Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Í júni sl. kom út skýrsla um stöðu Námsgagnastofnunar og framtíðarþróun og er hún unnin af nefnd sem skipuð var í janúar í fyrra. Í skýrslu þessari er að finna fróðlega úttekt á stöðu stofnunarinnar og fram koma ýmsar ábendingar og tillögur um æskilega þróun og verkefni stofnunarinnar í framtíðinni. Eins og flestir vita hefur Námsgagnastofnun því miður búið við fjársvelti í áraraðir. Þess vegna hefur stofnunin þrátt fyrir mikla nýsköpun á sviði námsefnisgerðar á síðustu árum ekki haft burði til að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem henni eru ætluð. Í skýrslunni kemur fram að gerð hefur verið könnun á viðhorfum kennara til námsefnis en samkvæmt henni kemur fram það mat kennara að námsbækur gegni afar þýðingarmiklu hlutverki í skólastarfi og gæði þeirra skipti sköpum um þá menntun sem veitt er í landinu. Þá kemur einnig fram í rannsókn á breytingum á námsskrá í líffræði að nýsköpun í námsefnisgerð hefur hvetjandi áhrif á kennara til nýbreytni starfs í skólum. Auðvitað þarf svo ekki að minnast á hversu mikilvægt það er í uppeldi barna að þau læri að nota bækur. Í því ástandi sem nú ríkir eru kennarar í hverjum skóla að bjarga sér með hjálp ljósritunarvéla og dreifa stökum blöðum eða heftum til barnanna en afar misjafnt er hvernig börnum tekst að halda slíku í röð og reglu og hvaða virðingu þau bera fyrir slíku pappírsflóði að ekki sé minnst á þann kostnað sem því fylgir.
    Kennarar öðlast í starfi sínu mjög fjölþætta reynslu og vegna þess hve lítið úrval námsgagna hefur staðið til boða hafa margir hreinlega samið sitt eigið námsefni til notkunar fyrir nemendur sína. Afar mismunandi er hvernig til tekst með að dreifa slíku efni til annarra kennara og skóla og öruggt er að víða eru menn að vinna að svipuðum eða sambærilegum verkefnum meðfram sínum kennslustörfum. Vegna hinnar fjölþættu og dýrmætu reynslu sem kennarar öðlast inni í skólastofunni í daglegri umgengni við nemendur tel ég mjög mikilvægt að þá reynslu væri hægt að nýta til námsefnisgerðar. Kennsla er mjög krefjandi og getur verið lýjandi starf og því mjög æskilegt að kennarar eigi þess öðru hverju kost að fást við önnur viðfangsefni tengd skólastarfinu. Því er nauðsynlegt að einhver sveigjanleiki sé í kerfinu og hindrunarlaust sé hægt að nýta áhuga og reynslu kennara til námsefnisgerðar en þeir gætu þá um leið fengið tækifæri til að horfa á skólastarfið frá öðru sjónarhorni og bæta enn við reynslu sína.
    Það vakti athygli mína við lestur þessarar ágætu skýrslu um Námsgagnastofnun að kennarar sem ráða sig tímabundið til starfa við námsefnisgerð missa þá um leið ýmis mikilvæg réttindi svo sem lífeyrisréttindi og það sem mér fannst enn undarlegra er sú staðreynd að vinna við námsefnisgerð skuli ekki metin jafngild kennslureynslu, t.d. gagnvart rétti til námsorlofs. Að mínu mati er kennslureynslan og þær hugmyndir sem kennarar fá í starfi sínu eitt það mikilvægasta við samningu góðs og fjölbreytts námsefnis.

    Vegna þessa hef ég leyft mér á þskj. 552 að beina tveimur fsp. til hæstv. menntmrh. og þar sem þær eru hér á þskj. mun ég ekki lesa þær.