Leigubifreiðar
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það vegna þess að til mín var beint þessari fsp. ( FrS: Áskorun.) Já, það er nú rétt að svara áskoruninni einnig. Það er alveg sjálfsagt að koma þeirri ósk á framfæri við opinber fyrirtæki og aðila að þeir breyti ekki sínum viðskiptaháttum þó þessi breyting hafi orðið á skattkerfinu og mér er ekki kunnugt um að það hafi verið mikið um það að menn hafi breytt þannig sínum viðskiptaháttum vegna þessara skattbreytinga. Hitt er hins vegar ljóst að tilkoma fax-véla hefur mjög breytt starfsháttum opinberra stofnana. Stærsti hlutinn af bréfum og gögnum, sem áður voru send með bifreiðum eða sendiboðum milli húsa, er nú sendur í krafti tækninnar með símalínum milli skrifstofa. Það er ein meginástæðan fyrir því að mjög hefur dregið úr slíkum sendiferðum milli opinberra stofnana og ríkisfyrirtækja.