Leigubifreiðar
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Það eru tvær spurningar sem lagðar eru fyrir hæstv. samgrh. af hv. 5. þm. Reykv. Í fyrsta lagi er spurt:
    ,,Var með þeirri reglugerð, sem sett var 1. júlí sl. með heimild í lögum um leigubifreiðar, tekið af skarið um það hvað telst til fólksflutninga og hvað vöruflutninga? Kemur fram í sömu reglugerð sá vilji Alþingis að skýr verkaskipting sé á milli þeirra er flytja fólk og þeirra er flytja varning?
    Út af fyrir sig held ég að vel sé hægt að svara báðum þessum spurningum játandi, að í reglugerðinni komi fram sá vilji sem birtist í lögunum eins og þau eru og í reglugerðinni er einnig reynt að skýra verkaskiptinguna á milli þeirra er flytja fólk og þeirra er flytja varning en auðvitað er hér um að ræða tiltölulega flókið og viðkvæmt úrlausnarefni þannig að út af fyrir sig er ekki óeðlilegt þó að í framhaldi af slíkri reglugerð komi upp deilur um það hvar markalínuna á að draga.
    Það sem hins vegar er sennilega aðalvandi þessa máls birtist kannski fyrst og fremst í 2. tölul. fsp. þar sem segir:
    ,,Stendur til að breyta reglugerðinni um leigubifreiðar með tilliti til laga um virðisaukaskatt þar sem þeim er stunda vöruflutninga er gert að greiða virðisaukaskatt en þeir er stunda fólksflutninga eru undanþegnir virðisaukaskatti?``
    Ég hygg að stóri vandinn liggi í raun og veru þarna þar sem um er að ræða mismunandi skattskyldu að því er varðar greiðslu virðisaukaskatts. Samgrn. undirbjó svör við þessum fsp. hv. þm. Þau eru á þessa leið:
    Í fyrsta lagi: Í framhaldi af gildistöku nýrra laga um leigubifreiðar, nr. 77/1989, setti samgrn. tvær reglugerðir, annars vegar reglugerð nr. 308/1989, um fólksbifreiðar sem notaðar eru til leiguaksturs og takmarkanir á fjölda þeirra, og hins vegar reglugerð nr. 307/1989, um vörubifreiðar og
sendibifreiðar sem notaðar eru til leiguaksturs og takmarkanir á fjölda þeirra. Þessar reglugerðir útfærðu ákvæði laganna um atvinnusvið leigubifreiða en til leigubifreiða samkvæmt lögum um leigubifreiðar teljast fólksbifreiðar, vörubifreiðar og sendibifreiðar sem notaðar eru til leiguaksturs. Í 1. gr. laganna er kveðið á um að fólksbifreiðar eigi að annast flutninga á farþegum og farangri þeirra en sendibifreiðar og vörubifreiðar flytji vörur. Síðan segir að heimilt sé með reglugerð að kveða nánar á um mörkin á milli atvinnusviðs fólksbifreiða, vörubifreiða og sendibifreiða. Í reglugerð um fólksbifreiðar er fólksbifreiðum bannað að flytja farangur án farþega nema í undantekningartilfellum, enda sé um að ræða flutning bréfa, skjala eða annarra sérstakra verðmæta, eins og það er orðað. Samkvæmt reglugerð um vörubifreiðar og sendibifreiðar er heimilt að flytja í sendibifreið þegar nauðsyn krefur umsjónarmenn þeirrar vöru sem flutt er.
    Reglugerðir þessar voru settar að höfðu samráði við

hagsmunaaðila. Hins vegar reyndist ekki kleift að fara í einu og öllu eftir óskum þeirra enda oft um margs konar óskylda hagsmuni að ræða. Þessi ákvæði eru þau fyrstu, og það er nauðsynlegt að undirstrika það: Þetta eru fyrstu ákvæðin í reglugerð sem fjalla um þetta efni, en um langan aldur hafði það tíðkast að fólksbifreiðar flyttu einhvers konar varning. Þessum ákvæðum var ætlað og er ætlað að takmarka mjög rétt fólksbifreiða til slíkra flutninga frá því sem áður var og hafði viðgengist með því að heimila þá aðeins í undantekningartilfellum og tilgreina nánar þann varning sem heimildin nær til. Rök þóttu ekki standa til þess að banna með öllu flutning þessa ákveðna varnings með fólksbifreiðum. Flutningur þeirra verðmæta sem fellur undir 2. gr. reglugerðar nr. 308/1989 er því frjáls og hafa sendibifreiðastjórar og jafnvel vörubifreiðastjórar því fulla heimild til þess að stunda slíkan akstur ef eftir því er leitað að mati samgrn.
    Sagt er í fyrirspurn að það hafi verið vilji Alþingis að skýr verkaskipting sé á milli þeirra er flytja fólk og þeirra er flytja varning. Líta verður svo á að vilji Alþingis komi helst fram í lögunum sjálfum, þ.e. í þeirri meginreglu 1. gr. að fólksbifreiðar flytji fólk og farangur og að sendibifreiðar flytji vörur og að nánar verði kveðið á um mörkin í reglugerð og síðan skeri samgrh. úr ef ágreiningur rís um mörkin. Ákvæði reglugerðanna verða að sjálfsögðu að standast lög og hefur það álitaefni verið borið undir umboðsmann Alþingis en hann komst að þeirri niðurstöðu að umræddar reglugerðir stæðust lög.
    Í öðru lagi segir hér í því svari sem mér hefur borist frá samgrn. vegna þessarar fyrirspurnar: Sömu rök búa enn að baki ákvæðum reglugerða um leigubifreiðar þrátt fyrir tilkomu virðisaukaskatts og hefur því ekki komið til tals að undanförnu í samgrn. að breyta reglugerðum um leigubifreiðar. Ef hins vegar er óhjákvæmilegt að taka á þessu máli virðist ýmislegt koma til athugunar en það er nokkuð flókið úrlausnarefni. Í þeim efnum eru uppi þrír aðalmöguleikar. Í fyrsta lagi sá möguleiki að breyta reglum um heimild leigubílstjóra til þess að flytja vörur í undantekningartilvikum, enda sé um
að ræða bréf, skjöl eða önnur slík sérstök verðmæti eins og þetta er í reglugerðinni núna. Þessu væri út af fyrir sig hugsanlega hægt að breyta með reglugerð. Í öðru lagi væri hugsanlegt að breyta lögum um virðisaukaskatt þannig að fólksflutningar verði skattskyldir líka. Þetta gerist þá með lagabreytingu og væri þá á verkefnasviði fjmrn. og í þriðja lagi væri það hugsanlegur hlutur að breyta virðisaukaskattslögum þannig að vöruflutningar verði undanþegnir skattskyldu en þetta yrði þá líka að gera með lagabreytingu.
    Ég tel, virðulegi forseti, að það sé sjálfsagður hlutur að fara yfir þessi mál og ég tel ekkert óeðlilegt við það að sendibifreiðastjórar vilji fá sem allra skýrust mörk á milli starfa sinna og þeirra er aka leigubifreiðum til fólksflutninga og ég tel heldur ekkert óeðlilegt við það að það komi upp viss vandi

í framkvæmdinni til að byrja með en vandinn verður fyrst nokkuð flókinn viðfangs eftir að ákveðið er að mismunandi reglur gildi um sendibifreiðar annars vegar og leigubifreiðar til fólksflutninga hins vegar að því er varðar virðisaukaskatt. Þar stöndum við og það hygg ég að sé í raun og veru kjarni málsins.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að ég hafi svarað þeim fyrirspurnum sem til samgrh. var beint.