Leigubifreiðar
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh., sem gegnir störfum samgrh., fyrir þau svör sem hann gaf hér áðan. Að vissu leyti tók hann undir það sem fram kom í fyrri ræðu minni, að sú verkaskipting sem rætt var um hefði átt að gilda en hann getur ekki svarað beint fyrir samgrn. að því leyti hvernig þessari reglugerð var komið á. Þar sem ég tel mig ekki þurfa að spyrja menntmrh. sem starfandi samgrh. meira um þetta langar mig, af því að hæstv. fjmrh. er staddur í salnum, að spyrja hann, ef ég mætti, þeirrar spurningar hvort fjmrh. hyggst breyta eitthvað lögunum um virðisaukaskatt þar sem þarna er um að ræða þessa reglugerð sem óneitanlega brýtur að vissu leyti í bága við lögin um virðisaukaskatt. Ef við tökum sem dæmi leigubifreiðar eða fólksflutningaleigubifreiðar þurfa bílstjórarnir eiginlega að ganga frá tvöföldu skattframtali, annars vegar fyrir flutninga á vörum og hins vegar fyrir flutninga á fólki. Er ekki ástæða til þess að taka þessar reglur upp aftur og koma á þarna skýrri verkaskiptingu? Það hlýtur að vera hagsmunamál fjmrh. eða ríkissjóðs að þarna sé um skýrar reglur að ræða.