Hönnunarkostnaður við Þjóðleikhúsið
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa mjög svo athyglisverðu fyrirspurn og ráðherra fyrir hans ekki síður athyglisverða svar sem leiðir í ljós að hönnunarkostnaður er gersamlega úr böndum í þessu landi. Nægir að taka sem dæmi hönnunarkostnað við hið nýja Alþingishús sem mér skilst að sé núna orðinn einhvers staðar á bilinu 30--40 millj. kr. fyrir þær teikningar sem við höfum fengið að berja augum. Það væri mjög athyglisvert að fá upplýst, til að mynda með það verkefni, nýja þinghúsið, hvað það mundi leggja sig út í tímakaupi. Ég er hræddur um að skjálfti færi um fólk ef það fengi þær upplýsingar í hendur. En eftir að hafa hlustað á þessi svör þykir mér alveg einsýnt og ljóst að það verður að taka á þeim þætti sem er hönnunarkostnaður yfirleitt í landinu. Hann er gersamlega úr böndum og allt, allt of hár.