Hönnunarkostnaður við Þjóðleikhúsið
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir ummæli hv. 5. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Vesturl. Þessir kostnaðarþættir eru úr böndunum, já, það er rétt, í þjóðfélaginu. Þeir eru mjög háir. Og þeir eru mjög erfiðir viðfangs vegna þess að þeir aðilar sem hér um ræðir eru mjög oft í einokunaraðstöðu gagnvart þeim fyrirtækjum sem eru að skipta við þá.
    Hér er oft um að ræða tiltölulega þröngt sérfræðisvið sem opinberir aðilar eru svo að segja dæmdir til að nota sér og eiga erfitt með oft og tíðum að leita til annarra því að viðkomandi aðili hefur þjálfun og færni viðurkennda. Þetta veldur því að reikningar af þessum toga eru satt að segja oft og tíðum með þeim hætti að það er með öllu blöskranlegt fyrir hinn almenna mann að sjá þær tölur sem þar birtast stundum.
    Satt að segja er ekki hægt að svara þessum vanda með því að bjóða alla hönnunarþætti út því margir eru svo litlir. Hins vegar mætti auðvitað hugsa sér að hið opinbera gerði gangskör að því að gera heildarsamninga við fyrirtæki sem ríkið verður að skipta við á ýmsum sviðum. Vandinn er sá að ríkið hefur samið við einn lagnasérfræðing í þessari byggingu og kannski þann sama í annarri án þess að í raun og veru séu nein sérstök tengsl á milli þessara tveggja ríkisstofnana. Spurningin er sú hvort ríkið gæti beitt sér fyrir því að tekið væri á þessum málum heildstæðara en oft er gert. Ég hygg að margir ástæður séu fyrir því að það er ekki gert. Ein er einmitt sú að upphæðirnar eru oft svo litlar að mönnum finnst satt að segja ekki taka því að vera að leggja í sérstakt vesen út af þeim. En þegar menn sjá tölurnar svona samanlagðar eins og ég var að lesa upp áðan þá sést að margt smátt gerir eitt firnastórt stundum.