Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hv. þm. Friðrik Sophusson flutti hér á síðasta ári og var samþykkt í nokkuð breyttri mynd á Alþingi var mjög athyglisverð og þau markmið sem þar koma fram eru í fullu samræmi við það sem ég tel eðlilegt að keppa að og fylgja í tilhögun opinberra framkvæmda og á sviði reksturs hjá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum.
    Það hefði vissulega verið ástæða til að sinna þessu máli af miklum krafti strax í kjölfar þess að tillagan var samþykkt. Hins vegar verður að segja þá sögu eins og er að það hefur ekki verið unnið með þeim hætti að þessari framkvæmd að á þessu stigi liggi fyrir sú heildarúttekt og könnun sem hv. þm. reifaði hér að samþykkt var á Alþingi á sínum tíma.
    Ég tek alveg undir það með honum að það er nauðsynlegt að hún fari fram hið fyrsta og mun beita mér fyrir því að á þessu ári verði verkinu lokið. Hins vegar hefur með ákveðnum hætti verið unnið að því á þeim vettvangi þar sem opinber útboð fara aðallega fram að fylgja eftir markmiðum þáltill. sem hv. þm. vék hér að. Eftir samþykkt till. fól fjmrn. Innkaupastofnun ríkisins að sinna sérstaklega athugun á breyttum starfsháttum á þessu sviði. Í því skyni voru markmið og áherslur í starfi Innkaupastofnunar ríkisins endurmetin og skipulag hennar tekið til endurskoðunar m.a. í því skyni að auka útboð á rekstrarvörum og kynningu á þeim afsláttarsamningum sem Innkaupastofnun ríkisins hefur gert við verslunarfyrirtæki í ýmsum greinum viðskipta og þjóna þeim tilgangi að opinberir aðilar geti fengið vörur og þjónustu með ódýrari hætti. Þessi útboð hafa aðallega beinst að rekstrarvörum á undanförnum tveimur missirum og er þar um að ræða bæði smátt og stórt sem þó skiptir máli þó smátt sé þegar á heildina er litið.
    Í þessu sambandi vil ég nefna sem dæmi að slík útboð í samræmi við ákvæði þáltill. og hina nýju starfshætti Innkaupastofnunarinnar hafa þegar skilað
verulega hagkvæmari innkaupum á m.a. pappírsvörum, á röntgenvörum af ýmsu tagi, á margvíslegum rekstrarvörum sjúkrahúsa, á plastpokum og plastvörum af ýmsu tagi. Nú þegar hafa verið gerðir afsláttarsamningar við u.þ.b. 60 fyrirtæki sem mjög stuðla að því að bæta hagkvæmni útboða og innkaupa.
    Þetta vildi ég láta kom fram um leið og ég undirstrika sérstaklega að fjmrn. mun á næstu tveimur til þremur mánuðum halda þessu verki áfram og byggja á því starfi sem Innkaupastofnunin hefur unnið á seinni hluta síðasta árs og fyrstu mánuðum þessa árs og leggja síðan fyrir Alþingi niðurstöður þessarar heildarkönnunar þegar Alþingi kemur saman næsta haust.