víkja að einstökum greinum frv. þótt 1. flm. hafi ekki gert það í sinni framsöguræðu. Ég tel að hann hafi beinlínis óskað eftir því með sínum orðum að sá háttur yrði hafður á hér við umræðurnar að fyrst fjölluðu einstakir ræðumenn um frv. og síðan mundi hann koma og fjalla um einstakar greinar. Ég vil þess vegna með þeim skilningi flm. víkja hér nokkuð að frv. sjálfu og einstökum greinum þess í ljósi þeirra tillagna og meginsjónarmiða sem ég hef sett fram í fyrri hluta minnar ræðu.
    Í upphafi tel ég þó nauðsynlegt að ítreka það að skipta má fjárveitingum í fjárlögum í þrjú meginsvið þegar þau eru flokkuð út frá eftirlitssjónarmiði. Í 1. flokknum eru þær fjárveitingar sem eru föst fjárhæð og er yfirleitt aldrei þokað. Undir þetta falla fjárveitingar til framkvæmdakostnaðar, beinir fjárstyrkir til samtaka og aðila utan ríkiskerfisins og ýmislegt annað. Þessar fjárveitingar fara nær ávallt eftir ætlan fjárlaga og eru örfáar undantekningar þar á. Eftirlitið með þessu á því að vera tiltölulega mjög auðvelt á ári því sem fjárlögin ná til.
    Í 2. flokknum eru verðlagstengdar fjárveitingar. Hér er fyrst og fremst um að ræða laun og önnur rekstrargjöld stofnana, svo og rekstrartilfærslur, t.d. til almannatrygginga og annarra þátta. Þessar fjárveitingar eru yfirleitt settar fram á janúarverðlagi fjárlagaársins. En síðan er gert ráð fyrir ákveðinni fjárhæð til að mæta verðlagshækkunum innan ársins. Hvernig sú fjárveiting dugir fer eftir því hvort og þá hversu mikið verðlags- og launaferlið víkur frá áætlun. En það hljóta allir menn að sjá að það er í raun og veru ekki á valdi nokkurs mannlegs máttar að segja alveg nákvæmlega upp á punkt og prik fyrir um þróun verðlags og launa 12 mánuði fram í tímann þegar sérstaklega hagkerfið er jafnháð utanaðkomandi áhrifum eins og íslenska hagkerfið er.
    Tryggasta leiðin auðvitað til þess að auka þetta öryggi er að minnka verðbólguna, láta kjarasamninga spanna fjárlagaárið í heild og stuðla að meiri

stöðugleika í efnahagslífinu. Ég tel satt að segja að þeir þættir í efnahagsstjórninni sem stuðla að minni verðbólgu og meiri stöðugleika í efnahagsmálum og sú vinnuregla að gera kjarasamninga til lengri tíma sé í reynd miklu árangursríkari leið til þess að ná festu í þennan þátt ríkisfjármálanna heldur en stífar, formlegar reglur um það hvað megi eða megi ekki. Þess vegna ætti sem betur fer eftirlitið með útgjöldum fjárlaga á yfirstandandi ári að verða mun auðveldara en á mörgum undanförnum árum þar sem óvissan og sveiflurnar í hagkerfinu voru þá miklu meiri.
    Í 3. flokknum eru ýmsar fjárveitingar sem ekki eru aðeins háðar verðbreytingum heldur eru aðrar forsendur á bak við þær oft óljósar. Skýrasta dæmið um þetta eru vextir af skuldum ríkissjóðs en þeir nema nú um 1 / 10 hluta allra ríkisútgjalda á fjárlögum. Vextir á stórum hluta erlendra lána ríkissjóðs eru breytilegir og því háðir bæði gengisskráningu krónunnar, svo og sveiflum í erlendum vaxtakjörum og þess vegna ekki heldur á valdi neins mannlegs máttar að segja nákvæmlega fyrir um það hverjir þeir verða upp á tugi eða hundruð milljóna 12 mánuði fram í tímann, m.a. vegna þess að endanlega niðurstaðan er afleiðing af atburðarás á erlendum gjaldeyrismörkuðum sem með engum hætti eru á okkar valdi.
    Annað dæmið eru skuldbindingar almannatrygginga þar sem raunþróun útgjalda umfram verðlagsbreytingar hefur oft sigið fram úr fjárlögum. Þriðja dæmið sem má nefna er rekstur framhaldsskólanna þar sem nemendafjöldi vegna frjálsra ákvarðana nemenda sjálfra sem almennings og borgara í þessu landi getur breytt forsendum fjárlaga. Og hvað sem menn óska eftir miklu raunsæi í áætlunum um útgjaldaauka í framhaldsskólakerfinu búum við sem betur fer í þjóðfélagi þar sem einstaklingurinn getur ákveðið sjálfur hvort hann sest í skólann eða ekki. Við veitum honum þann borgaralega rétt og verðum þá að bregðast við þeim útgjöldum sem það hefur í för með sér.
    Ég vildi í upphafi umfjöllunar minnar um einstaka þætti í frv. rifja upp hinar ólíku forsendur hinna ýmsu tegunda ríkisútgjalda vegna þess að mér finnst því miður stundum bera of mikið á því, bæði hér innan þings og þó ekki síður utan, að menn setji ríkisútgjöldin öll undir einn hatt og ræði um umbætur á því sviði eins og þau séu öll sömu tegundar og forsendurnar á bak við fjárlagafrv. allar eins. Við getum ekki breytt þeim veruleika að ríkisútgjöldin eru af margvíslegu tagi, eins og ég hef hér rakið, og mjög mismunandi aðferðir þarf til að ná árangri í stýringu þeirra. Á nokkrum veigamiklum sviðum í ríkisfjármálunum hlýtur ávallt að vera um áætlanir að ræða sem breytast þegar yfir lengri tíma er litið.
    Kjarni 1. gr. þess frv. sem hér er til umræðu er ítrekun á því sem fram kemur í 41. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir að úr ríkissjóði megi ekkert gjald greiða nema til þess sé heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég þarf ekki að árétta skoðanir mínar varðandi þetta efnisatriði frekar en ég

gerði hér í upphafi ræðu minnar. Ég hlýt þó að vekja athygli á því að í tímans rás hefur túlkun manna á þessu ákvæði stjórnarskrárinnar breyst mjög, eins og reyndar á ýmsum öðrum ákvæðum hennar. Við á Íslandi búum við stjórnarskrá þar sem skilningur á öllum ákvæðum hennar hefur ekki verið óbreyttur síðan stjórnarskráin var sett. Þess vegna finnst mér ekki rétt að leggja jafnmikla áherslu og sumir gera á stjórnarskrárþáttinn í þessu máli heldur væri miklu nær að rökstyðja breytingarnar út frá þeirri almennu reglu nútímans að framkvæmdarvaldið eigi ekki að greiða úr hinum almenna sjóði landsmanna nema löggjafarvaldið hafi veitt til þess samþykki.
    Í 2. mgr. 1. gr. er skýrt frekar hvað í þessum almennu orðum felst og hnykkt á að ekki sé aðeins óheimilt að greiða úr ríkissjóði heldur einnig að stofna til skuldbindinga fyrir hann án aðildar Alþingis. Þetta atriði er mjög flókið og nauðsynlegt og skynsamlegt að töluverður sveigjanleiki sé fyrir hendi eins og reyndar kemur fram í ákvæðum 3., 4., 5. og 10. gr. frv.
    Ef við lítum á þennan þátt málsins getur í fyrsta lagi verið þarft að setja skýrari reglur en nú gilda um ráðstöfun fjárveitinga, t.d. um sértekjur sem veittar eru til ríkisstofnana, en að því er lítt vikið í frv. Ég minni á í þessu sambandi að óvíða meðal annarra þjóða hafa stofnanir jafnóbundnar hendur og ríkisstofnanir á Íslandi til ráðstöfunar á því fé sem til starfsemi þeirra hefur verið veitt. ( SighB: Það er tekið á því í 4. gr.) Það er tekið á því í 4. gr., vissulega, en ég vek athygli á þessu vandamáli vegna þess að mér finnst að um þann þáttinn þurfi að fara fram nánari umræða. Með vissum hætti þarf líka að gefa ríkisstofnunum, sem ætlað er að reka sig að einhverju eða öllu leyti fyrir eigin reikning, ákveðið svigrúm til þess að geta lagað sig að breyttum aðstæðum. ( SighB: Það er líka gert í 4. gr.) Já, já, vissulega, flm., er það líka gert í 4. gr. en ég bið nú flm. að hafa opinn huga gagnvart þessum athugasemdum og halda ekki að frv. sé svo haganlega smíðað að fyrir öllum hlutum hafi verið séð í öðrum greinum frv. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að svara þessari athugasemd frá hv. þm. Pálma Jónssyni og tel ekki að umræður
mínar um þetta mál hér gefi tilefni til að flytja þessa umræðu yfir á þetta stig. Ég hef þvert á móti kappkostað að reyna að leggja inn í umræðuna um þetta frv. athugasemdir og ábendingar og tillögur sem ættu að geta stuðlað að því að þessi umræða yrði vandaðri en stundum tíðkast hér á hv. Alþingi. Ég get fullvissað hv. flm. Pálma Jónsson um það að þetta frv. hef ég lesið oft og mörgum sinnum og þess vegna tel ég m.a. að nauðsynlegt sé að huga að ýmsu. Ég nefni í þessu sambandi 54. grein laga nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fjármálaráðherra setur reglur um greiðslu rekstrarhagnaðar fyrirtækja og sjóða í B-hluta ríkisreiknings í ríkissjóð að svo miklu leyti sem slíkt er ekki lögákveðið. Að öðru leyti er fyrirtækjum og sjóðum heimilt að nota rekstrarhagnað til aukinnar

hreinnar eignar með þeim takmörkunum sem fjmrh. setur eða ákvarðaðar eru með lögum.``
    Á grundvelli þess ákvæðis sem ég hef nú lesið má setja þær starfsreglur sem menn vilja en um það hverjar þær reglur eigi að vera tel ég nauðsynlegt að hafa samvinnu við Alþingi. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að fjalla nokkuð um það hvað það er í frv. sem hér er mælt fyrir sem ekki er í reynd hægt að framkvæma á grundvelli ákvæða gildandi laga. Bið ég bæði flm. frv. og þá nefndarmenn sem um frv. kunna að fjalla að skoða rækilega samhengið á milli þeirrar greinar sem í frv. eru og laganna nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlög.
    Ég vil líka í þessu sambandi vekja athygli á því að nokkur hætta er á því að of þröngar reglur komi í veg fyrir þá auknu ábyrgð og hvatningu sem ég held að við séum öll sammála um að þurfi að efla hjá forstöðumönnum ríkisstofnana, ríkisfyrirtækja og hjá öllum starfsmönnum ríkisins á þessu sviði. Og það er viss hætta á því, ef Alþingi færi að formbinda alla þessa þætti og gefa til kynna að þar með væri stýringin á verksviðinu öllu fyrir árið í heild ákveðin, að tilhneigingar mundi gæta hjá forstöðumönnum ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja til að skjóta sér undan hinni daglegu ábyrgð á rekstrinum og flytja hana yfir til þingsins sem hefur enga möguleika til þess að sinna henni í verki. Það þarf þess vegna í lagatextanum að tvinna saman bæði kerfi sem eflir ábyrgð og hvatningu stjórnenda og starfsmanna í ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum og tryggir þann lögformlega rétt sem Alþingi vill hafa.
    Í athugasemdum um 6. gr. frv. er vikið að því að ólíkar ástæður séu fyrir viðbótarútgjöldum ríkissjóðs og upp kunni að koma tilvik þar sem ómögulegt er að víkjast undan fjárgreiðslum af hálfu ríkisins. Og í 10. gr. er sleginn sá varnagli að ef fyrirvaralaus greiðsluskylda fellur á ríkissjóð þá er fjmrh. heimilt að fengnu samþykki fjvn. að inna greiðslurnar af hendi. Það kann að þykja til bóta að lögfesta þessa starfsvenju, að til slíkra greiðslna verði ekki stofnað án atbeina þess ráðherra sem málefnið heyrir undir og gaumgæfilegrar umsagnar. Ég tel þó að mergur málsins sé sá að fjmrh. eigi ekki að ljá máls á að auka útgjöld af lítt rökstuddum ástæðum eða vegna þrýstings frá samstarfsráðherrum, alþingismönnum eða öðrum aðilum.
    Ég vil þá víkja nokkrum orðum að 7. og 8. gr. frv. sem taka til greiðslna úr ríkissjóði innan ársins og geymdra fjárveitinga. Fjárlög fela ekki í sér greiðsluskyldu. Ég vil leggja ríka áherslu á þennan skilning minn því sumir virðast telja, og má jafnvel lesa þann skilning að nokkru leyti út úr því frv. sem hér er til umfjöllunar, að í fjárlögum felist greiðsluskylda en ekki greiðsluheimild. Það er nokkuð óljóst í skýringum með því frv. sem hér er birt hvaða skilning núverandi hv. fjvn. hefur á þessu grundvallaratriði. Ég teldi það vera rangt skref að leggja þann skilning í fjárlögin að þegar Alþingi hefur ákveðið greiðslur til ákveðinna verkefna sé skylt að greiða þá peninga út úr ríkissjóði á því ári, hvað sem

tautar og raular. Það getur leitt til margvíslegra vandræðaverka og komið í veg fyrir að hægt sé að gæta nægilegs sparnaðar og aðhalds við breyttar aðstæður. Ég veit hins vegar að það kann að ríkja tilhneiging hjá þingmönnum til að vilja knýja framkvæmdarvaldið til að greiða út þær upphæðir sem hafa verið ákveðnar. En ég teldi það ekki siðabót í ríkisfjármálum að taka upp þann skilning að ríkissjóði beri að greiða út á gildisári fjárlaganna allar þær upphæðir sem ákveðnar eru í fjárlögunum.
    Ég vil í því sambandi víkja að því að í 66. gr. laga nr. 52/1966 og í lögum nr. 84/1985 er vikið að heimild fjmrh. til að geyma stofnkostnaðarframlög. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Merkja skal sérstaklega þær fjárveitingar sem geyma má ef þær eru ónotaðar í lok reikningsárs. Geymsluheimildin skal gilda til fjögurra ára. Ekki er heimilt að geyma fjárveitingar til venjulegs reksturs ríkisstofnana eða annarra aðila sem slíkar fjárveitingar fá. Undanþágur má þó veita frá þessu ákvæði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Fjármálaráðherra ákveður nánar um geymslu ónotaðra fjárveitinga.`` Þá er jafnframt heimild í lánsfjárlögum hverju sinni til geymslu á lántökuheimildum til 1. júlí að fjárlagaári afstöðnu sé sérstaklega um það rætt og fjmrh. heimilað slíkt.
    Í ríkisreikningi fyrir árið 1988 kemur t.d. fram að 169 millj. kr. voru geymdar í árslok 1988 og búast má við að hluti þessarar fjárhæðar hafi verið
hafinn 1989. Ég tel ákvæði um geymslu fjárveitinga skynsamleg eins og ég gaf til kynna hér áðan, framkvæmdir geta tafist, það geta verið margvíslegar ástæður fyrir því að ekki sé skynsamlegt að hefja framkvæmdir og fjárveitingavaldið verður að treysta framkvæmdarvaldinu til þess að meta það. Mér finnst hins vegar gæta þess vantrausts í orðalagi á þessari grein að fjárveitingavaldið vilji líka verða framkvæmdarvald og vilji í reynd hafa í sínum höndum alla framkvæmd fjárlaganna og setji þess vegna þau ákvæði að úr ríkissjóði skuli greiða, hvað sem gerist, þær upphæðir sem ákveðnar hafa verið í fjárlögunum.
    Með sama hætti og ég hef hér nefnt að skynsamlegt kunni að vera að geyma fjárveitingar og greiða ekki út úr ríkissjóði á gildisári fjárlaganna, getur verið skynsamlegt að skuldbinda ríkissjóð til lengri tíma en eins árs. En það er nokkuð óljóst í frv. hvort hv. fjvn. sé þeirrar skoðunar í raun að afnema eigi möguleikana á því án samþykkis Alþingis að skuldbinda ríkissjóð til lengri tíma en eins árs. Sá möguleiki að geta skuldbundið ríkissjóð til lengri tíma en eins árs er lykilþáttur í því að tryggja betri verk- og kaupsamninga á fjölmörgum sviðum. Við afgreiðslu þessa frv. er því nauðsynlegt að skoða þennan þátt einnig sérstaklega.
    Annað atriði sem mér sýnist að þurfi að skoða og skýra mun nánar en gert er í frv. er meðhöndlunin á verðlagsuppfærslu, bæði í fjárlögunum sjálfum og í greiðsluáætlunum ríkissjóðs. Hér tel ég að sé reyndar nauðsynlegt að marka mjög skýrar reglur, bæði í

samvinnu við fjvn. og ríkisreikningsnefnd sem ég nefndi hér áðan. Í athugasemdum við greinina segir enn fremur að í 6. gr. fjárlaga hafi þó verið heimild til fjmrh. til að inna af hendi greiðslur eða innheimta tekjur í samræmi við breytingar á lögum. Til þess að mæta slíkum útgjöldum undir sérstökum lið fjmrn. eru áætlaðar árlega nokkrar fjárhæðir fyrir útgjöldum sem með engu móti sé hægt að sjá fyrir. Það kemur þess vegna vel til greina að setja nánari reglur um hvaða greiðslur falli eðlilega undir þennan lið og hve víðtæk þessi heimild eigi að vera í 6. gr. fjárlaganna. Þegar sú grein er skoðuð sést hins vegar að hún er oft og tíðum nokkuð undarlegt samansafn margra mikilvægra og mismikilvægra mála sem menn hafa ekki treyst sér til að taka inn í gjaldaáætlunina.
    Hv. 1. flm. Sighvatur Björgvinsson vék síðan nokkuð að þeirri grein frv. sem fjallar um meðferð kjarasamninga. Ég tel reyndar að þessi grein sé á ýmsan hátt varhugaverð í ljósi þeirrar venju sem skapast hefur á íslenskum vinnumarkaði og einnig í ljósi þess hvað íslenska ríkið semur við marga aðila. Við búum hér á Íslandi við vinnumálalöggjöf og skipulag samtaka launafólks þar sem samningsrétturinn er í höndum stéttarfélaganna hvers fyrir sig en ekki hjá heildarsamtökum þeirra. Á Norðurlöndunum, sem hér var vitnað til sem fordæmis, hefur ríkt töluvert önnur skipan í þessum málum og miklu algengara að heildarsamtökin geti gert skuldbindandi samninga fyrir allan meginþorra launafólks. Nú er skipulagi stéttarfélaga starfsmanna ríkisins háttað á þann veg að fjmrn. þarf að semja við 90--100 stéttarfélög og starfsmannasamtök á hverju ári. Það getur verið nokkuð flókið mál að vega það og meta hver af þessum samningum er sá sem ræður úrslitum um það að launaforsendur fjárlagafrv. kunni að breytast ef ekki er um að ræða einn veigamikinn samning á árinu sem tekur til aðildarfélaganna flestra. Málið er vissulega auðvelt viðureignar ef bara er um einn slíkan samning að ræða á hverju ári eða tvo þannig að hægt sé að skoða málið í heild sinni. En það er engin trygging fyrir því, í því lýðræðislega þjóðfélagi sem við búum við, að þessi 90--100 samningsaðilar og stéttarfélög sem ríkisvaldið þarf að semja við kjósi að vera á þann hátt samferða í kjarasamningum sínum að hægt sé að meðhöndla málið með þessum hætti.
    Þar að auki vil ég líka víkja að þeim þætti málsins að ekki er endilega víst að það stuðli að efnahagslega skynsamlegum eða félagslega réttlátum kjarasamningum að stéttarfélögin telji að þau geti sótt til Alþingis það sem ekki tókst við gerð kjarasamningsins. Þingið gæti þannig kallað yfir sig þann þrýsting sem óhjákvæmilega er samferða kjarasamningum. Það getur vissulega verið mjög erfitt verk fyrir fjmrh. eða ríkisstjórn, og fjmrh. sérstaklega sem fer með samningsumboðið, að eiga í erfiðum og langvarandi deilum við stéttarfélög launafólks sem oft eru með réttlátar kröfur sem ekki er hægt að uppfylla af efnahagslegum ástæðum. En ég er ekki alveg viss um að það væri heppileg skipan að síðan yrði önnur umferð þeirra deilna og átaka í sölum Alþingis eftir

að kjarasamningurinn hefur verið gerður. Það gæti leitt til þess að draga úr félagslegum rétti, félagslegu valdi og samningsumboði forustumanna stéttarfélaganna og einnig fjmrh. eða ríkisstjórnarinnar fyrir hönd almennings í landinu. Ég bið menn þess vegna að gaumgæfa mjög vel þessi ákvæði frv. áður en menn ákveða að festa þau í lög vegna þess að þau taka að mínum dómi mið af öðruvísi skipan samtaka launafólks og öðruvísi skipan samningsréttarins í okkar lýðræðislega þjóðfélagi en tíðkast hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum velflestum.
    Ég vek einnig athygli á því að það getur komið upp gífurleg óvissa ef t.d.
kjarasamningar eru gerðir rétt fyrir kosningar, jafnvel eftir að Alþingi hefur verið slitið og við höfum nokkur dæmi um það að fjmrh. hafa freistast til þess að gera kjarasamninga fyrir kosningar sem ekki voru jafnskynsamlegir eða réttlátir eftir kosningar. Og hver er það þá sem ber ábyrgðina? Er það hin nýja ríkisstjórn sem á að taka við eða hið nýja Alþingi sem kjósa á til eftir einhvern tíma? Og kann ekki sú skipan að leiða til þess að það verði orðið svo óljóst hvar ábyrgðin liggur að slík skipan geti gert okkur erfiðara fyrir að ná félagslegu réttlæti og efnahagslegum stöðugleika í gegnum kjarasamninga en reynslan hefur verið á undanförnum árum?
    Ég tel einnig að í þessari grein gæti nokkuð þeirrar tilhneigingar sem ég hef vikið að á nokkrum öðrum stöðum í frv. að vilja að löggjafarvaldið, bæði þingið í heild og einnig fjvn., sé með nokkuð veigamiklum hætti inni á vettvangi framkvæmdarvaldsins og þannig dregið úr þeim skörpu skilum sem menn vilja skapa milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds hvað snertir fjárveitingavaldið sjálft með því að teygja löggjafarvaldið inn á verksvið framkvæmdarvaldsins of víða og með of óljósum hætti.
    Í 9. gr. frv. er lagt til að tímabundinn yfirdráttur í Seðlabanka Íslands skuli takmarkaður í fjárlögum hvers árs. Hér er vissulega fitjað upp á mjög athyglisverðu máli. Mér finnst þó nokkuð skorta á að í greinargerð frv. sé að finna ítarlega efnahagslega greinargerð fyrir því hvað það hefði í för með sér ef þessi háttur yrði tekinn upp hér á Íslandi eða hvað þurfi að gerast áður en slík skipan er tekin upp. Í dag er sá háttur hafður á að gerður er samningur við Seðlabankann um fjármögnun árstíðabundinnar sveiflu í fjármálum ríkisins. Sá samningur tekur bæði til þess hve há mánaðarleg fjármögnun úr Seðlabankanum megi vera og til þeirra vaxta sem ríkissjóður greiðir fyrir þessa fjármögnun. Ég tel fyllilega koma til athugunar að fjalla um það nánar á Alþingi en gert hefur verið hvernig ríkissjóður skuli standa að nauðsynlegri skammtímafjármögnun. En ég vek hins vegar athygli á því að það er aðeins á síðustu 2--3 árum sem ríkisvíxlar, sem seldir eru á frjálsum peningamarkaði, hafa að nokkru leyti leyst yfirdráttinn í Seðlabanka Íslands af hólmi sem skammtímafjármögnun ríkissjóðs. Ríkissjóður leitar þess vegna ekki lengur til Seðlabankans til þess að fá lausn á þessum vandamálum heldur út á hinn almenna

markað. Og það er athyglisvert að á nýliðnu ári tókst ríkissjóði að gerbreyta svo þessum starfsháttum að 80% af umframfjárþörf ríkissjóðs var mætt með sölu spariskírteina ríkissjóðs og ríkisvíxla á frjálsum peningamarkaði án nokkurrar lögþvingunar og nokkurra formlegra samninga við bankastofnanir eða Seðlabankann eða nokkurn annan aðila heldur með frjálsum kaupum almennings, fjárfestingarlánasjóða og peningastofnana á þessum verðpappírum ríkissjóðs. Ríkissjóður hefur ekki í jafnlangan tíma þurft að leita jafnlítið til Seðlabankans eins og hann hefur gert á sl. ári eða gerir nú.
    Ríkissjóður sækir heimildir til þessarar fjármögnunar á spariskírteinum ríkissjóðs og sölu ríkisvíxla til Alþingis og ég gerði það sérstaklega á liðnu ári í frv. sem ég flutti þar sem óskað var viðbótarheimilda. Ég varpa þess vegna fram þeirri spurningu hér hvort það sé endilega skynsamlegt að taka á því efnahagslega vandamáli sem væntanlega liggur á bak við þetta orðalag 9. gr. með þeim hætti sem gert er í frv. og hvort það þurfi ekki að skoða þau ákvæði frv. mun betur í ljósi víðtækra aðferða til þess að fjármagna þörf ríkissjóðs, bæði á almennum peningamarkaði og eins með sérstökum samningum við Seðlabankann.
    Virðulegi forseti. Ég hef notað umræðutíma minn hér fyrst og fremst til þess að kynna annars vegar heildaryfirlit yfir þær breytingar sem ég tel að nauðsynlega þurfi að gera eigi árangur að nást á þessum sviðum og hins vegar til þess að víkja nokkuð, þó í styttra máli en ég hefði kosið, að einstökum greinum í því frv. sem hér hefur verið lagt fram. Ég vil þó ítreka það sem ég sagði áðan að mér hefur fundist að í umræðum um ríkisfjármál á Íslandi gæti ærið mikið tveggja tilhneiginga. Annars vegar að horfa ekki á ríkisfjármálin sem grundvallarþátt í efnahagsaðgerðunum og hins vegar að telja að það séu til einhverjar einfaldar patentlausnir á því að skera niður ríkisútgjöldin. Ég vona að mér verði fyrirgefið þó að ég segi það hér að ég held að enginn fjmrh. hafi jafnoft og ég gengið í þau verk að skera niður ríkisútgjöldin og það frv. sem ég mæli fyrir nú á morgun um fjáraukalög fyrir árið 1990 er þriðja niðurskurðarlotan á ríkisútgjöldunum á fjórum mánuðum. Þegar útgjaldahlið fjárlaganna var aukin við 2. umr. með tillögum fjvn. var gengið í það verk að leggja til við 3. umr. niðurskurðartillögu á móti í kringum milljarð samtals og á morgun verður mælt hér fyrir fjáraukalagafrv. þar sem tæpur milljarður í viðbót er lagður inn í þetta dæmi. Eða með öðrum orðum frá því að fjárlögin voru afgreidd við 2. umr. hafa verið lagðar fyrir Alþingi tillögur um niðurskurð ríkisútgjalda um rúma 2 milljarða til viðbótar við þann niðurskurð sem fólst í fjárlagafrv. sjálfu.
    Ég veit að ég þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þm. að meira hefur borið á gagnrýni á einstakar niðurskurðartillögur heldur en nýjum tillögum um það hvar eigi að finna viðbótarniðurskurð. Jafnvel sömu mennirnir og mæla hér fyrir
þingsályktunartillögum um það að skera eigi niður

ríkisútgjöldin og hver ríkisstofnun eigi bara að fá ákveðna upphæð í fjárlögum og svo ekki söguna meir, ganga út úr þingsalnum til einkaviðræðna við fjmrh. um hvernig eigi að auka ríkisútgjöldin á sviðum einstakra ríkisstofnana á yfirstandandi Alþingi. Og ég vona að mér verði fyrirgefið þó að ég segi við hv. alþm.: Þessari tvöfeldni verður að ljúka. Það verður auðvitað að ljúka þeirri tvöfeldni að menn standi hér í þingsalnum og slái sig til riddara um það að vera miklir tillögumenn um niðurskurð ríkisútgjalda og sitji svo fyrir fjmrh. á göngum Alþingis til að knýja hann til að auka ríkisútgjöldin á þeim sviðum sem þeir bera fyrir brjósti eða eru sérstaklega tengdir. Fjmrh. sem upplifir slíkt venst smátt og smátt á það að taka þingmenn ekki mjög alvarlega og það er vont vegna þess að fjmrh. á auðvitað að taka þingmenn alvarlega. Og af því að við stöndum öll frammi fyrir því sameiginlega verkefni að skera niður ríkisútgjöldin og koma á hagræðingu í ríkisrekstrinum, þá verðum við auðvitað að gera umræðuna það raunhæfa að þeir sem í reynd vilja takast á við þetta verkefni leggi fram raunhæfar, skýrar og afdráttarlausar tillögur um það hvað þeir vilji gera.
    Hitt atriðið er svo að menn átti sig á því að fjárlagafrv. og fjáraukalög og skattafrumvörp fyrir hvert ár eru í reynd veigamesta framlag ríkisins til efnahagsaðgerða á hverjum tíma. En hér hefur allt of lengi borið á því að menn litu á fjárlögin og skattamálin sem eitthvað eitt og sér og ræddu það eignöngu út frá því hvort ríkisútgjöldin væru mikil eða lítil, hallinn mikill eða lítill, skattarnir miklir eða litlir og síðan væri það allt annað sem héti efnahagsaðgerðir sem kæmi svo jafnvel nokkrum vikum eða mánuðum seinna og kannski oft á ári. Ég gæti rakið hér í löngu máli feril ríkisstjórna allra á þessum nýliðna áratug þar sem þetta munstur hefur verið endurtekið aftur og aftur. Ef efnahagsstjórnin er í samræmi við þann stöðugleika sem við viljum ná, þá eru fjárlögin, lánsfjárlögin og skattafrumvörpin meginburðarásarnir í efnahagsaðgerðum hvers árs og verður að ræða sem slíkt, en ekki eitthvað sem er algerlega einangrað frá árangri í efnahagsmálum. Þeir alþm. t.d. sem leggjast gegn niðurskurði ríkisútgjalda, leggjast gegn skattahækkunum eru um leið að biðja um vaxtahækkun þó þeir segi það ekki í sama orðinu og komi kannski næsta dag og flytji mikla ræðu um það að nauðsynlegt sé að lækka vextina. Þannig er einfaldlega samhengið í efnahagskerfinu sjálfu.
    Virðulegi forseti. Það var líkt með mig eins og hv. þm. Sighvat Björgvinsson. Ég gaf hæstv. forseta vilyrði um að ljúka þessari ræðu í kringum kl. 4. Ég hefði vissulega kosið, vegna þess að ég tel að málið sé mikilvægt, að hafa lengri tíma til þess að víkja að ýmsum þáttum þess, en vona að það frv. sem hér hefur verið mælt fyrir, þær tillögur og hugmyndir sem ég hef hér lagt fram til umræðu og þær athugasemdir sem ég hef gert við einstakar greinar frv. verði til þess að hér á Alþingi geti farið fram ítarleg og raunhæf umræða um þetta mikla sameiginlega vandamál þings og þjóðar.