Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég kynnti mér það fyrir nokkrum vikum hvernig þetta mál stæði og varð þá fyrir nokkrum vonbrigðum því að ekki hafði mikið gerst. Nú upplýsir hæstv. ráðherra að þessi mál séu farin af stað og þegar hafi verið gert átak hvað varðar útboð á rekstrarvörum. Ég fagna því að sjálfsögðu en hinu þó fremur að hæstv. ráðherra skuli hafa sagt hér að hann telji að hugmyndirnar í þál. séu í samræmi við þær hugmyndir sem hann hafi um útboð á opinberum þjónustuverkefnum. Ég tel það mjög mikilvægt að hagsýslustofnunin standi undir nafni. Ég tel að á undanförnum árum hafi því miður of lítið verið gert af því af hálfu viðkomandi fjmrh. að notfæra sér þá þekkingu sem þar er eða hægt er að kaupa í ýmsum efnum en eitt er þó augljóst, og það hafa dæmi annars staðar sannað, að hægt er að spara verulega og ná meiri árangri í fjármálum ríkisins ef opinberir aðilar bjóða út þá opinberu þjónustu sem ætla má að menn sækist eftir að inna af hendi og næg samkeppni er fyrir á útboðsmarkaðinum.
    Ég fagna svari hæstv. ráðherra og vænti þess að á næstu mánuðum verði þessu starfi fram haldið og mun ég að sjálfsögðu fylgjast með að svo verði gert og áskil ég mér þá rétt til þess að vera með frekari fsp. á næsta hausti ef svo vill til að hæstv. ríkisstjórn lifir til þess tíma.