Hönnunarkostnaður við Þjóðleikhúsið
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Sá hönnunarkostnaður sem hér er spurt um snertir verkefni sem kostar á verðlagi ársins 1989, í september, 540 millj. kr. Þar er annars vegar um að ræða þau verkefni sem ætlunin er að vinna á þessu ári sem kosta í kringum 300 millj. kr. og hins vegar verkefni sem gætu komið til framkvæmda á næstu árum sem kosta þá um 240 millj. kr. til viðbótar.
    Algengur hönnunarkostnaður, ráðgjafar- og skipulagskostnaður bygginga hér á landi, hvort sem það eru opinberar byggingar eða byggingar í einkaeigu, er 15--20% af kostnaðarverði verkefnanna. Ef um er að ræða 15% hlutfall af þessari vinnu gæti hönnunarkostnaður orðið í kringum 80 millj. kr. Til eru dæmi um mikið hærri hönnunarkostnað, sérstaklega þegar um er að ræða gamlar byggingar. Þar eru til dæmi um fjórðungskostnað við hönnun og endurskipulag og endurmælingar á viðkomandi gömlum húsum. Þar höfum við dæmi um mjög háar tölur, allt upp í 25% af kostnaði.
    Sá kostnaður sem áfallinn er vegna hönnunar Þjóðleikhússins til þessa er hins vegar 8--9% af kostnaðarverði þess verkefnis sem hér er verið að tala um og fjallað er um í hinni stóru, þungu, þykku bók, um 8% af því verkefni eða samtals 48.906.199 kr. Þessi kostnaður skiptist þannig að á árinu 1988 komu til skjalanna 1.529.165 kr. Þar var um að ræða Almennu verkfræðistofuna, Rafhönnun hf., Línuhönnun hf. og Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar. Á árinu 1989 er um að ræða tölur sem skiptast sem hér segir:
    Fyrst vegna hönnunar. Kostnaður framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins 261.500 kr., kostnaður Innkaupastofnunar ríkisins 821.780 kr., Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins 162.430 kr., fyrirtæki sem heitir Guðmundur og Kristján og ég kann engin deili á 229.897 kr. Síðan kemur hér
liður sem gæti verið svar við hliðarfyrirspurn hv. þm., þ.e. liðurinn ljósritun 431.698 kr. Línuhönnun hf. 669.543 kr., Rafteikning hf. 1.240.761 kr., Verkfræðistofa Stefáns Ólafssonar 3.222.803 kr., fyrirtæki sem heitir því skemmtilega nafni Forsjá og ég veit nú ekki alveg hvað gerir 1.485.057 kr., Rafhönnun hf. 3.413.397 kr., Lagnatækni sf. 4.698.850 kr., Almenna verkfræðistofan 5.784.170 kr. og húsameistari ríkisins 14.850.682 kr. Samtals er hér um að ræða kostnað vegna hönnunar upp á 37.291.652 kr.
    Þá hefur verið greitt vegna ráðgjafar sem hér segir:
    Það er í fyrsta lagi Miklos Ölvercky 560.149 kr., Hjörleifur Stefánsson arkitekt 231.084 kr., Skipulag og stjórnun sf. 484.472 kr., dr. Steindór Guðmundsson 110.880 kr., Krone og Koch 338.644 kr., Stefán Einarsson 582.370 kr., Jón Thordarson 13.861 kr. Samtals 2.321.460 kr.
    Þá er um að ræða greiðslur til starfsmanns og starfsliðs byggingarnefndar upp á 2.936.922 kr. Síðan til viðbótar þessu og inni í tölunni sem ég nefndi áðan upp á 48,9 millj. eru væntanlegir reikningar frá

húsameistara ríkisins upp á 4,8 millj. kr., getur því miður ekki verið nákvæmara þar sem reikningarnir eru ekki komnir í hús. Heildarniðurstaða verður þá 48.906.199 kr. eða sem svarar 8--9% af kostnaðarverði þess áfanga sem hér hefur verið unnið að sem kostar á verðlagi í september 1989 540 millj. kr.