Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans hér. Það kom reyndar fram í svari hans, eins og við vissum, að þessi námsgagnagerð er venjulega aukabúgrein hjá kennurum. Þeir sinna henni samhliða starfi sínu. Ég tel mjög nauðsynlegt að kennarar geti um tíma unnið eingöngu að námsefnisgerð. Ekki mæli ég þó með að einhverjir höfundar verði æviráðnir eða því um líkt því auðvitað hlýtur að þurfa að nýta reynslu, hugmyndir og þekkingu sem flestra. En ég teldi mjög æskilegt að kennarar gætu horfið frá störfum, t.d. í eitt ár eða tvö, til þess að sinna gerð ákveðins námsefnis án þess að þeir þó missi við það réttindi. Í skýrslunni segir á bls. 39, með leyfi forseta:
    ,,Kennarar sem ráðast tímabundið sem höfundar að Námsgagnastofnun halda ekki ráðningarbundnum réttindum sínum hjá ríkinu. Starf þeirra kennara sem vinna höfundarvinnu fyrir stofnunina er ekki metið jafngilt kennslureynslu, t.d. gagnvart rétti til námsorlofs. Flestir höfundar semja námsefni samhliða öðru starfi og geta því ekki helgað sig námsefnisgerðinni. Þetta kemur sér einkum illa þegar um stærri verk er að ræða.``
    Ég heyri það á hæstv. menntmrh. að hann sér ekkert því til fyrirstöðu að fara í viðræður um aðra skipan mála, alla vega um ákveðin verkefni, stærri verkefni. Ég vona að námsefnisgerð eigi eftir að eflast og kennarar geti nýtt sér þekkingu sína og tekið sér hvíld frá daglegu amstri skólastarfsins til þess að sinna slíkum skapandi og uppbyggilegum verkefnum. Ég tel einmitt að við námsefnisgerð hljóti að koma fram hámarkskrafa um kennslureynslu þar sem þeir sem semja námsefni hafi ekki viðbrögð nemendanna við námsefninu meðan þeir eru að semja það. Það hlýtur því að þurfa að gera alveg sérstakar kröfur til þeirra sem námsefni semja um að þeir hafi reynslu af kennslu sem nýtist þeim í námsefnisgerðinni.