Leigubifreiðar
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að taka þátt í þessari umræðu svo og hv. 1. þm. Reykv. og fjmrh. fyrir þau svör sem hann gaf okkur hér áðan um eðli virðisaukaskatts. Að sjálfsögðu höfum við þingmenn vel gert okkur grein fyrir virðisaukaskattinum og hvernig hann kemur til með að lenda á hinar og þessar stéttir. En það er rétt sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Reykv. að sendibifreiðastjórar hafa einkum lýst óánægju sinni með það að opinber fyrirtæki og einstaklingar og aðrir sem hafa notað þjónustu þeirra hafi að vissu leyti breytt frá sendibílum yfir í leigubíla til ýmissa pakkaflutninga út af því að virðisaukaskatturinn hefur lagst ofan á gjaldið hjá sendibílstjórum.
    Ég skora á fjmrh. að athuga þessi mál nánar innan Stjórnarráðsins og kannski einnig virðulegan forseta Alþingis hvernig háttað er málum á Alþingi, hvort leitað er eftir sendibílum eða leigubílum þegar flytja skal ýmsan varning, bréf og annað.
    Að lokum þakka ég kærlega fyrir þessa umræðu og ráðherrum og öðrum sem tekið hafa til máls í henni.