Fræðsla um kynferðisbrot
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Af ærnu tilefni lagði ég fram margar og ítarlegar fyrirspurnir til fjögurra ráðherra um það hvað liði aðgerðum vegna tillagna nauðgunarmálanefndar, en hún skilaði niðurstöðum og tillögum til úrbóta í skýrslu til dómsmrh. í október 1988, eins og þingmönnum ætti nú að vera kunnugt. Síðan hefur lítið sem ekkert verið gert og var það einmitt tilefni fyrirspurnarinnar.
    Hæstv. heilbrrh. og dómsmrh. svöruðu fsp. sínum í byrjun febrúar og forsrh. viku síðar. Þessi fsp. sem hér er borin fram tengist hinum efnislega en hún hefur beðið þar til nú vegna anna.
    Það er skemmst frá því að segja að svör ráðherranna gáfu til kynna að harla lítið hefur í raun verið gert í þessum efnum. Hins vegar kom jafnframt í ljós að fsp. höfðu þegar hreyft við málinu og kynntu ráðherrar ýmsar fyrirætlanir sínar um samstarf ráðuneyta til að hrinda tillögum nauðgunarmálanefndar í framkvæmd og það hið fyrsta. Í þeim tillögum kom einmitt fram hve mikilvægt væri að fræða alla þá sem hlúa að fórnarlömbum kynferðisbrota. Það er í raun grundvallaratriði til að tryggja hugarfars- og viðhorfsbreytingu sem leiðir til árangursríkrar meðferðar. Almenn fræðsla um kynferðisbrot er líka nauðsynleg til að auka skilning manna á vanda þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi en sérstaklega er þó mikilvægt að beina fræðslu og umræðu að ákveðnum markhópum eins og t.d. þeim sem nú eru að vaxa úr grasi og verða fullorðna fólkið og foreldrarnir í samfélagi morgundagsins.
    Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. menntmrh. á þskj. 563:
,,1. Hefur verið skipulögð sérstök fræðsla á vegum menntamálaráðuneytisins um kynferðisbrot, áhrif þeirra á brotaþola, fyrirbyggjandi aðgerðir gegn slíkum brotum og meðferð þeirra?
    2. Hefur menntamálaráðherra í hyggju að beita sér fyrir því að slík fræðsla verði
    a. hluti af grunnnámi heilbrigðisstarfsfólks og lögreglumanna,
    b. hluti af reglubundinni endurmenntun þessara starfsstétta,
    c. hluti af skyldunámi í framhaldsskólum?``