Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 548 til hæstv. fjmrh. um könnun á tilhögun opinberra rekstrarverkefna. Fsp. er auðveld og einföld og á þessa leið:
    ,,Hvað líður könnun á tilhögun útboða opinberra rekstrarverkefna samkvæmt þál. frá 18. maí 1989?``
    Á 111. þingi flutti ég till. um þetta efni. Hún var á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra í samráði við aðra ráðherra að gera athugun á því á hvaða sviðum ríkisrekstrar sé hagkvæmt að efna til útboða. Skulu niðurstöðurnar lagðar fyrir Alþingi í formi skýrslu þegar að athugun lokinni.``
    Hv. fjvn. fjallaði ítarlega um þessa tillögu og í samráði við mig var till. breytt og var í þremur liðum ályktað að fela fjmrh. í samráði við aðra ráðherra að framkvæma ákveðna hluti. Í fyrsta lagi að kanna á hvaða sviðum og í hve miklum mæli útboðum hafi verið beitt. Í öðru lagi hvaða reynsla hafi fengist af slíku með tilliti til kostnaðar miðað við sambærileg verkefni sem unnin hafa verið án útboðs. Og loks, sem skiptir kannski mestu máli, á hvaða sviðum ríkisrekstrar sé rétt og hagkvæmt að efna til slíkra útboða og hvaða sjónarmiða skuli gæta við val slíkra útboðsverkefna.
    Árið 1970 voru sett lög hér á landi um útboð opinberra framkvæmda. Þau hafa reynst vel. Að vísu hefur lögunum ekki verið fylgt út í ystu æsar og þarf auðvitað að ganga eftir því að svo verði gert, eins og t.d. hvað varðar skilamat sem er nauðsynlegt til þess að menn átti sig á því hve góða hluti þeir eru að gera. Það er þess vegna sem áhugi minn beindist að því að bjóða jafnframt út opinber rekstrarverkefni sem er tiltölulega auðvelt og hefur verið gert víða í öðrum löndum.
    Með tillögu minni var ítarleg grg. sem mestan part var þýðing á dönskum leiðbeiningum, þ.e. leiðbeiningum dönsku hagsýslunnar til ýmissa opinberra aðila sem hafa með höndum opinber rekstrarverkefni.
    Ég minni á það að lokum, virðulegur forseti, að nú hefur verið settur á virðisaukaskattur sem auðvitað hjálpar verulega til í þessum efnum því að þegar söluskattskerfið var í gildi þá var nánast ómögulegt fyrir einkaaðila að keppa við opinbera aðila sem slepptu eða gátu sleppt því að greiða söluskattinn. Nú hafa forsendur breyst og þess vegna full ástæða til þess að gera breytingar á þessu sviði og því kref ég hæstv. fjmrh. svara við þessari spurningu.