Hönnunarkostnaður við Þjóðleikhúsið
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil, eins og síðasti ræðumaður, þakka fyrirspyrjanda fyrir að bera þessa fyrirspurn hérna fram. Hins vegar fyndist mér mjög æskilegt að við þingmenn fengju þessar upplýsingar í hendurnar í skriflegu formi og er fyrirspurnin reyndar þess eðlis að á margan hátt hefði verið betra að hún hefði verið skrifleg. Að vísu kemur þetta í þingtíðindum á sínum tíma þannig að við fáum þessar upplýsingar þar.
    En það er annað sem ég ætla að vekja athygli á hérna og ég held að sé tímabært að hið opinbera skoði, hvort sem það er ríki, borg eða sveitarfélög að það virðist svo sem hönnunaraðilar gangi á lagið þegar um er að ræða opinbera aðila og treysti því að þar sé hægt að koma með nánast hvaða reikning sem er. Það er ekki einsdæmi að við sjáum svona tölur þó að það sé sjaldnar sem við fáum að sjá upplýsingarnar sundurliðaðar.